26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3582 í B-deild Alþingistíðinda. (2794)

188. mál, Byggingarsjóður ríkisins og íbúðalán

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 359 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. sem varðar húsnæðismál.

Húsnæðismálin eru ákaflega þýðingarmikill þáttur í þjóðarbúskap okkar, svo sem kunnugt er. Þarf ekki að fara orðum um það. Fyrst og fremst varðar þetta sjálft hið almenna húsnæðisástand í landinu. En húsnæðismálin hafa og mikla þýðingu í ýmsum öðrum samböndum. Ástand þeirra skiptir ekki litlu máli varðandi almennt verðlag og kaupgjald í landinu. Húsnæðismálin hafa mikla þýðingu varðandi byggðamálin í landinu. Ekki er það síst nú sem stendur, þegar svo er ástatt að víða úti um land eru framleiðslutækin það rífleg að það skortir fyrst og fremst mannafla til þess að þau séu hagnýtt með eðlilegum hætti, en til þess að mannafli fáist er frumþörfin sú, að fólkið hafi þak yfir höfuðið. Húsnæðismálin varða og atvinnumál í byggingariðnaðinum. Og svo mætti lengi telja. Það er því ekki að ófyrirsynju að flutt er fsp. varðandi þessi mál. Fsp. er, með leyfi forseta, á þessa leið:

„1. Hvað er áætlað, að mikið fjármagn fari til Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1979, og hvernig skiptist það milli fjármögnunarleiða?

2. Hvað er áætlað, að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins til útlána verði mikið á árinu 1979, og hvernig skiptist það milli útlánaflokka?

3. Hvað er áætlað, að Byggingarsjóður ríkisins láni til margra íbúða á árinu 1979, og hvernig skiptist það á útlánaflokka?

4. Hvað er gert ráð fyrir, að lán Byggingarsjóðs ríkisins út á nýjar íbúðir (f. lán) á árinu 1979 nemi hárri upphæð í hlutfalli við byggingarkostnað?“