26.03.1979
Neðri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3590 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

347. mál, fæðingarorlof

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kom nú aðallega upp í ræðustólinn vegna þess að hæstv. trmrh. greindi frá því að nefnd til endurskoðunar á tryggingalöggjöfinni væri tekin til starfa. Þetta er að vísu rétt. Hún hefur komið aðeins saman. Hún hefur komið saman einu sinni til þess að koma sér saman um hvernig unnið skuli, og það er ljóst mál, eins og hæstv. ráðh. sagði, að þetta sérstaka mál hlýtur að verða eitt af þeim fyrstu sem nefndin fjallar um. Fyrir nefndinni liggur nú þegar til umsagnar þáltill. sú sem hæstv. ráðh. gat um áðan, sem fjallar raunar um að fæðingarorlof verði einnig látið ná til eiginkvenna bænda. Einhver hafði skrifað neðan á eyðublaðið, sem ég fékk í möppuna mína í hinni nýju nefnd: „Af hverju bara eiginkvenna?“

Ég tek undir það með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að fáar konur munu hafa meiri þörf fyrir fæðingarorlof en þær sem bundnar eru heima fyrir yfir stórum hópi barna, að því tilskildu að þær séu þá þungaðar og ætli að fara að fæða. Sannleikurinn er sá, að hér er um að ræða mál sem verður að ná til allra kvenna á Íslandi. Þær verða að eiga allan þennan rétt.

Það er ljóst mál að Atvinnuleysistryggingasjóður var ekki til þess stofnaður í fyrsta lagi að inna þessar greiðslur af höndum. Í öðru lagi er hann þess vanmegnugur. En það blasir við. okkur, þegar hæstv. trmrh. felur nú nefnd þeirri, sem endurskoða á tryggingalöggjöfina, að sjá þessu máli farborða, að til þess þarf allmikið fé. Það væti þá vingjarnlegt að þeir menn, sem hafa mest uppi nú að skera niður allar framkvæmdir og öll útgjöld, fengju það inn í kollinn á sér að það þarf sennilega yfir milljarð til þess arna á ári. Ég vildi sjá þá peninga liggja á borðinu í fjárhagsáætlunum, ef nefndinni er ætlað að leysa mál þetta fyrir næsta haustþing. Það vildi ég gjarnan sjá. Ég geri ráð fyrir að nefndin muni afgreiða þetta mál áður en þing kemur saman í haust, eitt af þeim fáu málum sem lúta að endurskoðuninni, en ég vildi gjarnan að séð væri fyrir peningum til þeirra hluta.