26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3583 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

188. mál, Byggingarsjóður ríkisins og íbúðalán

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Spurt er hve mikið fjármagn fari til Byggingarsjóðs ríkisins árið 1979 og hvernig það skiptist milli fjármögnunarleiða.

Innstreymi er áætlað á þessu ári þannig:

Frá ríkissjóði, þ. e. launaskattur og byggingarsjóðsgjald: 6 milljarðar 141 millj. kr.

Skyldusparnaður, innborgað: 2 milljarðar 500 millj. kr.

Skuldabréfakaup Atvinnuleysistryggingasjóðs: 2 milljarðar 70 millj. kr.

Skuldabréfakaup lífeyrissjóða: 2 milljarðar 755 millj. kr.

Afborganir, vextir og vísitölutrygging: 3 milljarðar 485 millj. kr.

Tekjur af rekstri tæknideildar: 120 millj. kr. Annað: 85 millj. kr.

Niðurstöðutala: 17 milljarðar 156 millj. kr.

Útstreymi er áætlað á þessu ári þannig:

Keypt skuldabréf af Framkvæmdastofnun ríkisins: 810 millj. kr.

Skyldusparnaður, endurgreiðslur: 3,1 milljarður kr.

Rekstrarkostnaður tæknideildar, brúttó: 140 millj. kr.

Rekstrarkostnaður lánadeildar og stofnunarinnar almennt, brúttó: 140 millj. kr.

Afborganir, vextir og vísitölutrygging: 1 milljarður 20 millj. kr.

Sjóðshækkun: 309 millj. kr. Annað: 130 millj. kr.

Og þá verða eftir til ráðstöfunar í lánveitingar 12 milljarðar og 125 millj. kr.

Þá er spurt hvað ráðstöfunarféð til útlána verði mikið á árinu 1979 og hvernig það skiptist milli útlánaflokka. Samkv. því, sem ég sagði um útstreymið árið 1979, er áætlað að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins á því ári verði 12 milljarðar 125 millj. kr. Húsnæðismálastjórn hefur gert áætlun um hugsanlega lánsfjárþörf á þessu ári og kynnt hana rn. Er skiptingin samkv. þeirri áætlun þessi:

Frumlán til nýbygginga: 2 milljarðar 416 millj. kr.

Viðbótarlán til nýbygginga: 4 milljarðar 235 millj. kr.

Lán til kaupa á eldra húsnæði: 3 milljarðar 188 millj. kr.

Leigu- og/eða söluhúsnæði sveitarfélaga: 2 milljarðar 235 millj. kr.

Ýmis framkvæmdalán: 1 milljarður 205 millj. kr.

Elli- og dvalarheimili: 456 millj. kr.

Verkamannabústaðir (f.lán): 405 millj. kr.

FB-íbúðir: 326 millj. kr.

Samtals verða þetta 14 milljarðar 466 millj. kr.

Samkvæmt þessari áætlun gætu lánveitingar farið á þessu ári allt að 2 milljörðum fram úr ráðstöfunarfé sjóðsins. Um þetta verður þó ekki fullyrt nú. Eftir er að koma í ljós hvort samdráttur í lóðaframboði hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa hefur áhrif á eftirspurn eftir nýbyggingarlánum, hvort framkvæmdageta sveitarfélaga við leigu- og söluíbúðir verður eins mikil og þarna er áætlað, svo og það, hver verður eftirspurn eftir lánum til kaupa á eldri íbúðum. Munu þessar línur ekki skýrast fyrr en lengra líður á árið.

Þótt líti út fyrir að fjárvöntun geti orðið nálægt 2 milljörðum kr. ber þess að gæta, að aldrei kemur til útborgunar fyrir áramót allt það fé sem ákveðið er að lána á árinu. Ljóst er þó og rétt að vera við því búinn að fjáröflun Byggingarsjóðs ríkisins geti þurft að endurskoða í samræmi við sérstakan fyrirvara þar að lútandi í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir þetta ár.

Í þriðja lagi var spurt um fjölda þeirra íbúða, sem lánað er til, og skiptingu þeirra.

Almenn frumlán til nýbygginga eru áætluð 1 450. Leigu- og/eða söluíbúðir sveitarfélaga eru áætlaðar 353, þar af verður smíði hafin á 188 á þessu ári. Framkvæmdalán verða veitt til byggingar 622 íbúða, þar af verður smíði hafin á 280 á þessu ári. Gert er ráð fyrir að lána til 251 íbúðar í verkamannabústöðum. Smíði 216 þeirra hefst á þessu ári. Íbúðir í elli- og dvalarheimilum verða 319, þar af 120 nýjar á þessu ári. FB-íbúðirnar verða 30 talsins, allar nýjar. Loks er fjöldi lána til kaupa á eldra húsnæði áætlaður 2 090. Alls eru þetta lán til 5 115 íbúða, þar af verður smíði hafin á 2 284 á þessu ári. Ekki er ástæða til að áætla fjölda þeirra íbúða sem á þessu ári fá veitt viðbótarlán.

Í síðasta lagi er spurt um hvað gert sé ráð fyrir að nýbyggingarlán verði á árinu 1979 hátt hlutfall af byggingarkostnaði.

Við þessari spurningu er auðvitað ekki hægt að gefa neitt einhlítt svar. Ákveðið hefur verið að hækka nýbyggingarlán til þeirra, sem gera fokhelt á þessu ári, til jafns við þá hækkun, sem orðið hefur á vísitölu byggingarkostnaðar frá síðasta ári, eða úr 3.6 í 5.4 millj. kr. Þetta hlutfall verður því óbreytt, eins og raunverulega hefur verið allar götur síðan 1970, er núgildandi lög um lánveitingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins voru sett. Lánin eru föst upphæð fyrir allar íbúðir, svo sem alkunna er, og hlutfall þeirra af byggingarkostnaði ræðst því algjörlega af því einu, hversu stórt og dýrt húsnæði menn byggja, getur trúlega sveiflast allt frá því að vera 10–15% af byggingarkostnaði dýrustu einbýlishúsa og upp í það að verða 40–50% af kostnaðarverði mjög lítilla íbúða í fjölbýlishúsum. Ef það mætti verða til einhverrar glöggvunar má nefna það dæmi, að samkv. upplýsingum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins var meðalbyggingarkostnaður íbúðar, sem að sameign meðtalinni var 100 fermetrar og byggð er í svonefndri vísitöluhúsi, þ.. e. 10 íbúða fjölbýlishúsi, áætlaður 14.8 millj. kr. um síðustu áramót. Núverandi nýbyggingarlán eru um 37% af þeirri fjárhæð.