27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég skal lofa því að vera stuttorður, en ég þori ekki að lofa því að vera að sama skapi gagnorður. Það er sannarlega ekki að ófyrirsynju að þessi umr., sem nú á sér stað hér, fari fram um fiskveiðimál og satt að segja um stefnuna í fiskveiðimálum, því skortur hefur verið á umr. um þau mál í þinginu.

Ég vil leyfa mér að lýsa yfir eindregnum stuðningi við ákvörðun sjútvrh. um aflatakmarkanir á þorskveiðum í ár. Ég tel að öll sú veiði, sem fer fram yfir 280 þús. tonn, sé af fyrirhyggju- og ábyrgðarleysi. Það má segja að æskilegast hefði verið að reglur og takmarkanir hefðu verið komnar fram fyrir ársbyrjun, þannig að þessi leikur hefði hafist í raun og veru með vertíðarbyrjun í vetur, en sannarlega er betra seint en aldrei. Ég held að við verðum að taka þeim reglum sem settar verða nú.

Eftir þessum umr. að dæma, eins og þær hafa farið fram, finnst mér einhvern veginn að sjómenn, útvegsmenn og aðrir þeir, sem eiga þarna brýnna hagsmuna að gæta, hafi á þessum málum miklu meiri og betri skilning en við sem hér sitjum. Þeir gera sér fulla grein fyrir því, að svo verður ekki framhaldið sem verið hefur um þorskveiðarnar.

Auðvitað hlýtur þorskveiði að koma mest niður á þeim fiskimönnum og þeim svæðum sem mest hafa stundað þorskveiðar. Hjá því verður ekki komist. Það hefur verið eitthvað blandaðri afli sem Sunnlendingar hafa tekið en aðrir landsmenn. Þess vegna verður aflatakmörkunin kannske ekki eins mikil hjá þeim og öðrum. Það hefur ýmislegt komið fram í þessum umr., sem hér hafa verið, t. d. um fiskifræðingana. Ég tel að við eigum mjög hæfa og vel menntaða fiskifræðinga og við komumst ekki hjá því að taka fullt tillit til skoðana þeirra og fylgja þeim að svo miklu leyti sem við verður komið. Það er eðlilegt að töluverður mismunur verði á skoðunum manna: fiskifræðinganna, sem verða að sýna varfærni í starfi, og aftur skipstjórnarmannanna, sem hljóta að verða að vera bjartsýnir og sýna í mörgu fyrirhyggjuleysi. Við vitum það allir, sem að máli þessu höfum komið, að það fer ekki öllu fram sem skyldi um borð í netabátunum sem veiða við Suðurland. En við vitum það jafnvel, að það fer ekki allt sem skyldi um borð í togurunum sem veiða annars staðar við landið. Þetta er ákaflega núsjafnt. Menn ganga misjafnlega að þessu starfi sínu eins og öðrum störfum. Sumir stunda þetta starf af fyrirhyggju og ábyrgð, en aðrir ekki sem skyldi.

Það kom fram í máli Sighvats Björgvinssonar áðan, að það virtist vera að fiskurinn stækkaði í lestum veiðiskipanna á leiðinni suður fyrir Reykjanesið. Ég held að hann hljóti að hafa gleymt myndinni sem birtist í hittiðfyrra í Morgunblaðinu, sem bar saman þorsk, sem veiddur var á Vestfjarðamiðum, og þann þorsk, sem veiðist hér fyrir Suðurlandi á vertíðinni.

Það er enginn vafi að við verðum að haga svo málum að við náum hámarksnýtingu og hámarksgæðum á þann fiskafla sem á land berst, og við verðum líka að haga svo málum að við eyðum eins litlu af fjármunum til þessara veiða og kostur er. Þannig verður auðvitað að halda á stjórninni. Og það má segja að það valdi hver á haldi og mestu varði hvernig á málunum verður haldið í framtíðinni.

Ég tel að við þurfum núna að vinna að uppbyggingu raunhæfs fiskveiðieftirlits. Það er Landhelgisgæslan og þeir fáu eftirlitsmenn, sem settur eru um borð í veiðiskipin, sem hafa þetta starf með höndum núna. Ég tel að það sé spurning um hvort þeir hafa þá aðstöðu sem þarf til að stunda þetta starf sem skyldi. Ég tel að við þurfum að byggja nokkur lítil og ódýr skip, sem geti fylgt fiskveiðiflotanum meðan hann er að veiðum, bæði á vertíðinni og á síldveiðum og reyndar hvar sem er, sérstaklega bátaflotanum, og þessir menn séu tilbúnir að fylgjast með veiðarfærum, sem notuð eru, og með veiðinni, hvernig hún fer fram, og þeir viti þá gjörla um allt sem gerist, en ekki að menn séu að koma hér fram með sleggjudóma í landi um það sem fram fer á miðunum.

Ég tel að það sé ekkert óeðlilegt þó að á hverjum veiðistað eða í hverri verstöð sé skipuð nefnd skipstjórnarmanna sem hefði líka þarna hlutverki að gegna. Þetta var gert áður fyrr þegar stunduð var veiði bæði með línu og netum hér við suðurströndina. Þá voru nefndir skipstjórnarmanna sem fylgdust með veiðunum, með merkingu veiðarfæra og notkun þeirra, og ég tel ekkert óeðlilegt þó að þessu starfi verði haldið áfram, í annarri mynd að vissu leyti en var áður fyrr. Eins tel ég að það væri ekkert óeðlilegt að skipa trúnaðarmenn um borð í veiðiskipunum. Ég tel að sjómenn hafi orðið það mikinn skilning á nauðsyn þessara takmarkana og þess starfs sem þarna er verið að vinna, að þeir bæru þarna fulla ábyrgð og gætu þarna sinnt góðu starfi og unnið gott verk margir hverjir. Auðvitað yrði þarna einhver misbrestur, en ég held að þetta mundi fara vel fram að mestu leyti.

Ég held að við verðum að láta þau áföll sem orðið hafa hjá okkur sjálfum, — ég á þar við það þegar síldarstofninn hér við Suðurland var drepinn niður, — verða okkur að kenningu og eins hitt, að aðrar þjóðir hafa orðið fyrir miklum áföllum, t. d. Kaliforníumenn þegar þeir drápu niður sardínustofninn, Norðmenn þegar þeir drápu niður síldina hjá sér, Perúmenn þegar þeir drápu niður ansjósuna og Bretar hvernig þeir hafa gengið í síldarstofninn. Og nú er nýtt dæmi eða ný mynd sem við fáum af því, hvernig Suður-Afríkumenn hafa gengið í pilchard-stofninn hjá sér. Þetta var stofn, sem skilaði þeim 1.5 millj. tonna. Árið 1975 var það komið niður í 545 þús. tonn. Síðan fer þessu hrakandi þangað til það er komið niður í 46 þús. tonn í fyrra, og nú í ár verður þeim einungis leyft að veiða 29 þús. tonn.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það hafa orðið mikil áföll og mikil slys í fiskveiðum ýmissa þjóða á undanförnum árum. Þessi slys skulum við láta okkur að kenningu verða og haga fiskveiðum okkar í framtíðinni með það fyrir augum að slíkt hendi okkur ekki að nýju. Eitt slys er nóg fyrir okkur.