26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3585 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

188. mál, Byggingarsjóður ríkisins og íbúðalán

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég skil mætavel áhyggjur hv. fyrirspyrjanda af þessum málum, því þau snerta margan manninn ef í óefni fer.

Vitanlega var það ekki gert að gamni sínu að minnka markaða tekjustofna Byggingarsjóðs um u. þ. b. 10%, eins og alla aðra markaða tekjustofna á fjárl. þessa árs. Það gerði enginn að gamni sínu, því vitanlega hefði frekar þurft að auka við tekjur Byggingarsjóðs en hitt. Hitt er svo annað mál, að þetta var gert af þeirri nauðsyn að draga úr þenslu í þjóðfélaginu og þó fyrst og fremst af þeirri nauðsyn að færa meira af síminnkandi innlendu sparnaðarfé yfir til atvinnuveganna. Þar við bætist svo að 2000 millj. kr. eru fluttar af skyldusparnaðarfé til Framkvæmdasjóðs af sömu ástæðu, vegna þess að þar vantar fé til atvinnuveganna. Þar á móti kemur svo að áætluð lántaka hjá lífeyrissjóðunum hækkar úr 500 millj., eins og hún var áætluð á síðasta ári, í 2755 millj. kr. Í heildinni kemur þetta þannig út, að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs er 34% hærra en á síðasta ári, eða hækkar álíka mikið og framfærsluvísitala, hækkar álíka mikið og verðlag er áætlað hækka, en þar verður að hafa í huga að byggingarvísitala hækkaði um 50% á síðasta ári og munurinn á framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu verður þarna Byggingarsjóði mjög svo í óhag, ef við miðum við fjölda íbúða sem hægt er að lána til. Aftur á móti kemur, að ef dregur úr verðbólgu nýtast að sjálfsögðu lánin betur en reyndin var á síðasta ári t. d. Þegar 50% verðbólga er rýrna lánin um þriðjung á árinu.

Það bætir þessa stöðu nokkuð, að 400 millj. kr. koma af skyldusparnaðarfé í sveitum til viðbótar því sem áður er talið og dregst þá frá þessum 2 milljarða mismun sem um er verið að ræða, en búið er að áætla lánin, en ekki tekjurnar sem koma þarna á móti. Ég reikna með að það, sem var ógreitt af útlánum síðasta árs, hafi verið tekið með inn í þessa áætlun, þannig að þarna verði um minnkun að ræða, þ. e. a. s. minnkun á fjárvöntun.

Að síðustu vil ég geta þeirra fyrirvara og ítreka þá fyrirvara sem eru í lánsfjár- og framkvæmdaáætlun fyrir þetta ár, en það eru fyrirvarar sem segja að taka skuli til endurskoðunar tekjuöflunarleiðir Byggingarsjóðs ef annað af tvennu skeður: í fyrsta lagi ef kemur til verulegs atvinnuleysis í byggingariðnaði eða ef sýnt þykir að Byggingarsjóður geti ekki staðið við lögbundnar eða venjubundnar skuldbindingar sínar. Ég treysti því, að ríkisstj. noti þessa heimild, ef sú staða kemur upp að þarna verði um verulegan skort að ræða.