26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3587 í B-deild Alþingistíðinda. (2802)

347. mál, fæðingarorlof

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Spurt er um hvað líði könnun ríkisstj. á því, á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni, samkv. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 28 11. maí 1977.

Svo sem kunnugt er var sú breyt. gerð á lögum um atvinnuleysistryggingar í maí 1975, að þær konur, sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, skuli njóta atvinnuleysisbóta í samtals 90 daga. Tóku þessi lagaákvæði gildi hinn 1. jan. 1976. Framkvæmd lagaákvæða þessara olli nokkrum deilum og tókst ekki að ná samvinnu við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem þá var, um setningu reglugerðar um greiðslu þessara bóta. Reglugerðin var hins vegar samin af rn. og sett hinn 20. jan. 1976.

Það, sem deilum hefur valdið í þessum málum, er hvort bætur af því tagi, sem hér um ræðir, eigi að greiðast af atvinnuleysistryggingum eða almannatryggingum, en fjármögnun þessara tveggja trygginga er með mjög ólíkum hætti svo sem kunnugt er.

Þegar fyrrgreind lagaákvæði um fæðingarorlof voru samþ. í tíð fyrrv. ríkisstj. var starfandi nefnd undir forustu þáv. formanns tryggingaráðs til að endurskoða lögin um almannatryggingar. Sú nefnd skilaði nál. á s. l. ári, en í því nál. var ekki tekin afstaða til þess, hvernig með fæðingarorlof skyldi farið í almannatryggingum. Virðist nefndin ekki hafa rætt verulega um það atriði.

Síðan á árinu 1977 hefur starfað nefnd undir formennsku Benedikts Sigurjónssonar hæstaréttardómara að endurskoðun gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Gert er ráð fyrir að nefnd þessi fjalli um fæðingarorlofið eins og aðra þætti atvinnuleysistrygginganna, eins og þeir eru nú, og hefur verið gert ráð fyrir að nefndin skili till. sínum um lög um atvinnuleysistryggingar á þessu vori. Í bráðabirgðayfirliti nefndarinnar kemur þó fram, að hún telur óeðlilegt að fæðingarorlof sé á vegum Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Svo sem gert er ráð fyrir í samstarfssamningi ríkisstjórnarflokkanna hef ég nú skipað nefnd til að endurskoða lög um almannatryggingar. Í nefndinni eiga sæti Jón Ingimarsson skrifstofustjóri rn., sem er formaður nefndarinnar, Eggert G. Þorsteinsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, Jóhanna Sigurðardóttir alþm., Stefán Jónsson alþm., Guðmundur H. Garðarsson viðskiptafræðingur, Guðjón Hansen tryggingafræðingur og Halldór E. Sigurðsson alþm. Ritari nefndarinnar verður Jón Sæmundur Sigurjónsson deildarstjóri í rn. Þessi nefnd er nú tekin til starfa og fær það verkefni að gera heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar og þá sérstaklega að gera till. um hvernig fæðingarorlofi verði best fyrir komið. Ég geri ekki ráð fyrir að nefnd þessi skili áliti fyrr en seint á þessu ári, en vænti þess þó að till. frá henni, a. m. k. fyrstu till., komi það tímanlega að hægt verði að leggja þær fyrir þing á komandi hausti.

Ég er algjörlega sammála hv. fyrirspyrjanda, að það er ekki vansalaust hve mikill dráttur hefur orðið á afgreiðslu þessa máls hjá ríkisvaldinu, og ég bendi á að fyrir þessari hv. d. liggur þáltill. um þetta sama mál. Ég tek að endingu undir orð hv. fyrirspyrjanda um að allar konur eiga vissulega að sitja við sama borð í þessu efni.