22.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3523 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

14. mál, rannsóknarnefnd til að kanna rekstur Flugleiða og Eimskipafélags Íslands

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég mun ekki bregða vana mínum og halda langa ræðu. Ég tala í stuttan tíma. Ég vil byrja mál mitt á því að taka undir og undirstrika margt af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði, Árni Gunnarsson, hv. 11. landsk. þm., og ætlaði raunar að benda á sum þeirra atriða, en hann tók það ómak af mér. Ég er þeirrar skoðunar eins og hann, að íslenskt millilandaflug standi nú á nokkrum tímamótum eða þau séu a. m. k. ekki langt undan. Með breyttum flugvélakosti og öðru slíku verður í æ meira mæli ónauðsynlegt að hafa viðkomu á Keflavíkurflugvelli til þess að fljúga til austurstrandar Bandaríkjanna, og það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir flugreksturinn og fyrir flugvallarstarfsemina hér á landi. Þá hefur það enn fremur komið til, sem einnig var bent á, að stjórnvöld í Lúxembúrg hafa óskað eftir viðræðum við utanrrn. og utanrrh. — þó að hann hefði ekki haft tíma eins og þá stóð á til þess að taka þátt í þeim viðræðum hafa þær farið fram — um að Lúxembúrg eignaðist stærri hlut í Flugleiðum og jafnvel um að Lúxembúrg mundi sækja um lendingarleyfi í Bandaríkjunum og slíta þar með sambandinu sem hefur verið milli Flugleiða og þeirra, ef ekki semdist á hagstæðan hátt af því er þeir teldu. Hér er um geysilegar breytingar að tefla, ef úr verður, sem fyllst ástæða er til fyrir þjóðina alla og þar með ekki síst alþm. að gera sér grein fyrir.

Ég er ekki kominn hingað til þess að fella neinn dóm um það fyrir fram, hvernig starfsemi þessara félaga hvorki Eimskips né Flugleiða, hafi verið fyrir komið á umliðnum árum. Ég tel að mig skorti til þess forsendur. Sitthvað veit ég kannske eins og aðrir, en ýmislegt er óljóst í þeim fræðum sem full þörf væri á að kannað yrði. Ég er þess vegna ekki staðinn upp til þess að mótmæla þeirri athugun sem hér er verið að tala um, það er síður en svo. Ég hef heldur ekkert á móti því að starfsemi Sambands ísl. samvinnufélaga verði könnuð, og ég veit ekki til þess að neinn sé það í þeim röðum, a. m. k. hafa þær raddir ekki komið þaðan. Ég er ekki heldur á móti því að starfsemi Íslenskra aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli verði könnuð, þó að ég ætti ekki samleið með meiri hl. hv. utanrmn. í því nál. sem hér var lítillega gert að umtalsefni áðan. Ég hef á öðrum vettvangi beitt mér fyrir einmitt nokkurri könnun, þegar ég starfaði í utanrrn., á starfsemi þessa fyrirtækis, sem er umfangsmikil og áreiðanlega full þörf á að fylgst sé með, eins og mörgu sem vaxið er kannske yfir höfuðið á stjórnendum sínum.

Það sem gerir það, að ég hef þessa afstöðu til till. um rannsókn á starfsemi Íslenskra aðalverktaka og þeirrar till., sem hér er til umr., er einfaldlega það, að ég tel ekki að Alþ. hafi aðstöðu til þess að framkvæma þá könnun í slíkum mæli sem hér er gert ráð fyrir. Það er vissulega sjónarmið út af fyrir sig, sem ýmsir af hinum yngri þm. eru talsmenn fyrir, að breyta hlutverki þn. og færa það meira yfir í það horf sem tíðkast t. d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem þn. eru áhrifamikill rannsóknar- og könnunaraðili og geysivaldamiklar. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En ef út á þá braut á að fara tel ég að það eigi að gerast með þeirri endurskoðun þingskapalaga, sem fram fer, og það er alveg öruggt mál að engin slík rannsókn, sem nokkru því nafni getur nefnst, getur farið fram án þess að þn. verði sköpuð allt önnur og miklu betri aðstaða en þær búa við í dag bæði hvað snertir húsnæði, starfslið og annað slíkt, sem til þarf til þess að slík störf verði unnin. Ég tel því að ekki sé á rétta braut farið með því að samþykkja í smáskömmtum tiltekin verkefni fyrir nefndir Alþingis, án þess að huga jafnframt að því, hvernig þessi störf eigi að vinna, hvaða möguleika nefndin hafi á því að framkvæma þau, hvaða valdsvið nefndin hafi. Það er að vísu tekið fram í þessari till., að nefndin skuli hafa eins og þar segir, — ég ætla ekki að lesa það, menn þekkja það, — eitt og annað í þeim dúr sem ég tel grundvallarforsendu fyrir því að þessi háttur verði tekinn upp. Þetta er það sem veldur því, að ég felli mig ekki við og mun ekki styðja þessar till. í því formi sem þær nú eru, en ekki hitt, að ég sé mótfallinn þeirri hugsun sem sett er fram, þ. e. a. s. að Alþ. hafi möguleika á því að kanna sjálfstætt eitt og annað í rekstri og fyrirkomulagi ýmissa starfsgreina. Ég tel það fyllilega koma til álita.

Í þessu sambandi langar mig enn einu sinni að minnast á umboðsmann Alþingis. Það er orðið gamalt mál hér og var flutt fyrst af Kristjáni Thorlacius, núv. formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þáv. varaþm. fyrir Framsfl., og það var flutt á mörgum þingum og það kom nokkrum sinnum í minn hlut að tala fyrir því, því að hann var þá varamaður, eins og ég segi, og ég var stundum inni og stundum hann þegar þessi mál voru til umr. Það var fyrst og lengi vel talað fyrir daufum eyrum. Og það var fyrst þegar þáv. forsrh., Bjarni heitinn Benediktsson, tók undir þessa till. í öllum aðalatriðum, eftir að hér hafði verið rakin starfsemi danska umboðsmannsins Stefans Hurwitz, sem hefur valdið þáttaskilum í samskiptum almennings við yfirvöld í Danmörku, að skriður komst á þetta mál. Þetta muna þeir sem nokkuð tengi hafa verið á þingi eins og ég. Till. var samþ. um þetta eftir langa mæðu, en það hefur bara ekkert gerst. Og enn liggur fyrir Alþ. annaðhvort frv. eða till. um þetta mál. Nú reynir á hvaða afdrif hún fær. En ég tel þetta ekki síðri leið fyrir Alþ. til þess að afla upplýsinga og vera um leið sá aðili sem óbreyttur borgari þessa lands getur leitað til þegar hann á í höggi við yfirvöld, hverju nafni sem þau nefnast, og þarf að fá úrskurð í sínum málum.

Ég vil eindregið beina því til allra þeirra flm., sem staðið hafa að till. um slíkar rannsóknir eða kannanir, — eða hvað menn nú vilja kalla það, ég ætla ekki að gera svo mikinn mun á því, — að þeir hugleiði hvort ekki sé nauðsynlegt að kveða annaðhvort í þingsköpum nánar á um starfsvettvang og skilyrði þn. eða koma á fót embætti umboðsmanns Alþingis sem gæti með starfsliði sínu framkvæmt þessi störf. Það hefur stundum verið haft á móti þeirri hugmynd að setja á stofn embætti umboðsmanns Alþingis að það yrði dýr stofnun. Það má vel vera að hún verði dýr. En ég held að við getum aldrei gert okkur vonir um að komast afskaplega létt frá því að tryggja réttarstöðu borgaranna. M. a. s. sú hugmynd, sem hér er hreyft og annars staðar við svipuð skilyrði, hlýtur að kosta fé, enda er gert ráð fyrir því í till, að fé verði lagt til þessarar rannsóknar. Annað er auðvitað algerlega óhugsandi. Með hvaða hætti því fé er varið er matsatriði, sem ég held að Alþ. ætti að gera sér grein fyrir áður en lengra er haldið í þessum efnum.

Þetta er það sem ég vildi segja um þessa till.

Það er auðvitað afskaplega margt sem mann gæti langað til að ræða í sambandi við þau félög sem hér hafa verið gerð að umtalsefni og eru nefnd í till. þeirri sem hér er til umr. En þessar umr. eru þegar orðnar langar. Væntanlega kemur till. aftur til umr. og þá er kannske hægt að bæta einhverju við, ef maður hefur löngun til.

Ég ætla svo að síðustu að segja það við hv. 3. landsk. þm., að ég vona að ekki komi til þess að sett verði upp sérstök nefnd til þess að rannsaka æviferil hans, ekki af því að ég sé svo óskaplega hræddur við þá útkomu sem kæmi út úr því, ég held að hann sé ágætismaður, vammlaus halur og vítalaus, eins og þar stendur, heldur vegna þess að ef það veldist til þess maður að semja fsp. sem teldi sig þurfa að spyrja harkalega og spyrja skarpt til þess að það yrði tekið eftir honum, gæti nefnilega farið svo og niðurstaðan orðið sú, að fólkið í landinu færi að halda að það væri eitthvað hæft í því sem haldið væri fram.