27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3620 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

Umræður utan dagskrár

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Þessar umr. utan dagskrár eru raunar tvíþættar, en lítið verið vikið að því máli sem síðar var hafið, varðandi hafísinn fyrir Norðausturlandi. Ég ætla því fyrst að víkja að því, þó fá orð verði.

Ég vil taka undir þá hugmynd, sem hér var hreyft á þinginu fyrr í dag, að það væri skipuð nefnd til að kanna þau mál, hvað hægt væri að gera til að bæta úr því ástandi sem menn óttast að sé að skapast á norðausturhorninu varðandi atvinnuhætti, en vil í þessu sambandi benda á hve gjörbreyttar aðstæður eru nú frá því fyrir um 10 árum þegar hafís rak að öllu Norðurlandi. Mikill ótti var í fólki um langvarandi siglingastöðvanir af þeim sökum. Þá var aðalóttinn um það, að ekki væru nógar olíubirgðir á höfnum á Norðurlandi til þess að sjá um upphitun o. fl. og ekki fóður fyrir búpening bænda. Nú eru það fyrst og fremst atvinnuhættirnir sem fólkið óttast um, þ. e. að ekki komi fiskur til þeirra hafna þar sem atvinnuhættirnir byggjast eingöngu á fiskvinnslu.

Þetta er að vissu marki athyglisverð breyting, sem orðið hefur, og vissulega eftirtektarverð, en engu að síður þarf að gá að hlutunum, þó í öðru formi sé en fyrr. Ég bendi á að það væri mjög æskilegt, ef hugsanleg og væntanleg nefnd fjallaði um þessi mál, að athugað væri fyrst og fremst hvernig og þá með hvaða hætti væri hægt að koma fiski til vinnslu á þær hafnir sem hættulegast er nú um að missi af hráefni sínu, eins og Þórshöfn og Raufarhöfn, og ég get trúað því að auðvelt væri að bæta úr þessu með flutningum á fiski t. d. eins og hér hefur verið nefnt fyrr í dag.

Ég vildi í fáum orðum taka undir þá hugmynd og þær umr., sem fram fóru, en ég vildi svo víkja að seinna málinu, sem hér hefur verið miklu meira rætt. Ég verð að lýsa því yfir, að ég hef verulegar áhyggjur af því, hvernig þau mál hafa æxlast, þegar ég lít á atvinnuhætti og aðstæður í mínu kjördæmi, þ. e. a. s. Norðurl. e.

Ég get ekki varist því að skýra frá því, að ég hrökk töluvert við þegar, eftir jafngóða loðnuvertíð og við höfum haft nú um sinn, þær fréttir komu að búið væri að setja á þorskveiðarnar um 30 loðnuskip sem færu að stunda netaveiðar á þorskinum á þeirri vertíð sem nú stendur yfir. Ég kem ekki auga á að það hafi verið nauðsynlegt, eins og vertíðin hefur verið góð fyrir loðnuskipin yfirleitt, að neyta þessara bragða, og miklu skynsamlegra hefði verið að takmarka þetta miklu meira eða helst ekki setja loðnuskipin neitt á þorskveiðar nú, og vík þá aftur að mínu kjördæmi, því að mér sýnist að það muni verða alveg sérstaklega harkalegar aðgerðir sem þessar stöðvanir yfir sumarið hljóta að verða fyrir hafnir eins og Akureyri, Dalvík, Ólafsfjörð, Hrísey og Raufarhöfn, svo ég fari ekkert út fyrir Norðurl. e.

Ég ætla að benda þingheimi á það, að á Akureyri eru fimm togarar og þeir alfarið sjá um hráefni fyrir Hraðfrystihús Akureyringa, en þegar þeir verða að hætta veiðum um lengri eða skemmri tíma missir sá hópur manna, sem vinnur í hraðfrystihúsinu, vinnu um jafnlangan tíma og miklar tekjur í sambandi við það. Á Dalvík munu vera um þrír togarar, Ólafsfirði aðrir þrír, Hrísey einn togari, sem alfarið eða að meginhluta sér um frystihúsið þar, og á Raufarhöfn einnig einn togari og á Húsavík sömuleiðis, þó að þar sé betra hráefni frá bátum en á hinum stöðunum sem ég nefndi. Það eru m. ö. o. um 14 togarar á tiltölulega litlu svæði fyrir Norðausturlandi eða austanverðu Norðurlandi sem munu verða, eins og nú horfa sakir, að draga saman seglin á þeim tíma, sem um er talað, og þeim ætlað þá að sækja suður fyrir land í ufsa og karfa, sem er langsótt fyrir þessi skip og ekki hægt að sækja fyrir smærri togarana eins og eru á minni stöðunum.

Erindi mitt upp í ræðustól nú — ég skal ekki tefja þessar umr. lengur — var að taka undir það, sem hér hefur verið gagnrýnt varðandi loðnuskipin, og lýsa yfir óánægju minni og gagnrýni á það, að mér sýnist þarna búið harkalega að þeim landshluta sem ég þekki best. Áður hefur viðhorfum verið lýst yfir frá hendi Vestfirðinganna, og ég geri ráð fyrir að Austfirðingar muni einnig lýsa sínum viðhorfum, en einmitt þegar svona ráðstafanir eru gerðar þarf fólk að hafa tilfinningu fyrir því, að þetta komi sem jafnast niður, en sé ekki harkaleg beiting gagnvart sérstökum og ákveðnum landshlutum.