26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3568 í B-deild Alþingistíðinda. (2778)

226. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um breyt. á lögum nr. 81 frá 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með þessu frv. er lagt til að heimila bátum, sem eru 20 m að lengd eða minni, að veiða með botnvörpu og flotvörpu á tveimur svæðum út af Vestfjörðum á tímabilinu 1. sept. til 30. nóv. og fylgir kort sem sýnir þessi svæði sem eru merkt G2. Þessi svæði, sem hér um getur, eru viðurkennd skarkolasvæði og á þeim árum, sem botnvörpuveiðar voru þar leyfðar, gáfu þau góða veiði.

Eins og kunnugt er hafa fiskifræðingar og Hafrannsóknastofnunin lagt til að auka skarkolaveiðar vegna þess að sá stofn sé vannýttur, og með tilliti til þess að bátar af þessari stærð hafa haft mjög takmarkað verkefni að haustinu á undanförnum árum um langt árabil, þá hefur töluverður fjöldi þessara báta, einkum bátar frá Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði, stundað rækjuveiðar frá hausti og fram eftir vetri. En á s. l. árum hefur verið mikil seiðagengd á þessum svæðum og þó alveg sérstaklega á s. l. hausti, þannig að veiðar í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði voru ekki leyfðar fyrr en eftir áramót og sá aflakvóti, sem Hafrannsóknastofnunin lagði til að leyft yrði að veiða á s. l. hausti, var stórlega lækkaður nú fyrir nokkru. Þess vegna er það, að þessir bátar og fleiri bátar af þessari stærð hafa litla möguleika til útgerðar að haustinu, og því er eðlilegt að dómi okkar, sem þetta frv, flytjum, að afla lagaheimildar fyrir veiðum með botnvörpu og flotvörpu á þessum svæðum. En flm. þessa frv. eru ásamt mér þrír aðrir þm. Vestfirðinga, hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, hv. 2. þm. Vestf., Gunnlaugur Finnsson, sem átti hér sæti þegar þetta frv. var flutt, og hv. 3. þm. Vestf., Kjartan Ólafsson.

Þetta frv. er flutt að beiðni Félags smábátaeigenda við Ísafjarðardjúp sem þeir sendu þm. Vestfirðinga á s. l. hausti. Enn fremur hefur þetta frv. verið sent á aðra staði á Vestfjörðum, einkum til Bíldudals til útgerðaraðila þar. Eru menn yfirleitt á því að þessi heimild komi að miklu gagni fyrir útgerð á þessum stöðum og sömuleiðis er það einn liðurinn í að auka sókn í vannýtta fiskstofna.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.