26.03.1979
Efri deild: 72. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

208. mál, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég var afskaplega hrifinn af ræðu flm., hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, því að ræðan var afburðavel gerð. En hún var að mörgu leyti mér mjög andstæð. Ég hef einhvern veginn þá trú að við eigum ekki leið aftur á bak í frjálsræði fólks. Við eigum ekki neina leið aftur á bak í lögum sem skapa fólki eðlilegt sjálfræði yfir sjálfum sér. Og ef, eins og segir í 1. gr. þessa frv., félagslegar ástæður falla niður, þá held ég að við séum ekki aðeins að fara aftur fyrir árið 1975, heldur erum við sennilega líka að fara aftur fyrir árið 1937, en mig minnir endilega að lög, sem þáv. landlæknir Vilmundur Jónsson stóð að samningu á, hafi verið frá þeim tíma. Og að fara svona aftur á bak í tímanum, aftur á bak í mannréttindum, það finnst mér næstum því eins og við færum að hlaupa í fótspor þess fræga manns sem núna ræður lögum í Íran og er kallaður Ayatollah Khomeini. En við getum þetta ekki. Við getum ekki farið aftur í tímann. Við getum lagfært verk okkar, en ég tel að þarna sé tekið svo stórt stökk aftur í tímann að ég get ekki fellt mig við það.

Ég er sammála flm. um það, að ég álít að nú séu á Íslandi allt að því frjálsar fóstureyðingar hjá konum sem eru ekki komnar lengra en 12 vikur í meðgöngu. En þó að þær séu allt að því frjálsar, þá eru þær alls ekki hömlulausar, eins og flm. sagði þó. Ákvæðin um greinargerð frá tveimur læknum eða lækni og félagsráðgjafa eru nefnilega þannig gerð að sé þeim rétt framfylgt, og ég held að svo sé í flestum tilfellum, eins og kemur fram í 11. gr. laganna, eru þar verulegar hömlur. Þessar hömlur koma þannig út að viðkomandi konur koma til með að geta rökrætt ástand sitt og ástæður fyrir beiðninni um fóstureyðingu. Og ég býst við að flestir héraðslæknar úti á landsbyggðinni, því þar er ekki um félagsráðgjafa að ræða nema þá að mjög litlu leyti, að ég held, — að flestir héraðslæknar þar og líklega flestir heimilislæknar í Reykjavík hafi mjög svo hindrað á hverju einasta ári konur í því að óska eftir fóstureyðingu. Félagsráðgjafar eru trúlega enn þá betur færir um að gefa þessum konum ráð heldur en læknar þeirra, því læknarnir líta fyrst og fremst á hið læknisfræðilega viðhorf sjúklingsins. En þess ber þó að gæta, að oft á tíðum eru heimilislæknar að miklu leyti nokkurs konar sálusorgarar sjúklinga og mikill hluti af þessum konum eru konur innan við tvítugt eða alla vega innan við 25 ára aldur, úr því fer þeim mjög fækkandi, og þetta er á margan hátt lífsreynslulítið fólk og býr við vankanta í þessum málum, við erfiðleika sem læknar eiga stundum gott með að hjálpa til að leysa úr, en sennilega félagsráðgjafar oft á tíðum líka.

Ef við förum aftur í tímann, aftur fyrir 1975, þá skulum við gera okkur grein fyrir nokkrum hlutum. Þá munu aftur koma upp sögurnar um ólöglegu fóstureyðingarnar. Þá munu aftur koma upp sögurnar um dætur efnaðri manna sem fara til útlanda til þess að láta gera þessa aðgerð, og það sem ég veit glöggt um: þá koma læknar aftur til með að ýkja og ljúga upp andlegu ástandi í skýrslugerð sinni til landlæknis til þess að koma í gegn leyfinu um fóstureyðingar. Þetta var gert áður, og ég tel mig fullvissan um að þetta verði aftur raunin.

Ég felli mig afskaplega illa við orð í grg. þessa frv. og það er: að tortíma mannlegu lífi. Þegar fóstur er innan við 12 vikna gamalt getur það ekki lifað sjálfstæðu lífi. Ég geri mér líka grein fyrir því, að ég hef verið meðsekur um að svíkja minn Hippokratesareið með því að standa að og hjálpa til við löglegar fóstureyðingar á undanförnum árum. En ég sætti mig nokkuð vel við það að ég lifi á öðrum tíma en forfaðir minnar stéttar, Hippokrates, sem var uppi nokkuð löngu fyrir Kristsburð, og aðstæðurnar eru á allan hátt aðrar.

Hér á Íslandi var fóstureyðingum verulega farið að fjölga fyrir 1975. Hér á Landsspítalanum fóru fram 165 fóstureyðingar á árinu 1974. 1976 fóru fram á fæðingardeild Landsspítalans 274 fóstureyðingar, þar af voru konur 15 ára og yngri alls 15, 16–20 ára voru þær 47 og 20–25 ára voru þær 69. Rúmlega helmingurinn af þessum konum voru 6giftar konur eða fráskildar. Ógiftar voru 102, fráskildar 38 og giftar 123. Það segir nokkuð sína sögu, en ekki þó nema litla. Af þeim voru innan við 10% sem voru að láta framkvæma fóstureyðingu í annað skipti. Sjö höfðu reyndar tvisvar áður látið gera fóstureyðingu. En hvað er þetta? A. m. k. allt til síðasta árs nær þetta ekki tíunda hlutanum af þungunum í landinu? En mér segir sá fróðasti maður sem ég held að sér hér á landi um þessi mál, að á árinu 1976 sé reiknað með að 35% kvenna noti svokallaða lykkju, þeirra kvenna sem eru á frjósemisaldri, 25% noti pillu. Þetta eru 60% af konum sem eru á frjósemisaldri, og ef við þurfum að fara að tala um vaxtarmegin og slíkt ættum við, held ég, að banna pilluna og slíkt.

Um 10% kvenna eru á þessu ári þungaðar og um 10% af þeim fá fóstureyðingu. Um 10% kvenna á þessu aldursskeiði vita að þær geta ekki átt börn. Sem sagt, fóstureyðing er á Íslandi sáralítið notuð sem getnaðarvörn, en getnaðarvarnir eru algengari á Íslandi en í nokkru öðru nágrannalandi okkar, eftir því sem mér er sagt.

Flm. gat þess, að þegar þing Evrópuráðs fjallaði um þetta mál hafi það ekki náð framgangi þar, og mikið skil ég það vel, því margir eru kaþólskir á því þingi að ég hygg, og við vitum ósköp vel hvernig kaþólska kirkjan lítur á þetta mál. Það hefði verið næsta furðulegt ef þetta hefði komist í gegnum þingið. Nú vitum við þar að auki að fólk, sem er komið yfir frjósemisaldurinn, er yfirleitt heldur með því að draga úr öllum heimildum til fóstureyðinga. Það er frekar yngra fólkið, sem eldurinn brennur á, sem er með því. Það kann.svo sem vel að vera að þjóðarvöxtur minnki við þetta. En frjálsræði einstaklingsins má ekki skerðast af þeim ástæðum. Napóleon mun, held ég, einhvern tíma hafa sagt að hann sæi ekki fegurri sjón en þungaða konu, en þá var hann að spekúlera í fallbyssufóðrinu, og það hafa margir stjórnendur stórvelda gert. En slíkt og þvílíkt getum við ekki farið út í þegar við erum að ræða þessi mál.

Ég er hins vegar alveg viss um það, að ef við kæmum því í framkvæmd sem flm. talaði hér um bætur á almannatryggingum, þá mundi fóstureyðingum fækka. Ég er alveg sannfærður um það. Nokkur hluti af beiðnunum um fóstureyðingu stafar af því að þessar ungu stúlkur sjá næstum því ekki möguleika til þess að ala barn sitt, og þar kemur einmitt félagsráðgjafinn geysilega vel inn í málið ef hann stendur í stöðu sinni. Ég skal hins vegar ekki neita því, að ég hef heyrt einstakar raddir um að það sé ekki eins og skyldi, en ég er ekki dómbær um það.

Ég bið menn að skoða það ekki sem blóðfórn eða einhvern stórkostlegan glæp þó að fóstri, sem er innan við 12 vikna gamalt og getur ekki lifað sjálfstæðu lífi, sé útrýmt úr legi konu. Ég skoða það ekki sem morð. Ég skoða það ekki sem glæp. Ég mundi í sumum tilfellum skoða það frekar sem glæp að neita konu um þann rétt að losna við fóstur.