26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3589 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

347. mál, fæðingarorlof

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér litlu við það að bæta sem hér hefur komið fram. Þetta er í annað skipti sem hæstv. heilbr.- og trmrh. þarf á þessu þingi að svara fsp. af þessu tagi og svör hans eru mjög á þá lund, sem ég fagna, að sú nefnd, sem nú er að störfum varðandi tryggingamálin, sé með þetta verkefni. Ég vil aðeins leggja áherslu á það, vegna þess sem búið er að samþ. áður og hv. fyrirspyrjandi kom inn á, að tvisvar hefur mjög ákveðið ákvæði til bráðabirgða verið samþ. á Alþ., og þar af leiðir að hér hlýtur að vera um forgangsverkefni að ræða í þeirri endurskoðun sem fram fer á vegum þeirrar nefndar sem nú er að störfum - hreint forgangsverkefni.

Ég hafði satt að segja gert mér vonir um að í þeirri endurskoðun, sem fram fór á síðasta ári og við sáum árangur af í ljósi frv. í fyrra, yrði þetta verkefni tekið fyrir sem eitt af þeim forgangsverkefnum sem þyrfti að sinna. Það varð þó ekki og maður varð ekki var við mikinn þrýsting frá þáv. stjórnarþm. í þá átt að þessu sérstaka máli væri þá að komið.

Upphaf þessa máls á þingi, það ég man eftir fyrst frá minni setu hér, var till. Bjarnfríðar Leósdóttur um vandlega athugun á fæðingarorlofi fyrir allar konur og þá einmitt í því rétta formi, sem auðvitað á að vera á þessu, þ. e. a. s. í almannatryggingakerfinu.

Ég sagði, þegar við settum þessi ákvæði um Atvinnuleysistryggingasjóðinn, að hann tæki að sér verkefnið að þessum hluta, að ég væri sannfærður um að þetta mundi tefja fyrir raunverulegri framkvæmd þessa réttlætismáls í heild. Ég held að reynslan hafi sannað að það, að þetta var sett á rangan stað á sínum tíma inn í kerfið, þó vissulega væri um réttlætismál að ræða fyrir þær konur sem það snerti, hafi einmitt orðið til þess að tefja fyrir raunverulegri framkvæmd á þessu máli, þannig að allar konur hlytu sama rétt hvað þetta snertir.