27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Nú fór í verra, lifandi þorskur sloppinn suður fyrir land! Ég man varla eftir öðru eins ergelsi og að mönnum væri jafnmikið niðri fyrir í Sþ. og hefur verið í þessum umr. Það virðist vera augljóst hvað um er að vera. Það er farið að fiskast fyrir Suðurlands- og Reykjaneskjördæmi. Það kom beinlínis fram í ræðu hv. frummælanda að það var það sem ergði hann.

Á undanförnum árum hefur komið fyrir að við þm. Reykjaneskjördæmis og Suðurlandskjördæmis höfum vakið athygli á því vandræðaástandi sem verið hefur þegar fiskilaust var langtímum saman á þessu svæði, reyndar, eins og kom fram hjá fyrrv. hv. sjútvrh., að fiskmagn hefur dregist mikið saman á 6–8 undanförnum árum á þessu svæði. En svo brá við allt í einu, það fór að fiskast. Ekki að það væri neitt mokfiskerí, eins og var hér fyrr á tímum, ekki að um nein uppgrip væri að ræða. Ég hef það fyrir satt að netafiskirí Eyjafjarðarbáta sé að meðaltali meira á hvern bát en á Suðurlandssvæðinu í ár. Nei, en nú varð eitthvað að gera. Það varð að taka í taumana. Hér var sýnilega eitthvað að breytast. Mér finnst þetta hörmulegt, en mér finnst það skýra ýmislegt sem skeð hefur á undanförnum árum, hve þm. finnst virkilega nauðsynlegt að grípa í taumana strax til þess að bjarga þorskstofninum.

Ég er sammála hæstv. sjútvrh. um, að það þarf að gera verulega áhrifaríkar ráðstafanir til þess að vernda þorskstofninn, og vil styðja hann eindregið í því efni. En ég verð að segja það, að mér finnst ekki óeðlilegt, þegar fiskur kemur snögglega á svæði sem er búið að vera fiskileysi á árum saman, þar sem hefur orðið að loka fjölda fiskvinnslustöðva, aðrar farnar á hausinn og jaðrar við atvinnuleysi árum saman, þó menn grípi ekki þegar í stað til ráðstafana. Mér finnst það ekki heldur neitt eðlilegt, enda þótt að meðalafli loðnuskipa kunni að vera góður og kjör sjómanna á loðnuskipum ágæt, að það sé sjálfsagt að taka loðnuflotann úr og hann skuli endilega eiga að vera í höfn mánuðum saman vegna þess að mennirnir hafa haft góðar tekjur þá fáu mánuði sem loðnuvertíðin stóð. Ég er þeirrar skoðunar, að ef meðaltal er tekið sé ekki mikill munur á launum loðnusjómanna og launum manna á minni skuttogurunum. Ég held því að það sé ekki eins sjálfsagt og látið hefur verið í veðri vaka hér, að stöðva beri loðnuskipin og hleypa þeim ekki á aðrar veiðar strax, — að það sé sjálfsagt vegna þess, hvað þeir hafi haft miklar tekjur á undanförnum mánuðum.

Ég vil svo einnig geta þess, að það hefur komið fram í sjónvarpinu að það er ekki allt þorskur sem verið er að drepa í netum við Suður- og Suðvesturland. Það var beinlínis sýnilegt á mynd, sem sýnd var þar fyrir nokkrum kvöldum, að verulegur hluti aflans er ufsi. Ufsi er ein af þeim fisktegundum sem eru e. t. v. ekki í eins bráðri hættu og þorskurinn. Ég vil enn fremur geta þess, að hér er um svo stuttan tíma að ræða að það er ekki mikið heildarmagn af þorski að ræða sem komið er á land.

Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því, sem ég man ekki að hafi komið fram hér, að á þessu svæði er einmitt allstórt alfriðað hrygningarsvæði til þess að tryggja þorskinum hrygningu. Það verður því ekki sagt að á þessu svæði hafi verið staðið illa að málum.

Hitt er svo kannske rétt, að stofninn sé orðinn svo lítill og í svo mikilli hættu að nauðsynlegt sé að hamla eitthvað gegn veiðum í net. En þá finnst mér ekki nema sanngjarnt að ákveðnu heildarmagni verði náð. Ég vil sérstaklega taka það fram varðandi Suðurnes og Suðurland, að þar stendur mikið netafiskirí tiltölulega stuttan tíma — þetta mikla fiskirí. Ef að venju lætur er um skrap að ræða þar sem uppistaðan í aflanum er kannske allt annar fiskur en þorskur. Og ég held að Suðurnesjatogararnir a. m. k. mundu sætta sig vel við það þótt þeir þyrftu að fara niður fyrir 3 000 tonn af þorski á ári. Ég held að þar detti engum í hug að vera að tala um þorskafla sem nálgast 4 000 tonn á ári. Slíkt er hrein fásinna og kemur aldrei fyrir. Mér skildist á ræðu eins ræðumanns áðan, að þessar takmarkanir á vestfirsku togurunum gætu kannske nálgast það að vera jafnmiklar og allir Suðurnesjatogararnir hefðu verið í höfn allt árið. Svo mikill er aflinn á Vestfjörðum.

Auðvitað verða menn ekki á eitt sáttir þegar á að fara að taka af og hamla veiðum. En ég vil geta þess, að á undanförnum árum hafa verið aðilar á Alþingi sem hafa haft tilhneigingu til að hafa svolítið meiri jafnaðarmennsku á veiðunum m. a. með því að banna flottrollið. En við slíkt var ekki komandi og fékkst ekki samþ. í hv. Alþ. Með því móti hefði mátt jafna veiðarnar allmikið. Ég held að það hafi verið illa farið að slíkt fékkst ekki fram.

Við erum í miklum vanda staddir, og enda þótt fullyrðing standi gegn fullyrðingu hjá ýmsum mönnum um magn þorskstofnsins er enginn vafi á því að við verðum að fara varlega. Fæst okkar mundu geta hugsað sér það ástand sem skapast mundi hér á landi ef þorskurinn færi eins og Norðurlandssíldin.

Hér hefur verið mikið talað um að fiskurinn á Suðurnesjum og Suðurlandi væri 2. flokks fiskur eða verri og lélegri vara en annars staðar frá. Kann að vera að svo sé að einhverju leyti. Það mun alls staðar sem fisks er aflað í stórum stíl, að þar skemmist eitthvað af fiski. Varðandi það, að allur Norðurlandsfiskurinn fari í neytendapakkningar, hefði ég gaman af að heyra skýringu hv. ræðumanns á því, í hvers konar neytendapakkningar ungþorskurinn og þyrsklingurinn færi sem í hundruðum tonna var malaður í fyrra í beinamjöl.

Hins vegar er það vitað mál, að alltaf er eitthvað af fiski betur komið í salti en í frystingu. Það er ekki vafi á því, að hann nýtist betur á þann hátt ef hann er búinn að liggja í netum meira en eina nótt. En þá verður líka að taka tillit til þess, að hver þorskur, sem veiddur er á því svæði, sem nú er verið að ræða um, er á við tvo þorska eða þrjá þorska á „neytendapakkningasvæðinu“, fyrir Norðurlandi eða Austurlandi. Og það má líka hafa það í huga. Það er ekki aðalatriðið hve mörg tonn við fiskum. Það er að sjálfsögðu aðalatriðið hve marga fiska við drepum. Ég er ansi hræddur um að meðalafli netabátanna á Suðurnesjum og fyrir Suðurlandi nú muni ekki vera öllu meiri, ef maður á við þorskfiskafjölda, en tvær tíu daga veiðiferðir vestfirsks togara ef maður miðar við venjulegan afla í sjóferð. Á þennan hátt getið þið gert ykkur í hugarlund, að það er auðvitað mikil nauðsyn að huga að ungfiskinum líka og að takmarka þær veiðar ekki síður en netaveiðar.