21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3469 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mig langar til að lýsa hinum fyllsta stuðningi við það mál sem hér er til umr. Hér er auðvitað um að ræða tiltekin mannréttindamál þeirra sem lökust hafa haft kjörin — mannréttindi sem aðrir hafa notið um langa hríð, og vitaskuld er þetta mál að öllu leyti tímabært og þó fyrr hefði verið.

Um efnisatriði þessa máls þarf, að ég hygg, ekki að hafa fleiri orð, en mig langar til að vekja athygli á „prinsip“-málum sem ég tel að varði frv. af þessu tagi. Hv. frsm. Eðvarð Sigurðsson vék raunar að því í lok máls síns. Þetta eru þau „prinsip“ sem fjalla um það sem stundum er kallaður frjáls félagaréttur, stundum frjáls samningsréttur, og virðist fara eftir því hvernig hin pólitísku kaup ganga fyrir sig hverju sinni.

Mér hefur iðulega þótt gæta bæði ósamkvæmni í málflutningi af þessu tagi og eins hins, að það eru uppi ærið ruglingslegar hugmyndir um það, hvar hinn frjálsi félagaréttur er í landinu, hvað frjáls samningsréttur þýðir og hvenær þeim frjálsa samningsrétti lýkur og þingræðið tekur við. Réttilega vék hv. þm. að þessu í lok máls síns.

Því segi ég þetta, að frv. af þessu tagi hafa verið til umr. í þessari d. fyrr í vetur. Ég nefni sem dæmi frv. um beinar kosningar í samvinnufélögum. Slíku frv. hefur verið mótmælt á þeirri forsendu, að með því að ræða frv. væri Alþ. að ganga inn á hinn frjálsa félagarétt í landinu. M: a. s. var það formaður í flokki hv. frsm. sem ótæpilega beitti þessum rökum.

Rökum af þessu tagi hefur verið beitt um hin almennu efnahagsmál. Ég nefni fyrirkomulag vísitölu eða hver önnur almenn efnahagsmál sem hér eru iðulega til umr. Og mér þykir það satt að segja iðulega koma fram, og þá ekki síst í máli hv. frsm. fyrir þessu frv., að bæði séu menn í þessari hv. stofnun ærið ósamkvæmir sjálfum sér í málflutningi um hugmyndir þessar og eins hitt, að beinlínis séu lífsskoðanir manna orðnar ærið ruglingslegar um þessi atriði. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, og neita að líta á það sem fjandskap, hvorki við launþegahreyfinguna né launþega í landinu yfir höfuð, þó að því hafi iðulega verið haldið fram, einkum af nokkrum forsvarsmönnum í Alþb., að sé það skoðun Alþ. að lög beri að setja til að uppfylla tiltekið réttlæti eða ná fram tilteknu jafnrétti, þá beri Alþ. og hafi til þess fullan rétt að setja slík lög. En fyrir slíkar hugmyndir hafa pólitískir aðilar iðulega verið að setja fót með almennum, en ruglingslegum hugmyndum um að einhvers staðar á óljósum stað liggi einhver óljós mörk á milli frjáls samningsréttar, frjáls félagaréttar annars vegar og þingræðis hins vegar. En hins vegar sýnist manni að í annan tíma, þegar mönnum þykja hinir pólitísku vindar blása öðruvísi, dragi þeir þessi mörk upp á nýtt og telji að nauðsyn brjóti þessa almennu reglu.

Ég tel að með því að styðja að framgangi þessa máls, styðja þetta frv., sé á engan hátt verið að ganga inn á frjálsan félagarétt eða frjálsan samningsrétt og vísa þar með til raka bæði hv. frsm. og hæstv. félmrh. Hins vegar og í ljósi svo margra umr., sem hér hafa farið fram í vetur á þinginu, finnst mér vert að undirstrika rækilega hversu hugmyndir þessar eru orðnar ruglingslegar og hversu menn skipta frjálslega um skoðun á þessu máli eftir því um hvað menn eru að semja og hvers konar lög menn eru að samþykkja.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson gat raunar um það undir lok máls síns, að hann teldi að hitt væri raunar æskilegra, að um málið næðist samkomulag í frjálsum samningum, og vék að því að áframhald á þessu máli kynni að verða í frjálsum samningum. Undir þau almennu rök og röksemdir má auðvitað taka. En ég held að það væri hollt fyrir þessa stofnun að hafa um það, þegar betra ráðrúm gefst, hreinskilnislegar umr., hvar menn telja að hin eðlilegu valdmörk liggi, hvenær frjálsum samningum og frjálsum félagarétti lýkur og þingræðið tekur við, því að það er satt að segja ærið þreytandi að menn taki sér þennan rétt þegar þeim býður svo við að horfa, en neiti hins vegar að ræða almennar leikreglur þar um.

Ég tel að ég sé að hegða mér nákvæmlega í samræmi við fyrri skoðanir og fyrri yfirlýsingar og þurfi á engan hátt að hika við að rétta upp hönd til að samþykkja þetta frv. Ég tel að þingræðið eigi svo að vinna. Ég get hins vegar vel skilið að þeim, sem leika sér að því að rugla með þessar almennu hugmyndir fram og til baka eftir því hvernig hin pólitíska verslun gengur fyrir sig hverju sinni, sé skringilega innanbrjósts, því að það er leikinn skollaleikur um þessar grundvallarhugmyndir. Mér hefur fyrir löngu ofboðið hvernig hann er leikinn og hygg að svo sé um fleiri úti um hið stóra samfélag.