01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

53. mál, verðjöfnunargjald af sauðfjárafurðum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að láta í ljós ánægju mína yfir því, að samkomulag náðist um að borga verðjöfnunargjald, sem hefði komið mjög hart niður á bændum ef þeir hefðu orðið að bera það. Hefði ekki verið neitt réttlæti í því, ef ekki hefði fundist lausn á þessu máli. Ég mun ekki tala langt mál, enda kemur þetta frv. í þá n. sem ég á sæti í, og í sjálfu sér gefur þetta frv. ekki heldur tilefni til þess að ræða mikið um það eða halda langar ræður, þótt að vissu leyti hafi hv. þm. sumir hverjir gefið tilefni til að ræða þessi mál á víð og dreif.

Í sambandi við breytingar á landbúnaðarstefnunni vil ég láta það koma fram hér, að um leið og slíkt er athugað verða menn að hafa það mjög í huga að reyna að tryggja að bændur hafi svipaðar tekjur og aðrar vinnandi stéttir hafa á hverjum tíma, sem þeir hafa að vísu samkv. lögum, en hafa því miður ekki náð að meðaltali í reynd og langt frá því. Líka þarf að hafa í huga að reyna að halda flestöllum jörðum eða helst öllum í byggð. Það eru þessi sjónarmið sem þarf líka að mínu mati að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd. Og það þarf að hafa það í huga, að þéttbýlisstaðirnir hér og þar hafa ekki litla atvinnu af búvöruframleiðslunni. Hverjar verða breytingarnar, ef úr henni er dregið að marki? Þetta verða menn að hafa í huga og margt fleira.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um vinnslukostnað og milliliðakostnað í sambandi við vinnslu og sölu landbúnaðarvara. Mér finnst rétt að vekja alveg sérstaka athygli á því, að það hefur verið kannað að hvergi í nágrannalöndunum er vinnslu- og dreifingarkostnaður jafnlágur og hér hjá okkur þrátt fyrir miklar vegalengdir.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ræddi nokkuð um landbúnaðarmál og flutti langan kafla úr ræðu sem við heyrðum í aprílmánuði s.l. hér á hv. Alþ. Ég svaraði ræðu hans þá og mun ekki gera nema örfáar aths. við mál hans nú.

Ég vil minna á það, að 1960 þegar Sjálfstfl. og Alþfl. stjórnuðu landinu, var þessi stefna tekin, sú stefna sem hefur í raun og veru gilt síðan, þ.e.a.s. 10% útflutningstryggingin á heildarframleiðslu landbúnaðarvara, sem bændum var tryggð. En það kom í staðinn fyrir annað, sem áður var, að þeir gátu hækkað verðið innanlands til þess að mæta því tjóni sem þeir urðu fyrir vegna útflutnings. Og ég vil líka minna á það, að á árunum 1960–1972, eða meðan Alþfl. var í þeirri ríkisstj., var meira magn sömu árin flutt út af lambakjöti en hefur verið síðan. 1969 var mest flutt út eða rúmlega 43% af heildarframleiðslunni það ár. Og meira að segja var yfir 21% af framleiðslunni flutt út 1960. Síðustu 2–3 árin hefur það verið í kringum 35% af framleiðslunni sem hefur verið flutt út og ástæðan fyrir því, hvernig þetta hefur farið, er fyrst og fremst verðbólgan. Það er misskilningur, að framleiðslan hafi út af fyrir sig aukist mikið. Segjum að gerð hefði verið t.d. landbúnaðaráætlun 1966 eða 1967 til 10 ára. Á því tímabili hefur fólksfjölgun í landinu orðið 12.8%. Um sauðfjárframleiðsluna veit ég ekkert í ár og það veit enginn, því að skýrslur eru ekki komnar um það efni, en á áðurnefndu tímabili hefur sauðfjárframleiðslan aukist um 16% og mjólkurframleiðslan um 7.5%. Þarna tek ég ekki með tvö síðustu ár — þetta er fyrir þann tíma — þannig að ég geri ráð fyrir að mjólkurframleiðslan hafi vaxið um 12% á þessu tímabili. Af tvenns konar ástæðum hefur þessi þróun orðið. Það hefur sem sagt orðið neyslubreyting hjá þjóðinni. Sú er aðalástæðan fyrir þessu. Ég vil ekki kalla þetta offramleiðstu, ég tel það ekki rétt orð. Ég kalla þetta markaðsörðugleika, vegna þess að þróunin í okkar málum og annars staðar hefur orðið þannig, að á sama tíma og t.d. fiskblokkin hefur fimm- eða sexfaldast í verði hafa landbúnaðarvörur á erlendum mörkuðum lítið eitt eða ekkert hækkað. Það gera niðurgreiðslur annars staðar og alls konar vernd. Á síðasta hausti var gerð tilraun til að flytja ófrosið kjöt til Frakklands. Ef ég man rétt og hef tekið rétt eftir, þá fengust um 1200 kr. fyrir kg. En það var bara tvöfaldur tollur á þessu: fyrst tollur sem EBE-ríkin lögðu á, um 20%, og síðan tollur sem Frakkarnir lögðu á, enn hærri. Það fór því meira en helmingurinn af verðinu í toll. Þannig standa aðrar þjóðir ýmsar að því að vernda landbúnað sinn. Þær tollavörur sem koma annars staðar frá, en borga sínar vöru niður.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson komst þannig að orði í ræðu sinni áðan, að milli ára hefðu útflutningsuppbætur hækkað um 80%, sem sagt frá því í ár og þangað til á næsta ári yrði hækkunin 80%. Ég veit ekki hvaða viðmiðun hann hefur. Þó kom í ljós, að hann hefur þá viðmiðun nú, að það þurfi 5.4 milljarða. En það liggur fyrir hverjar uppbæturnar voru s.l. ár. Þær voru tæplega 3.6 milljarðar. Ef menn reikna þetta saman, þá er hækkunin milli ára 50% eða líkt og fjárlög hækka.

Ég þarf ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég vil þó taka það fram, að þessi mál eru ekki eins einföld og sumir vilja vera láta. Það er t.d. alveg ósannað mál, ef við drægjum verulega úr mjólkurframleiðslunni, hvort 100 millj. lítrar, ef við færum niður í það, mundu ekki kosta í sjálfu sér jafnmikið og 110 millj. lítrar, þ.e.a.s. ef við ætlum að framleiða eins og þjóðin þarf á hverjum tíma og draga úr framleiðslunni yfir sumarið þegar ódýrast er að framleiða mjólkina. Og það er margt fleira sem kemur til. Við skulum hugsa okkur að við reynum að halda þessu í svipuðu horfi. Þá þurfa bændur að hafa sín laun. Sannleikurinn er að þessi stærð á búunum að undanförnu hefur komið að mestu eða öllu leyti til hagsbóta fyrir neytendur. Bændur hafa í mjög litlum mæli náð tekjum út úr þessari framleiðslu.

Ég ætla að láta þetta nægja. En ég vil minna á það enn og aftur, hvernig á að standa að þessum málum. Skoða þarf alla þætti þeirra niður í kjölinn, bæði það, sem snýr að landbúnaðinum, miðað við þá byggðastefnu, sem við viljum halda uppi, og miðað við þá atvinnuuppbyggingu, sem hefur verið gerð, og hvernig á þá að breyta til, því að við verðum að reyna að láta alla þessa enda ná saman.