21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. meiri hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tel að umr. þess efnis sem hv. 7. þm. Reykv. kom inn á núna eigi út af fyrir sig ekki heima varðandi þetta mál, en vegna orða, sem hann lét falla, vil ég aðeins segja örfá orð.

Frjáls félagaréttur, hugsanleg afskipti löggjafans af félagsmálum, frjáls samningsréttur o. s. frv. er geysilega mikið mál og þyrfti langan tíma til þess að gera því einhver skil. En í mínum huga er málið ákaflega einfalt. Í grundvallaratriðum álít ég að það sé affarasælast að aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um ekki aðeins hagsmunamál launafólks, heldur og einnig margs konar samskiptamál. Hins vegar er mér alveg ljóst, að eins getur það gerst að löggjafinn taki upp mál svipaðs eðlis og hér um ræðir, sem aðilar vinnumarkaðarins eru ekki eða kannske geta ekki orðið sammála um, og þá fer það að sjálfsögðu eftir stöðu hins pólitíska valds í landinu hvaða stéttir hafa mest áhrif hverju sinni á framgang slíkra mála.

Það, sem gerst hefur iðulega í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, er að þeir hafa komið sér saman og samið um tiltekin mál sem síðan verða löggjafarmál. Þetta tel ég út af fyrir sig eðlilegt. Þar set ég hins vegar skörp skil, hvernig hagsmunamál um er að ræða. Það geta verið beggja aðila hagsmunir sameiginlega eða andstætt öðrum hvorum aðilanum. En þegar löggjafinn fer að skipta sér af, og kannske oft á grófan hátt, sjálfu félagafrelsinu, þ: e. a. s. láta til sin taka innri mál samtakanna, þá set ég mig í vörn. Slíkt álit ég að löggjafinn ætti ekki að gera nema því aðeins að áður væri búið að undirbúa þau mál þannig að samkomulag væri um þau. Þar er áreiðanlega það viðkvæma í þessu, sérstaklega varðandi verkalýðshreyfinguna, sem vissulega er stór aðili í þjóðfélaginu, að ef takmarka á félagafrelsi hennar og með löggjöf að fara að breyta skipulagi innri mála hennar er fyrst veruleg hætta á ferðum.