26.03.1979
Efri deild: 72. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (2770)

208. mál, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð að gefnu tilefni.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði að menn misskilji það ef þeir teldu að það væri fjárhagsleg örbirgð sem mestu réði eða miklu réði um það, hvort félagslegar ástæður heimiluðu fóstureyðingu. Ég vil taka fram að ég tel mig ekki hafa misskilið þetta, því að ég lagði einmitt sérstaka áherslu á að þarna væri margt fleira, þar sem ég ræddi um hina siðferðilegu hlið þessa máls.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði að hún teldi að það væru ekki heimilaðar frjálsar fóstureyðingar hjá okkur núna. Ég skal ekki mótmæla þessu. En ég vil undirstrika það sem ég sagði áðan, að það væri svo að fóstureyðingar væru frjálsar þegar um væri að ræða fyrir lok 12 vikna meðgöngutíma, þá væri það frjálst eða svo sem frjálst.

Það er, eins og hv. þm. gat um, fróðlegt að gera sér grein fyrir hvað félagslegar ástæður vega þungt í ástæðum sem metnar eru gildar fyrir fóstureyðingu. Hún talaði um að það þyrfti að fá upplýsingar um slíkt. Þessar upplýsingar liggja á lausu. Og það vill svo til að ég get t. d. látið þess getið núna, að 1976 voru 62% af fóstureyðingum af félagslegum ástæðum og 20% voru taldar bæði félagslegar og læknisfræðilegar. Árið 1977 voru þessar tölur 78% félagslegar ástæður og 11% bæði félagslegar og læknisfræðilegar. Af þessu má marka hve mjög þungt hinar félagslegu ástæður vega í þessu máli.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta.

Þó að við séum ekki öll sammála, þá vil ég þakka fyrir þær umr. sem hér hafa orðið og hafa verið málefnalegar. En ég vænti nú þess, að við getum áður en lýkur orðið meira sammála og það þurfi ekki að vera útilokað að við verðum sammála um að afnema hina félagslegu ástæðu sem heimild fyrir fóstureyðingu í stað þess að ganga hálfa leið og fara aðeins að þrengja heimildirnar. Mig uggir, ef sú leið yrði farin, að þá yrði í raun og veru ekki í framkvæmd mikil breyting á þessu, því það hefur sýnt sig hvernig framkvæmdin hefur orðið fram að þessu, þar sem, eins og ég sagði í upphafi, félagslegar ástæður eru svo rúmt hugtak.