22.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3521 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

14. mál, rannsóknarnefnd til að kanna rekstur Flugleiða og Eimskipafélags Íslands

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að heita bæði forseta og þingheimi því að flytja ekki eins ógnarlega langar ræður og fluttar hafa verið í umr. um þetta mál hér á þingi. Þær ræður hafa kannske mótast meira af kennslu í stjórnlagafræðum en beinlínis væri rætt innihald þeirrar þáltill. sem hér er á dagskrá. En ég vil ekki láta hjá líða að taka undir ýmislegt sem fram kemur í þessari till. Ég tek undir það og tel eins og hv. flm., að tengsl Eimskipafétags Íslands og Flugleiða séu á margan hátt mjög óeðlileg. Ég tek undir með honum í þeim efnum að gagnrýna megi að mörgu leyti fjárfestingarstefnu Flugleiða á s. l. árum. Ég tek undir með honum um það, að það megi gæta að og fylgjast betur með fargjaldaáætlunum og fargjaldastefnu þeirri sem mótuð hefur verið af þeim tveimur flugfélögum sem nú heita einu nafni Flugleiðir. Ég vil líka geta þess, að margt í till. er þess eðlis að þar er að mínu mati skotið yfir mark og, eins og hv. flm. hefur sjálfur sagt hér í ræðu, stundum þurfi að taka svolítið stórt upp í sig svo að eftir sé tekið.

Mig langar að benda á nokkur atriði sem hljóta að skipta okkur mjög verulegu máli þessa daga og þessar vikur. Mig langar fyrst að víkja að þeirri fjárfestingarstefnu sem Flugleiðir hafa mótað á s. l. árum, þ. e. a. s. að fjárfesta ekki í fluginu eingöngu, heldur í ýmsum tengdum hliðargreinum. Það þarf ekki að minna á fjárfestingar félagsins erlendis í hótelum og flugfélögum, og það þarf ekki heldur að minna á fjárfestingu félagsins í hótelum og flugfélögum hér innanlands. Það verður að segjast eins og er, að hér et á ferðinni einokun á fólksflutningum innanlands og á milli landa. Störf Flugleiða eins og þau eru í dag mundu vera brot á löggjöf Bandaríkjamanna um einokunarhringi. Hins vegar verðum við að hafa í huga að forustumenn Flugleiða hafa væntanlega gert sér grein fyrir því, að loftferðasamningar Íslendinga og Bandaríkjanna voru eins konar stundargrið. Þeir hafa gert sér grein fyrir því, að flugið yfir Norður-Atlantshaf gat ekki haldið áfram endalaust í því formi sem það hófst. Það gat ekki gengið til lengdar að Loftleiðir gætu boðið sín lágu fargjöld m. a. vegna þess að það væri ekki aðili að alþjóðasambandi flugfélaga, IATA, og vegna sérstakra samninga við Bandaríkjastjórn, sem ég held að flesta renni grun í af hvaða rótum eru runnir. Ég er sannfærður um að þessir menn hafa gert sér ljósa grein fyrir því, að til þess að fyrirtækið héldi áfram að blómgast og dafna yrðu þeir að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum, sem þeir hafa og gert.

Menn geta deilt um þessa stefnu. Að mínu mati er hún og hefur verið að nokkru leyti röng, en að nokkru leyti einnig rétt. Ég vil minna á að t. d. eignarhlutur Flugleiða í Cargolux, sem á þar 1/3 á móti sænska félaginu Salenia og 1/3 á móti Lúxembúrgska flugfélaginu Lux Air, hefur rennt verulegum stoðum undir rekstur Flugleiða, bæði vegna þeirrar sameiginlegu þjónustu, sem hefur átt sér stað í Lúxembúrg, og margháttaðra samskipta og samvinnu. (Gripið fram í: Þetta er fjárfesting Loftleiða á sínum tíma.) Þetta er fjárfesting Loftleiða á sínum tíma, sem nú er hluti af Flugleiðum og breytir engu um að fjárfesting þessi er á ábyrgð þess félags sem nú heitir Flugleiðir.

Ég held að við verðum einnig að hafa hugfast að það, sem er að gerast þessa dagana, er það sem forustumenn Flugleiða óttuðust þegar þeir hófu fargjaldastríðið á Norður-Atlantshafi. Í fyrsta lagi gátu þeir ekki haldið þessu flugi áfram með þeim nánast úrelta flugkosti, sem þeir notuðu, á móti öðrum flugfélögum, sem voru bundin af fargjöldum IATA og urðu að halda sig við þær ákvarðanir, sem teknar voru á alþjóðlegum fundum þess félagsskapar. Það hefur líka komið í ljós að þau undirboð, sem nú eiga sér stað á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshaf, eru að knésetja Flugleiðir. Annað mál er og það, að sú hækkun á olíukostnaði, sem orðið hefur, er að gera þessa flugleið nánast gersamlega óvirka, þ. e. a. s. það dettur varla nokkrum manni í hug að halda slíku flugi áfram með þeim stóra krók sem Flugleiðir verða að taka á sig vegna loftferðasamninganna við Bandaríkin, — krók til þess að lenda á Íslandi og hafa hér 2–3 klukkustunda viðdvöl. Þetta gengur ekki. Bæði eykst olíukostnaður stórlega og farþegar nenna ekki að hafa 2–3 klukkustunda viðdvöl hér á landi, þegar þeim bjóðast flugferðir af því tagi sem nú eru í boði.

Annað er að gerast sem veldur því að að mínu mati standa Flugleiðir núna á brauðfótum, og ég er þeirrar skoðunar að við horfum til þess á allra næstu missirum að hér verður að stokka upp málin stórkostlega, því að það verður kannske svo, þegar þessi till. kemst í höfn um könnun, að ekki verður um neina einokunaraðstöðu að ræða, heldur baráttu upp á líf og dauða til þess að halda áfram samgöngum á milli Íslands og Bandaríkjanna og Íslands og annarra landa á meginlandi Evrópu. Við skulum líka líta á þá aðstöðu, sem Flugleiðir hafa komið sér upp eða Loftleiðir, ef menn vilja hafa það svo, í Lúxembúrg, og þá samninga, sem þeir hafa gert við Lúxembúrgarmenn. Þessir samningar eru í mikilli hættu. Lúxembúrgarmenn gera tilteknar kröfur til þess að fá aðild að Flugleiðum. Þetta er á hreinu og það þarf enginn að fara í grafgötur með hvaða afleiðingar þetta getur haft. Það hefur einfaldlega þær afleiðingar, að ef verður orðið við kröfum Lúxembúrgarmanna flyst Flugleiðaflugið að mestu leyti eða öllu leyti yfir til Lúxembúrg. Lúxembúrgarmenn hafa orðið fyrir gífurlegum þrýstingi frá nágrannaþjóðum sínum, Belgum, Frökkum, Þjóðverjum og Hollendingum vegna þess að Lúxembúrgarmenn hafa leyft Flugleiðum að starfa í Lúxembúrg. Ég held að í þessu máli öllu þurfum við að gæta að og ræða einmitt framtíð Flugleiða og þetta, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði, að hugleiða mjög vandlega hvort ekki sé orðið tímabært að við förum að kanna endurskipulagningu allra flutninga og farþegaflugs til og frá Íslandi og einnig innanlands.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, að framtíð Flugleiða sé nú í svo stórkostlegri hættu að alveg á næstunni kunni það að gerast að við verðum að láta undan kröfum Lúxembúrgarmanna um það að eignast stóran hlut í Flugleiðum og flytja megnið af starfi Flugleiða til Lúxembúrgar. Hvað stendur þá eftir af því flugi yfir Norður-Atlantshafið sem við höfum notið mikils góðs af á undanförnum áratugum? Það stendur nánast ekkert eftir annað en flutningur á ferðamönnum milli Bandaríkjanna og Íslands, sem gagngert eru að fara á milli þessara landa, en ekki annarra landa.

Ég vildi aðeins í sambandi við umr. benda á þessi atriði og taka undir það með hv. flm. till., að þessi mál ber okkur að ræða og líta á nokkuð grannt og athuga og vera viðbúnir einkum og sér í lagi því sem kann að gerast í flugsamgöngumálum Íslands á næstu mánuðum og árum.