26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3580 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

Tilhögun þingfunda

Forseti (Gils Guðmundsson):

Áður en gengið er til dagskrár vil ég aðeins víkja að því, hvernig ég hef hugsað mér að störfum verði hagað hér í Sþ. í dag. Eins og hv. alþm. sjá er margt mála á dagskrá. Á dagskrá fyrri fundar eru 13 mál og á dagskrá síðari fundar eru hvorki meira né minna en 30 mál og eru þó ekki. alveg öll þau mál tekin á dagskrána sem fyrir þinginu liggja, en að vísu flest. Nú stendur þannig á að tveir hv. alþm. hafa óskað þess að taka hér til máls utan dagskrár og það um málefni sem að þeirra dómi og að athuguðu máli hjá mér varð niðurstaðan að annaðhvort væri að taka fyrir nú eða ekki, þar sem þau þyldu í rauninni ekki bið, svo ég hef orðið við þessu. Ég vil hins vegar haga málum þannig að taka nú næsta klukkutímann eða svo fyrir nokkrar fsp. og reyna að ljúka umr. um þær, en þessar umr. utan dagskrár, sem eru um mjög skyld málefni, þó ekki séu nákvæmlega um sama atriði, yrðu upp úr kl. 3 eða á fjórða tímanum, eftir því sem á stæði.

En vegna þess að svo mikið er á dagskrá síðari fundar vil ég geta þess, að hv. alþm. mega vera við því búnir að fundir verði allstrangir í Sþ. í dag fram eftir degi og ef með þarf þá einnig í kvöld. Þeir, sem eiga mál á dagskránni sem ekki eru komin enn til n., mega vera við því búnir að þeir geti komið sínum málum að síðar í dag eða í kvöld. Mér þætti vænt um að þeir, sem ekki ættu þess kost að fylgja þeim úr hlaði síðdegis eða í kvöld, létu mig vita, a. m. k. þegar líður á daginn.