22.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

76. mál, virðisaukaskattur og afnám tekjuskatts

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því, að það er hálfóviðkunnanlegt á Alþ. því sem nú er við störf og hefur því miður ekki komið miklu í verk það sem liðið er af þingtímanum, og er hann senn allur úti, hversu mikið er um fjarvistir þm. á þingfundum. Nú á miðjum degi eru aðeins örfáir þm. mættir, nærri því sem telja má aðeins á fingrum annarrar handar. Ég held að sé mjög óæskilegt að ekki sé betur að málum staðið en hér um ræðir, og þá vek ég athygli á því enn, þegar svo er um þetta þing, að það hefur afgreitt óvanalega fá mál frá sér. En það er kannske ekki við neinn sérstakan að sakast. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, hæstv. forseti.

Á þskj. 84 flytjum við þm. Alþfl. till. til þál. um virðisaukaskatt í stað söluskatts og um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum. Þetta mál er 76. mál þessa þings, 100. löggjafarþingsins, og till. var lögð fram alllöngu fyrir jólin. Henni var þá fyrir jól frestað og hún tekin út af dagskrá hvað eftir annað. Í vetur hvarf till. af prentaðri dagskrá í um það bil heils mánaðar skeið, og það er loksins nú sem þetta mál kemur á dagskrá, 76. mál Alþingis, og er ekki vonum fyrr ef málið á að fá einhverja afgreiðslu á þessu þingi. Ástæðan mun vera sú fyrir því, að málið var um langa hríð ekki á dagskrá Alþ., að ýmsir þm., sem fjarverandi voru á þessu tímabili, m. a. meðan Norðurlandaráðsfundur stóð yfir, höfðu óskað eftir því að málið yrði tekið út af dagskrá þangað til þeir gætu verið viðstaddir til þess að taka til máls um till. Og ég kemst ekki hjá því að vekja enn og aftur athygli á því, að þegar málið kemur loksins til umr., eftir að hæstv. forsetar Sþ. hafa að beiðni þessara þm. tekið málið hvað eftir annað af dagskrá og ekki haft það á prentaðri dagskrá þingfunda, þá eru þessir sömu þm. ekki viðstaddir. Ég vil því beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forseta um mál eins og þetta, sem lögð eru fram sem þingflokkamál, að hæstv. forseti fari ekki ýkjalangt út á þá braut sem hann hefur farið, að taka slík mál af prentaðri dagskrá æ ofan í æ samkv, beiðnum einhverra ótiltekinna þm., sem ekki sjá síðan sóma sinn í því, þegar málið loks kemst á dagskrá eftir langar tafir, að vera viðstaddir til þess að taka þátt í umr. Till. þessi á þskj. 84 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða gildandi skattalög með kerfisbreytingu fyrir augum, sem afnæmi úrelta og óréttláta skattstofna, einfaldaði skattkerfið og tryggði bætt framtöl, betri skattaskil og raunhæfara skattaeftirlit. Till. um breytingar verði m. a. miðaðar við þessi grundvallaratriði:

1. Að í ársbyrjun 1980 leysi virðisaukaskattur söluskatt af hólmi, og skal upphæð hans við það miðuð að tekjur af honum verði jafnmiklar og af núgildandi söluskatti og tekjuskatti að frádregnum þeim tekjuskatti sem áfram yrði greiddur af atvinnurekstri og hæstum tekjum samkv. síðari ákvæðum þáltill. þessarar. Sem undanfari þeirrar breytingar fari fram allsherjarendurskoðun á útgjaldakerfi ríkisins í því skyni að minnka tekjuþörf ríkissjóðs og auka stjórnunarsvigrúm við fjárlagagerð með því m. a. að draga úr sjálfvirkni útgjalda.

2. Að frá sama tíma verði felldur niður tekjuskattur af launatekjum nema þeim, sem ná hærri fjárhæðum en nemur tvöföldum meðaltekjum verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna á síðasta ári eftir að þær hafa verið leiðréttar samkv. kaupgjaldsvísitölu. Við ákvörðun á skattskyldum tekjum einstaklings af eigin atvinnurekstri skulu laun hans áætluð eins og telja má eðlilegt miðað við vinnuframlag hans í þágu fyrirtækis síns, svo og stöðu hans, og vera hliðstæð tekjum fyrir samskonar störf í atvinnurekstri eins og ráð er fyrir gert í lögum, en sérstöku eftirliti verði auk þess beitt til að koma í veg fyrir að fólk sé tekið á launaskrá án þess að það starfi í þágu fyrirtækisins, enda liggi þung viðurlög við slíku.

3. Hvort hjóna um sig verði sjálfstæður skattgreiðandi án tillits til þess, hvort vinna fer fram utan eða innan heimilis að hluta eða einvörðungu. Vinni annar aðilinn einungis á heimili skal hann eiga rétt til ráðstöfunar á hluta af tekjum hins og greiða útsvar af þeirri fjárhæð, en þó aldrei til hærri hluta en svarar til helmings af tekjum heimilisins. Ef það hjóna, sem annast heimilisstörf, sýnir fram á að það hafi ekki fengið til ráðstöfunar þann hluta teknanna sem hún eða hann er talinn eiga rétt á, ber þeim, sem tekna heimilisins aflaði, að greiða allt útsvar af þeim.

4. Af atvinnurekstri, hvort sem hann er stundaður af einstaklingum, sameignarfélögum, hlutafélögum eða opinberum aðilum, skal greiddur stighækkandi tekjuskattur.

5. Reglur um afskriftir eigna skulu annars vegar við það miðaðar, að afskriftirnar svari til eðlilegrar verðmætisrýrnunar miðað við verðmæti eignar þegar afskrift fer fram og hins vegar að jafnan sé miðað við mat á upphaflegum endingartíma eignarinnar, þ. e. að kaupandi eignar afskrifi hana með sama hætti og seljanda hennar hefði borið að gera, þannig að sama eign verði aldrei afskrifuð oftar en einu sinni.

6. Reglur um heimild til þess að draga vexti af skuldum frá tekjum skulu við það miðaðar, að um hafi verið að ræða nauðsynlega lánsfjáröflun í þágu atvinnurekstrarins.

7. Hagnaður af sölu eigna verði skattlagður að svo miklu leyti sem hann á ekki rót sína að rekja til rýrnunar á verðgildi peninga.

8. Hert verði eftirlit með framtölum og skattsvikum og skattsvik meðhöndluð með sama hætti og önnur fjársvikamál.

9. Jafnframt fari fram endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga með það fyrir augum að auka frjálsræði þeirra til þess að ákveða á hvern hátt þau afli sér tekna sinna. Þó skulu þau ekki fá heimild til þess að innheimta söluskatt né virðisaukaskatt. Í sambandi við þessa endurskoðun verði m. a. sérstaklega athugað, hvort rétt sé að sameina í einn skatt tekjuskatt til ríkisins og tekjuútsvar til sveitarfélaga þannig að hinn nýi skattur yrði lágur, en stighækkandi brúttóskattur, sem staðgreiddur yrði og skipt yrði í ákveðnu hlutfalli milli ríkis og sveitarfélaga. Þar með félli tekjuskattur einstaklinga í núverandi mynd alfarið niður og sömuleiðis tekjuútsvar í núverandi mynd.“

Herra forseti. Þar sem mál þetta hefur fengið svo langa bið hér á Alþ., þá hefur mönnum væntanlega gefist tími til grandgæfilegrar skoðunar. Í öðru lagi, þar sem hér er um að ræða mál sem þm. Alþfl. hafa áður flutt á Alþ. og fengið þar góða meðferð þó svo málið hafi ekki fengið samþykki, þá tel ég ekki ástæðu nú til þess að fara mjög mörgum orðum um efni þessarar till. og ætla því að stytta mjög mál mitt frá því sem ella hefði verið, ef till. þessi hefði komið til umr. á eðlilegum tíma, eins og ég mundi telja að hefði þurft að gera.

Á undanförnum árum hefur komið æ skýrar í ljós, að það skattkerfi, sem íslenska þjóðin býr við, er svo ranglátt að ekki verður við unað. Á grundvelli þessara skattalaga þrífst mesta þjóðfélagsmisrétti sem nú er um að ræða á Íslandi. Það er í því fólgið að meginþungi beinna skatta hvílir á herðum launafólks; en hins vegar greiða þeir, sem einhvern atvinnurekstur stunda, sáralítinn skatt af tekjum sínum. Á síðustu árum hefur það ranglæti, sem í þessu felst, verið svo augljóst og farið svo vaxandi að það er orðið eitt af brýnustu hagsmunamálum launþega að hér verði úr bætt.

Tvær síðustu ríkisstj. hafi gert talsverðar breytingar á skattalögum, en þær breytingar hafa ekki hnigið að því að gera þá kerfisbreytingu á skattheimtu ríkisins sem nauðsynleg er til að koma í veg fyrir að meginþungi beinna skatta hvíli á herðum launafólksins. Það markmið næst ekki nema með því að hverfa alveg frá innheimtu tekjuskatts í ríkissjóð af launatekjum öðrum en hæstu tekjum. Ég vil aðeins nefna það í þessu sambandi, hæstv. forseti, að að sjálfsögðu hafa með árunum stöðugt aukist skattar til ríkisins, skattbyrði þegnanna í hlutfalli af vergri þjóðarframleiðslu. Á árunum 1950–1954 voru skattar til ríkisins sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu að meðaltali 17.8%. Á árunum 1955–1959, síðari helmingi sjötta áratugsins, hafði þetta hlutfall hækkað upp í 18.7%. Árið 1978, síðasta heila árið, nam þetta hlutfall 28.8% og hafði sem sé hækkað á tímabilinu frá 1955–1959 til ársins 1978 úr 18.7% í 28%, eins og ég nefndi áðan, og hækkanirnar á sköttum til ríkisins af vergri þjóðarframleiðslu, aukning skattbyrðar hefur frá árinu 1978 til ársins 1979 hækkað um hvorki meira né minna en tvö prósentustig, úr 28% í um það bil 30%. Á sama tíma hafa skattar til sveitarfélaga sem hlutfall af sköttum ríkisins ekki vaxið að sama skapi, raunar minnkað, þannig að frá meðaltali áranna 1955–1959 eru skattar til sveitarfélaga sem hlutfall af sköttum ríkisins 31%, en á árinu 1977 voru þeir komnir niður í 26.1%. Þessi samanburður sýnir það, að á sama tíma og ríkissjóður hefur tekið til sín skatta í sívaxandi mæli, m. a. með alls konar nýjum skattstofnum, hefur tekjuþörf sveitarfélaganna ekki verið sinnt að sama skapi, enda er nú svo komið að mörg sveitarfélög í landinu eiga í örðugleikum.

Ef við berum skattbyrði á Ístandi saman við ýmis nálæg lönd, þá er það að vísu satt og rétt, að skattbyrði hér á Íslandi er nokkru lægri en víða í nágrannalöndum okkar, en þó hvergi nærri þannig að Ísland sé mjög neðarlega á blaði. Ég er hér með töflu yfir skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu á árinu 1976 í ýmsum löndum. Hæsta skattbyrðin, hæsta skatthlutfall í þessum samanburði er í Svíþjóð, en þar nema skatttekjur hins opinbera 51% af vergri þjóðarframleiðslu ársins 1976. Í öðru sæti er Noregur með 48%, í þriðja sæti Holland með 46%, í fjórða sæti Lúxembúrg með 46% og í fimmta sæti Danmörk með 44%. Á þessu ári, árið 1976, var skattbyrðin á Íslandi, sameiginleg skattbyrði, bæði beinir og óbeinir skattar, 35% af vergri þjóðarframleiðslu, og er Ísland í 12. sæti í þessum samanburði. Lönd með lægri skattbyrði á árinu 1976 eru t. d. Írland, Ítalía, Kanada, Sviss, Bandaríkin og Ástralía. Allt eru þetta þjóðir sem hafa mikla og góða afkomu og veita þegnum sínum margvíslega þjónustu, m. a. mun meiri þjónustu en íslenska ríkisvaldið veitir sínum þegnum. Það er því alls ekki rétt að halda því fram í fyrsta lagi, að Íslendingar séu með tiltölulega litla skattbyrði miðað við aðrar þjóðir, né heldur að halda því fram í öðru lagi, að þær þjóðir, sem eru með lægri skattbyrði en þekkist á Íslandi, veiti þegnunum minni félagslega þjónustu og minni tekjutilfærslu í formi almannatrygginga.

Lægst af þeim löndum, sem ég hef í þessum samanburði, eru Spánn og Japan, en bæði þessi lönd höfðu á árinu 1976 skattbyrði sem nam 22% skatttekna af vergri þjóðarframleiðslu. Í þessum samanburði, sem nær til 22 landa, er Ísland um það bil í miðið.

Það er að sjálfsögðu ekki skrýtið þó svo skatttekjur hins opinbera í hlutfalli af þjóðarframleiðslu hafi farið mjög vaxandi á undanförnum árum og þá skattbyrði þegnanna að sama skapi. Ein ástæðan er að sjálfsögðu sú, að mjög hefur verið aukin hvers konar félagsleg þjónusta og ýmsir þættir félagslegrar þjónustu, svo sem heilsugæsla, hafa orðið mjög dýrir með árunum og miklu dýrari en nemur aukinni og bættri þjónustu. Þó er ekki að leita skýringanna á þessari miklu auknu skattbyrði í þessum þáttum. Til dæmis að nefna lækkar samneyslan frá árinu 1978 til ársins 1979 í hlutfalli af ríkisútgjöldum á sama tíma og skattbyrði hækkar. Þetta kemur mönnum kannske á óvart. En árið 1978 námu samneysluútgjöld ríkisins 42.7% af heildarútgjöldum, en á yfirstandandi ári, árinu 1979, er samneyslan aðeins 38.8%, þannig að þrátt fyrir að útgjöld hafi hækkað á milli áranna og skattbyrði aukist hefur dregið úr samneyslu. Sama máli gegnir um almannatryggingar. Útgjöld til almannatrygginga í hlutfalli af ríkisútgjöldum hafa líka lækkað á milli þessara tveggja ára. Á árinu 1978 námu útgjöld til almannatrygginga 23.9% af ríkisútgjöldunum, en á árinu 1979 23.2 þannig að svarið við aukinni skattbyrði milli þessara ára liggur ekki í því, að útgjöld til almannatrygginga hafi verið aukin. Hins vegar er það talsvert í augu stingandi, að launakostnaður ríkisins og almenn rekstrarútgjöld ríkissjóðs og ríkisstofnana fara vaxandi á milli áranna 1978 og 1979, og í öðru lagi er það mjög áberandi, að útgjöld til niðurgreiðslna á vöruverði vaxa mjög mikið á milli þessara ára eða úr 4.8% árið 1978 í 9.16% á árinu 1979, og er þá átt við hlutfall af ríkisútgjöldum. Hin aukna skattbyrði á milli áranna stafar því í fyrsta lagi af auknum rekstrarkostnaði og launakostnaði ríkisins og í öðru lagi af aukningu á niðurgreiðslum (StJ: Hvað með vaxtakostnað?) Því miður hef ég ekki tölur yfir vaxtakostnað hér fyrir framan mig, en það er að sjálfsögðu mjög auðvelt að fletta því upp, en það mun vera í töflum sem gerðar hafa verið um útgjöld ríkissjóðs og eru til í fjmrn. og menn geta fengið upp þar. En ég vil enn vekja athygli á því, að þrátt fyrir aukna skattbyrði á árinu 1979 miðað við skattbyrði ársins 1978 er skýringanna ekki að leita í aukningu á samneyslu né í aukningu almannatrygginga. Það hefur orðið samdráttur á báðum þessum sviðum. Ástæðurnar fyrir hinni auknu skattbyrði eru annars vegar auknar niðurgreiðslur — mjög auknar niðurgreiðslur, tilfærsla úr öðrum vasa yfir í hinn, og hins vegar mjög aukin launaútgjöld ríkisins og ríkisstofnana og aukin rekstrarútgjöld.

Þá er það einnig mjög athyglisvert, hversu mikið hefur þrátt fyrir þetta dregið úr beinni skattheimtu á Íslandi á undanförnum árum. Beinir skattar hafa sífellt lækkað sem hluti ríkisteknanna á sama tíma og óbeinir skattar hafa vaxið. Við höfum m. a. tekið upp ýmsa nýja skattstofna, sem áður voru óþekktir, svo sem tímabundið vörugjald, sem lagt var á í sinni tíð og átti að standa skamma hríð, en er nú, eins og kunnugt er, á ýmsum vörum komið upp í 30%, sem gerir það að verkum, eftir því sem ég best veit, að bifreiðavarahlutir t. d. hafa hækkað á einu ári um 150% sem afleiðing af hækkun vörugjalds. Og það er ein ástæðan fyrir því, — það er raunar útúrdúr, — að tryggingafélögin telja sig nú geta rökstutt hækkunarkröfur um u. þ. b. 76%. En þessir óbeinu skattar allir saman, sem lagðir voru á til viðbótar við þá óbeinu skatta sem við þekktum fyrir nokkrum árum, áttu allir að vera til skamms tíma, áttu allir að vera neyðarúrræði, bráðabirgðaúrræði. En sú neyð hefur reynst haldast allmiklu lengur en menn reiknuðu með í upphafi, og allir þessir skattar eða flestir þeirra eru nú orðnir varanlegir.

En það, sem ég ætlaði raunar að segja, var að þrátt fyrir þá aukningu á skattbyrði, sem orðið hefur á Íslandi á undanförnum árum, hefur mikilvægi beinna skatta í tekjuöflun ríkissjóðs sífellt farið minnkandi. T. d. voru beinir skattar árið 1974 27.7% af heildartekjum ríkisins, þar af tekjuskattur 23.3% af heildarríkistekjunum, en árið 1979, á yfirstandandi ári, nema beinir skattar 22.4% og tekjuskattur um það bil 17%. Hefur þó tekjuskatturinn í hlutfalli af ríkistekjum hækkað mjög verulega frá árinu í fyrra, eða heildarhluti beinna skatta í ríkistekjum úr 18.1% í 22.4 og tekjuskattur úr 13.7% af ríkistekjum í 17%. Þetta er næstum því einsdæmi í sögu skattheimtu s. l. áratuga, því að yfirleitt hefur skattbyrði beinna skatta og hluti beinna skatta í ríkistekjunum farið stöðugt minnkandi þangað til á árinu í ár, þegar skattheimta í formi beinna skatta hefur verið mjög aukin. Auðvitað er ljóst hver er ástæðan fyrir því. Ástæðan er þær tímabundnu aðgerðir sem gripið var til í septembermánuði og aftur nú við afgreiðslu fjárl., þar sem tekna var aflað með beinum sköttum t. d. til þess að greiða niður vöruverð til almennings. Hvers vegna var tekna frekar aflað með beinni skattheimtu heldur en óbeinni til þessara þarfa? Það var ekki vegna þess að það væri talin réttlátari skattheimta, heldur er sú einfalda skýring að beinir skattar eru ekki í vísitölu og aukning á beinni skattheimtu mælist því ekki til hækkunar á vísitölu, en þær vörur, sem niður voru greiddar, voru í vísitölu og auknar niðurgreiðslur færðu vísitöluna neðar þannig að þarna var um að ræða skammhlaup í kerfinu, ef svo má segja. Með því að hækka beina skatta var hægt að auka tekjur ríkissjóðs og rýra að sama skapi ráðstöfunartekjur heimilanna án þess að það hefði nein áhrif á vísitöluna sem ýmsir binda trúss sitt við, og þá gafst ráðrúm til þess að greiða niður vörur sem í vísitölunni voru, þannig að það virtist vera um að ræða mjög verulegar kjarabætur, sem e. t. v. hafa verið hjá einhverjum þó að það hafi ekki komið við þjóðina í heild.

Ég er hérna með fyrir framan mig töflur um skattbyrði beinna skatta á hverju ári frá árinu 1964 til ársins 1979, og það er mjög athyglisvert að það er aðeins tvisvar á þessu tímabili sem byrði beinna skatta tekur mjög verulegt stökk upp á við. Það er á árunum 1971–1972 þegar skattbyrði beinna skatta hoppaði úr 17% af tekjum fyrra árs upp í 20.2%, sem þýðir það að á árunum 1971–1972 eru tekjuskattar á landslýð stórhækkaðir, og síðan aftur á árunum 1978–1979 þegar byrði beinna skatta hrekkur úr 15.7% upp í tæplega 20%. Þá kemur aftur óvænt sveifla í þessa skattbyrði hinna beinu skatta sem stingur mjög í stúf við þá þróun sem yfirleitt hefur verið á þessu tímabili, sem hefur verið þannig að skattbyrði beinna skatta hefur að mestu staðíð í stað, en þó heldur farið lækkandi, nema á þessum tveimur árum þegar verður stefnubreyting, fyrst árið 1971, þegar skattbyrði beinna skatta vex mjög verulega, og síðan aftur árin 1978–1979, þegar skattbyrði beinna skatta vex hvorki meira né minna en úr 15.7% af tekjum gjaldárs, upp í tæplega 20%. Þetta segir auðvitað sína sögu og ég ætla ekki að fara að rekja neitt frekar hver hún er, en treysti þm. til að geta sjálfir dregið nokkurn lærdóm af þeim tölum sem ég hef farið með.

Þingflokkur Alþfl. hefur allar götur síðan 1973 flutt tillögur um grundvallarbreytingu á skattkerfi ríkisins og flokksþing Alþfl. hefur markað flokknum þá stefnu. Snemma á árinu 1976–1977 flutti þingflokkurinn ítarlega till. um þessi efni. Í þeirri till., sem nú er flutt, er fram flutt sama stefna og Alþfl. hefur haft, en gert ráð fyrir að afnámi tekjuskatts af venjulegum launatekjum verði hrundið í framkvæmd samtímis því að söluskatti verði breytt í virðisaukaskatt og að það skuli eiga sér stað 1. jan. 1980. Það hefur verið yfirlýst stefna stjórnvalda á undanförnum árum, hverrar ríkisstj. á fætur annarri, að stefna að því að breyta söluskatti í virðisaukaskatt, eins og gert hefur verið í flestum nálægum löndum. Virðisaukaskattur er réttlátara innheimtuform en söluskattur sem innheimtur er þegar varan fer á lokastigi frá söluaðila til neytanda, og virðisaukaskatturinn innheimtist auk þess miklu betur, m. a. vegna þess að hann er mun lægri prósenta og safnast upp eftir því sem verðmæti vörunnar vex, eins og nafnið á skattinum bendir til. Mikill undirbúningur hefur þegar farið fram að breytingu söluskatts í virðisaukaskatt og er ástæðulaust að framkvæmdin dragist öllu lengur, því að lengi hefur mál þetta verið á ákvörðunarstigi og hvað undirbúning snertir þarf hann ekki öllu frekari að vera. Hér er aðeins um málefni að ræða sem er komið á ákvörðunarstig og er hægt að hrinda í framkvæmd ef pólitískur vilji er fyrir því á Alþ. og í ríkisstj.

Eins og ég benti á, hafa tekjur ríkissjóðs af tekjuskattinum á undanförnum árum ekki numið nema um 10% af heildartekjum ríkisins. Innheimta þessa tíunda hluta ríkisteknanna hefur hins vegar verið ákaflega kostnaðarsöm og veldur launafólki geysilegri fyrirhöfn auk ranglætisins sem siglt hefur í kjölfar þessarar skattheimtu. En ríkissjóður þarf að sjálfsögðu að fá bættar þær tekjur sem hann missir við þá kerfisbreytingu sem till. gerir ráð fyrir. Þetta getur orðið á eftirfarandi hátt: Í fyrsta lagi að útgjaldakerfi ríkisins verði endurskoðað í því skyni að koma á auknum sparnaði, en það er þegar nauðsynlegt af öðrum ástæðum. Í því sambandi vek ég t. d. athygli á þáltill. sem lögð hefur verið fram mjög nýverið frá einum af þm. Sjálfstfl. um núllgrunnsáætlanagerð, sem ýmsir hafa tekið upp með góðum árangri og ég tel rétt að athugað verði hvort ekki beri að taka upp varðandi útgjöld ríkisins. Í öðru lagi mundi kostnaður ríkisins af innheimtu tekjuskatts stórlækka. Í þriðja lagi hefði ríkissjóður áfram tekjur af tekjuskatti af atvinnurekstri og af hæstu tekjum einstaklinga. Í fjórða lagi mundu breyttar reglur um afskriftir, vaxtafrádrátt og söluhagnað auka tekjur ríkissjóðs. Í fimmta lagi mundu verkefni skattstofanna vegna afnáms tekjuskatts af venjulegum launatekjum minnka verulega þannig að þær gætu í auknum mæli snúið sér að bættu eftirliti með framtölum þeirra sem greiða virðisaukaskatt, tekjuskatt og eignarskatt. Í því sambandi er vert að minnast á að flestallt starfslið skattstofanna er ekki sérmenntað fólk á bókhaldssviði. Meginhlutinn af þessu starfsliði hefur þeim störfum að gegna að skoða tekjuskattsframtöl almenns launafólks svo og að eltast við 5 eða 10 þús. kr. mistök í framtölum og leita uppi slík afglöp, ef afglöp mega kallast. Oft er það frekar gleymska en vilji til þess að skjóta undan skatti. Þetta er meginþátturinn í starfsemi skattstofanna og eru mörg dæmi um að skattstofuembættismenn og starfsmenn skattstofa hafi lítið annað við að fást en þessi verkefni. Til skamms tíma var það þannig hjá skattyfirvöldum, að aðeins örfáir menn, 1, 2 eða 3, höfðu nægilega menntun og kunnáttu til þess að snúa sér að eftirliti með t. d. söluskattsheimtu, en starf þeirra leiddi þó í ljós að þar var pottur mjög víða brotinn. Með tæplega mánaðarvinnu eins af þessum mönnum fyrir u. þ. b. tveimur árum kom t. d. í ljós hjá tilteknum fyrirtækjum hér í Reykjavík, að mjög verulega skorti á söluskattsskil frá þeim, svo nam um fimm tugum millj. hjá hverju fyrirtæki, en þau voru, að mig minnir, 4 eða 5. Þetta er gott dæmi um hvar potturinn er brotinn í skattheimtu okkar. Skattsvikin, ef skattsvik má kalla í þessu sambandi, eru ekki fyrst og fremst hjá launafólki sem gleymir eða vanrækir að telja fram 5, 10 eða 15 þús. kr. á skattframtali sínu, heldur er það grunur minn, sem hefur verið staðfestur með dæmum, að miklu meiri brögð séu að því að söluskatti sé haldið undan, að þar sé svindlið, ef svindl má kallast. Þess vegna skýtur það nokkuð skökku við, að meginhlutinn af starfsliði skattstofa skuli snúa sér að því verkefni að leita uppi í tekjuskattsframtölum einstaklinga hvort ekki hafi gleymst 5 eða 10 þús. kr. hér eða þar, þegar allir vita og viðurkenna að svindlið í skattamálum okkar stafar ekki af slíku, heldur er hætt við að það séu margfaldar þær upphæðir sem með þessum hlutum má finna út, sem finna mætti t. d. í söluskattsskilum fyrirtækja og einstaklinga.

Mestu máli skiptir þó í sambandi við það að bæta ríkissjóði það tekjutap, sem hann yrði fyrir ef tekjuskattur á öðrum tekjum en hæstu tekjum verði felldur niður, að öruggt er talið að virðisaukaskatturinn innheimtist miklu betur en söluskattur. Í Noregi er t. d. gengið út frá því sem reglu að innheimta söluskatts sem á er lagður með sama hætti og gert er hér á landi. Enn skortir þó nokkuð á að virðisaukaskattur í Noregi innheimtist að fullu. Norsk skattayfirvöld ganga sem sé út frá því að fenginni reynslu, að jafnhár virðisaukaskattur skili sér 10% betur til ríkisins en söluskattur, einfaldlega vegna þess að innheimta virðisaukaskatts skili betri árangri en innheimta söluskatts. Tekjur af söluskatti á Íslandi í fyrra voru 34 milljarðar kr. Hækkun þeirra tekna um 10–15% nemur 3.5–5 milljörðum kr. Brúttótekjur af tekjuskatti í fyrra námu 10 milljörðum rösklega, en þar af gengu 4 milljarðar til barnabóta og til afsláttar af útsvari svo að nettótekjur af tekjuskatti námu aðeins 6.5 milljörðum kr. Hins vegar greiddi ríkissjóður til einstaklinga vegna barnabóta og til sveitarfélaga vegna útsvara rúman milljarð kr. Með því að taka virðisaukaskatt upp í stað söluskatts og gera ráð fyrir að hann innheimtist betur eftir breytinguna, eins og reynsla Norðmanna hefur leitt í ljós, auk þess sem gera ætti átak til að bæta innheimtuna, ætti virðisaukaskatturinn ekki að þurfa að hækka sem neinu næmi umfram það sem söluskattur er nú, þegar jafnframt er haft í huga, að af atvinnurekstri og hæstu tekjum yrði áfram greiddur tekjuskattur auk þess sem kostnaður ríkisins af tekjuskattsinnheimtu mundi stórlækka, en breyttar reglur um afskriftir, vaxtafrádrátt og söluhagnað mundu skila ríkissjóði auknum tekjum.

Það er því alveg ljóst, að með þessari kerfisbreytingu á söluskattinum, að taka hann upp í formi virðisaukaskatts í stað söluskatts, skapast svigrúm sem nemur hér um bil sömu upphæð og álagður tekjuskattur einstaklinga nemur undir eðlilegum kringumstæðum, þannig að með þessari kerfisbreytingu einni saman er því sem næst hægt að ná í tekjuauka þeirri fjárhæð er nægir til þess að hægt sé að fella niður tekjuskattinn á lægri tekjum.

Um þá skattkerfisbreytingu, sem þessi tillaga fjallar um, og fjárhagshlið hennar er almennt þetta að segja. Álagning beinna skatta er að mörgu leyti ranglát, auk þess sem hún er afar dýr í framkvæmd. En eins og ég lýsti áðan starfar mestallt starfslið skattstofa að því að fylgjast með álagningu beinna skatta og framkvæmd innheimtu. Álagningarkerfið er auk þess orðið óeðlilega flókið og veitir skilyrði til margháttaðra undanbragða undan réttlátri skattgreiðslu, bæði löglegra og ólöglegra. Hlutfall tekjuskatts af tekjum launþega er t. d. nú orðið það hátt að almennir launþegar eru farnir að greiða mjög verulegan hluta tekna sinna í beinan skatt. Samtímis verða þeir vitni að því, að fyrirtæki, sem hafa gífurleg umsvif, greiða litla eða enga tekjuskatta og útsvör vegna rekstrar séns. Þessi óhóflega skattheimta tekjuskatts er í mörgum tilvikum orðin og verður í æ fleiri tilvikum fjötur á framtakssemi einstaklinga og vinnuvilja og getur því orðið hemill á heilbrigðan og eðlilegan vöxt þjóðartekna. T. d. þekki ég mjög mörg dæmi þess úr mínu kjördæmi, þar sem atvinna er mikil og tekjur geta oft verið miklar vegna mikillar atvinnu, að fólk er farið vegna skattbyrðarinnar, sérstaklega eftir síðustu skattahækkanir, að neita því að bjarga verðmætum frá skemmdum vegna þess að meginhlutinn af því fé, sem það fær í sinn hlut fyrir langan og erfiðan vinnudag, gengur til ríkisins í formi tekjuskatts. Auðvitað segir það sig sjálft, að þegar svo er komið að skattheimta er beinlínis orðin fjötur á vinnuvilja, þá er nokkuð langt gengið, þó að ég skuli verða síðastur manna til að halda því fram að það sé æskilegt út af fyrir sig að vinna sé eins mikil og vinnudagur eins langur og hann er víða á Vestfjörðum og á ýmsum öðrum stöðum á landinu. Það á hins vegar ekki beinlínis að beita skattheimtu til þess að draga úr slíku, vegna þess að afleiðingarnar verða þær að annaðhvort skemmast þau verðmæti, sem reynt er að bjarga með slíkri vinnu, eða það verður að flytja að vinnuafl til þess, eins og mjög harðlega hefur verið gagnrýnt, m. a. úr ræðustól hér á Alþingi.

Gallar mjög víðtæks og flókins tekjuskattskerfis með mjög háum skattstigum er ekki einungis orðið vandamál á Íslandi, heldur einnig í nálægum löndum þar sem um er að ræða víðtæka og vaxandi gagnrýni á slíka skattheimtu. Þegar vitað er að um eða yfir helmingur viðbótartekna venjulegs launþega fer til greiðslu skatta af tekjum getur ekki hjá því farið, að það hafi lamandi áhrif á framtakssemi og vinnuvilja, svo ekki sé talað um þýðingu þess við hvers konar kjarasamninga. Þegar stighækkandi tekjuskattur var upphaflega lögfestur hér og annars staðar var hann eitt helsta tækið sem fyrir hendi var til þess að jafna tekjur manna og aðstöðu í þjóðfélaginu. Síðan hafa fjölmargir aðrir möguleikar komið til skjalanna til að ná tekjujöfnunarmarkmiðinu. Margir af þessum tekjujöfnunarmöguleikum eru miklu mikilvægari og mikilvirkari en tekjuskatturinn hefur nokkurn tíma verið eða getur nokkurn tíma orðið. Ber þar t. d. að nefna almannatryggingakerfið, en einnig ókeypis og ódýra þjónustu af hálfu hins opinbera á fjölmörgum sviðum, svo sem á sviði heilbrigðis- og skólamála. Jafnframt má nefna margs konar niðurgreiðslu á neysluvörum almennings og nú á síðari árum tryggingu lágmarkstekna og neikvæðan tekjuskatt. Er óhætt að fullyrða að álagning stighækkandi tekjuskatts hafi minni áhrif til tekjujöfnunar hér á landi en almannatryggingakerfið, ókeypis menntunarskilyrði og niðurgreiðslur, enda er vitað að það er ekki nema lítill hluti þjóðarinnar tiltölulega sem greiðir réttlátan hluta af raunverulegum tekjum sínum með tekjuskatti til ríkisins. Allt of stór hluti þjóðfélagsþegnanna ber úr býtum tekjur sem sá hluti þjóðfélagsþegnanna þarf engin gjöld að greiða af til ríkisins, og eru fjölmörg dæmi um þetta úr öllum byggðum, úr öllum sveitarfélögum þessa lands.

Tekjuskattskerfið er því orðið lamandi afl í þjóðfélaginu. Auk þess er það ranglátt, þar eð reynslan hefur sýnt, eins og ég sagði áðan, að fjölmargir aðilar koma sér undan að greiða þá skatta sem þeim ber skv, skattakerfinu, bæði með því að hagnýta heimildir laganna til frádráttar með vafasömum hætti og með beinum undandrætti tekna. Auk þess er tekjuskattsálagningin orðin svo flókin að það er ekki gerlegt fyrir venjulegan launamann sem þó gæti e. t. v. talið fram sjálfur, að gera sér grein fyrir því, þegar hann hefur lokið að ganga frá framtali sínu, hvaða gjöld muni verða lögð á hann, hve hár tekjuskattur muni verða lagður á hann. Það ej að sjálfsögðu mjög óæskilegt og raunar óþarft að hafa skattlagningu svo flókna að hún sé illskiljanleg venjulegu fólki þannig að það sé ekki nema fyrir sérfræðimenntaða menn að komast að niðurstöðu um hvaða skattur verði á lagður skv. framtölum venjulegs launafólks.

Þegar óbeinn skattur, eins og virðisaukaskatturinn er, er greiddur, ræður skattgreiðandinn miklu meira um það sjálfur, hve mikið hann greiðir, með því að ákveða hvað og hversu mikið hann kaupir umfram nauðþurftir. Virðisaukaskattur hvetur því til sparnaðar í miklu ríkara mæli en stighækkandi tekjuskattur gerir, vegna þess m, a. að almennt er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur skili sér mun betur í ríkissjóð en söluskattur, enda hefur reynslan staðfest það erlendis. Auk þess sem innheimta hans er miklu einfaldari og ódýrari en tekjuskatts bendir allt til þess, að hægt sé að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum án nokkurrar teljandi hækkunar á þeim óbeina skatti sem innheimtur hefur verið sem söluskattur, en hér er lagt til að innheimtur verði sem virðisaukaskattur frá ársbyrjun 1980.

Eins og fram hefur komið hefur þingflokkur Alþfl. í framhaldi af stefnumörkun flokksins í skattamálum flutt á Alþ. undanfarin 7 ár till. um skattalagabreytingar eins og þær sem þáltill. þessi gerir ráð fyrir. Till. þessar hafa ekki fengist samþ., en engu að síður hafa þær haft mjög mikil áhrif á umr. um stefnu í skattamálum. Við síðustu endurskoðun skattalaga var t. d. nokkurt tillit tekið til sumra þátta í stefnu Alþfl., en þó aðeins að nokkru leyti. Miklu meiri áhrif hafa till. Alþfl. hins vegar haft á alla skattamálaumræðu á almennum vettvangi, og stöðugt fleiri menn úr öllum flokkum og utan flokka hafa snúið til liðs við sjónarmið Alþfl. í skattamálum.

Eins og fram kemur í samstarfsyfirlýsingu núv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að hún verði endurskoðuð þegar á árinu 1979. Eitt af meginatriðum í þeirri endurskoðun þarf að áliti Alþfl. að vera gagnger uppskurður á skattakerfinu með þá skattkerfisbreytingu að leiðarljósi, sem ráð er fyrir gert í þáltill. þessari. Sérstök n. stjórnarflokkanna vinnur nú auk þess að endurskoðun skattalaga og hefur þegar skilað af sér fyrstu till. sem miðuðust við bráðabirgða- og tímabundnar úrlausnir á þeim efnahagsvanda, sem við er að etja, fremur en þá gagngeru uppstokkun á skattakerfinu sem við Alþfl.-menn óskum að stefnt verði að. Við teljum rétt og eðlilegt að Alþ. láti nú í ljós vilja sinn um það, í hvaða átt sú endurskoðun á skattamálum eigi að beinast sem fram fer á vegum stjórnarflokkanna um þessar mundir. Till. sú, sem hér er flutt, efni hennar, hefur margoft komið til umr. hér á Alþ. og fengið gagngera skoðun. Ég tel því, þrátt fyrir að margvíslegar tafir hafi orðið á leið till. þessarar, að unnt eigi að vera, að afgreiða hana á þessu þingi, annaðhvort jákvætt eða þá neikvætt, ef Alþ. treystir sér ekki til eða telur ekki rétt að ganga á þá braut sem Alþfl. hefur bent á í sambandi við skattamál.

Herra forseti. Ég hef þetta ekki lengra að sinni, en geri að till. minni að að lokinni umr. verði till. vísað til hv. allshn.