26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3571 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því, áður en ég geri grein fyrir þessu nál., að spyrjast fyrir um hvernig sé með 12. mál á dagskrá, um tollskrá o. fl., sem varðar bílakaup ráðh., hvort þetta mál verði ekki tekið fyrir í dag. Ég satt að segja sé ekki að eftir neinu sé að bíða að þetta mál sé rætt og vil óska eftir að umr. um það verði flýtt.

Það nál., sem ég er hér að mæla fyrir, er frá allshn. Nd. og fjallar um dómvexti, sem var 19. mál Alþingis þessa vetrar. Flm var hv. þm. Ellert B. Schram. Allshn. hafði þetta mál til skoðunar um tveggja mánaða skeið eða svo og leitaði upplýsinga hjá allnokkrum sérfróðum aðilum um það. Ég hygg að það sé alveg ljóst hvað fyrir flm. vakir, sem sé að dómkröfur séu verðtryggðar, þannig að til þess komi ekki að sá, sem getur dregið dómsmál, sem um efnahagsleg efni fjalla, alllangan tíma, hagnist á drættinum.

Eftir allnokkra skoðun vildi allshn. breyta orðalagi á nefndri lagagrein þannig, að í ríkari mæli en flm. gerði ráð fyrir væru tekin af öll tvímæli um þessi efni. Allir 7 nm. lögðu þess vegna til að frv. yrði samþ., en með svofelldri breyt. á 1. gr. frv. sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta.:

„Á tímabilinu frá stefnubirtingu til greiðsludags í dómsmáli skal dómari ákveða, að kröfu stefnanda, að vextir af dómkröfu séu eigi lægri en nemur hækkun byggingarvísitölu eða annarri sambærilegri viðmiðun, sem taki sem fyllst tillit til varðveislu á verðgildi fjármagns.

Dómara er þó heimilt að gera frávik frá þessari reglu ef atvik þau, sem getið er um í 1. og 3. tölul. 2. málsgr. 177. gr. laga nr. 85/1936, eiga við um stefnanda eða ef tekið hefur verið tillit til verðbólgu á ofangreindu tímabili við endanlega kröfugerð í málinu. Sama gildir í útivistarmálum, ef stefndi skilaði ekki greinargerð.“

Undir þetta nál. rita allir nm. í allshn. Nd., þ. e. Vilmundur Gylfason, Einar Ágústsson, Matthías Á. Mathiesen, Gils Guðmundsson, Árni Gunnarsson, Friðrik Sophusson og Svava Jakobsdóttir.

Nefndin leggur sem sagt einróma til að frv. um dómvexti verði samþ. með þeirri breyt. sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Þessi breyt. hefur verið borin undir flm., hv. þm. Ellert B. Schram, og hefur hann fyrir sitt leyti á hana fallist. Ég legg svo til að málinu verði vísað áfram hina venjulegu og hefðbundnu leið, en að lokum, herra forseti, ítreka ég spurningu mína um 12. mál á dagskrá.