21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

148. mál, orlof

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Aðalefni þess máls, sem hér er til umr., er það, að nú verður Póstgíróstofunni gert skylt að greiða orlofsfé á réttum tíma, hvort sem atvinnurekandi hefur greitt orlofsféð til Póstgíróstofunnar eða ekki. Þetta verður gert með reglugerð, og það er vegna þeirrar reglugerðar sem þessi lagabreyting er nauðsynleg. Hvernig er hægt að gera Póstgíróstofunni skylt að greiða hluti sem hún veit ekki hverjir eru? Það var talað um það í Ed., að ekki væru nema einstaka svartir sauðir í atvinnurekendastétt. Ég er vissulega sammála því, og vitanlega verður ekki hreyft við öðrum en svörtu sauðunum. Ef maður svíkst um að greiða orlof, eru þá miklar líkur til þess að hann gefi nákvæmlega upp hvað þetta orlof hefði átt að vera mikið? Er þá ekki einhver óreiða hjá honum önnur og meiri? Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að Póstgíróstofan geymi orlofsfé, sem er nú svo til eini aðilinn sem það gerir. Að vísu er það á einum stað á landinu, Útvegsbankinn, hvort sem það er nú heppilegt eða ekki. Ég reikna reyndar ekki með, að það verði til lengdar þannig, því að það eiga eftir að koma gallar í ljós við það fyrirkomulag. Póstgíróstofan verður að fá þessa heimild. Vitanlega notar hún hana ekki að öðru leyti en því, að hún fer í launabókhald og skoðar það sem hún þarf að skoða bara vegna þessa eina atriðis. Það er reynslan af öllum slíkum opinberum eftirlitsstofnunum, að þær skoða frekar of lítið en of mikið. Ég er ekki hræddur við þann þáttinn og tel alveg fráleitt að þetta sé óþarft miðað við þær skyldur sem Póstgíróstofan fær með þessari reglugerðarbreytingu. Ég tel aftur á móti að þetta sé algerlega nauðsynlegt.

Flestir okkar fá laun, þótt við séum í sumarfríum, og þurfum ekkert um það að hugsa. Nú er verið að fara fram á að nokkur hluti þjóðfélagsins taki frá peninga í hverjum mánuði og geymi þá þangað til farið er í sumarfrí. Ég held að það verði ekki til bóta. Ég hvorki treysti sjálfum mér né öðrum til þess að fara þannig að. Ég vil miklu heldur að föst regla sé á þessu og menn geti farið í sumarfrí án þess að tapa launum, og það er auðvitað höfuðtilgangurinn með orlofslögunum, en ekki bara kauphækkunaratriðið.

Ég vil ekki fara fleiri orðum um málið nú,.því að ég vonast til að frv. fái afgreiðslu núna. Ég vonast til þess, að það verði samþ. óbreytt, og leggst því eindregið gegn brtt. þessari.