27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3634 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það hafa komið fram hér fjölþætt sjónarmið við þessa umr. Það hafa líka komið fram ágiskunartölur sem ég held að séu heldur illa rökstuddar.

Það var rætt hér dálítið um fiskifræðinga og ég tek undir það sjónarmið sem hefur komið fram hér hjá sumum, að það sé nokkur ástæða til að taka mið af því áliti sem þeir láta frá sér fara. En ef menn vilja láta öll þeirra álit lönd og leið, þá þarf náttúrlega ekki heldur að hugsa neitt um þorskveiðitakmarkanir eða aðrar veiðitakmarkanir yfirleitt og þá verður eftirleikurinn allur auðveldari og kannske ekkí sami áhugi á því að grípa til aðgerðanna.

Það var minnst hér á þann afla sem hefði borist á land fyrstu mánuði þessa árs, og ég held að það sé rétt að upplýsa, þannig að ekki fari á milli mála, að aukningin fyrstu tvo mánuðina í þorskafla er 14 þús. tonn. Sú aukning er þó með þeim hætti að hún er langmest á Vestfjörðum eða um það bil 51% frá árinu á undan. Heildarþorskaflinn fyrstu tvo mánuðina hefur sem sagt verið 55 200 tonn á móti 41 200 árið á undan og sambærilega tala fyrir þorskafla fyrstu tvo mánuði ársins 1977 var um 50 þús. tonn. Ég læt þessa getið hér vegna þess að það hefur verið rætt nokkuð mikið um það að seint sé gripið til ráðstafana og þetta hafi allt fengið að ganga hömlulaust hér framan af. En orsakir aflahrotu núna geta kannske ekki síst verið þær, að hún sé fyrr á ferðinni en áður, og ýmislegt í gögnum fiskifræðinga bendir til þess að svo sé. Engu að síður hef ég lýst því yfir, að það verði fylgst með því hvernig þorskveiðar gangi og það geti vissulega komið fyllilega til álita að stöðva þorsknetaveiðar á vertíðinni síðar ef útlit er fyrir að í óefni horfi.

Hér var margítrekuð spurning, sem ég taldi mig hafa svarað strax í fyrstu ræðu minni, varðandi þann vanda sem upp er kominn á Norðurlandi vegna hafíssins. Ég tók það fram strax í fyrstu ræðu minni, að auðvitað yrði tekið tillit til hans og að sú raunverulega stöðvun, sem þar yrði á veiðum bátanna, yrði tekin til greina. Ég sé hins vegar ástæðu til að ítreka þetta vegna þess að þessi spurning hefur margítrekað verið borin fram eftir að ég taldi mig hafa svarað henni.

Það hefur mikið verið fjallað um loðnubátana. Ég lýsti því hér í upphafi hvaða reglur væru í gildi í þeim efnum, hvaða annmarkar væru á því að skerpa þær reglur eða auka vegna þess að það þyrfti að gerast með ákveðnum fyrirvara, en þó hefði verið gripið til ráðstöfunar sem mundi hafa nokkra takmörkun í för með sér. Hjá fulltrúum þingflokkanna kom einmitt fram á fundum með sjútvrn. að það mundi vera ógerlegt eða a. m. k. mjög torvelt að grípa til ráðstafana af þessu tagi til þess að takmarka veiðar loðnubátanna með svo skömmum fyrirvara sem hér um ræðir. Ég get þessa einungis til þess að það komi í ljós, að að þessu máli hefur verið hugað og reynt að stíga þar þau skref sem fær þóttu vera.

Það var minnst á það áðan, að rn. ætlaði að setja skilyrði um að ef fiskur kæmi á millidekki, þá skyldi hann vera ísaður í kassa og eins að ljúka yrði löndun úr skipi áður en það færi aftur til veiða. Þessar hugmyndir eru auðvitað settar fram að gefnu tilefni, vegna þess að mönnum er kunnugt um að þarna hafi orðið misbrestur á í mörgum tilvikum. Ég ætla ekki að draga neitt úr því, að aðalatriði málsins er auðvitað gæði aflans þegar um takmarkað aflamagn er að ræða sem mögulegt er að taka á land. Einmitt þess vegna er lögð sérstök áhersla á það af hálfu rn. að auka eftirlit með netaveiðum í því skyni að bátar fari eftir settum reglum og leyfissviptingum verði beitt vegna brota á þeim. Það hefur verið talað um að erfitt sé að hafa eftirlit með því, hversu mörg net séu í sjó og þar fram eftirgötunum og hvort dregið sé daglega. En þá kemur líka með í þetta dæmi og ekki síst eftirlitið með gæðum aflans og leyfissvipting ef ítrekað er komið með mjög lélegan afla að landi, og þetta held ég, að geti nú gilt í öllum landshlutum.

Varðandi þessa umr. alla vil ég segja það, að eins og hún hefur gengið fyrir sig og undirbúningur þessa máls, þá hefur það verið meginhugmynd mín að lýsa eftir hugmyndum. Það hefur verið rætt við hagsmunaaðila, það hefur verið rætt við fulltrúa frá þingflokkunum, en það fer minna fyrir nýjum hugmyndum eða öðrum hugmyndum en þeim sem festar hafa verið á blað í rn. og ég hef lýst hér í megindráttum. Þó vil ég sérstaklega þakka gagnlegar ábendingar sem komu fram hjá hv. þm. Guðmundi Karlssyni, sem ég tel allrar athygli verðar.

Það mál, sem menn hafa nú kannske snúið umr. sínum mest um, sérstaklega þeir sem eru utan af landsbyggðinni, eru þær takmarkanir sem ákveðnar hafa verið vegna togaranna. Nú er það svo, að á s. l. ári voru þorskveiðar takmarkaðar í 58 daga, og það kom fram hjá fulltrúum þingflokkanna, sem ræddu við sjútvrn. um þessi mál, að þeir hefðu áhuga á því að fara svipaðar leiðir og áður en í víðtækara mæli. Breytingin er sú, að tíminn er lengdur. Breytingin er sú, að tíminn er fluttur yfir á sumarið, vegna þess að ef eigi að vera um raunverulega takmörkun að ræða, þá verður hún að gerast á þessum tíma og þá verður líka að lengja tímann. Þetta vil ég að menn hafi í huga. Hins vegar þykir mér mjög villandi þegar menn standa upp hér hver á eftir öðrum og tala um þær takmarkanir á þorskveiðunum sem hér er um að ræða sem stöðvun veiða. Auðvitað er aðstaða manna til þess að sækja í aðra fiskstofna misjöfn. En það er ljóst að einmitt yfir sumartímann er aðstaðan til þess betri en á öðrum árstímum, og það er líka alveg ljóst, að með góðu skipulagi veiðanna — og sú skylda hvílir auðvitað á útgerðarmönnum — í þessu tilviki eigi ekki að vera svo nærri mönnum gengið að ekki sé unnt að halda uppi fullri atvinnu. Aðstaðan er misjöfn að mörgu leyti. Aðstaðan hefur auðvitað verið nokkuð þung fyrir menn af ýmsum landshornum til þess að sækja þorskinn á Vestfjarðamið, og auðvitað verður heldur þyngra undir fæti fyrir Norðlendinga að sækja karfann suður fyrir. En þetta er svipað og þeir, sem sunnanlands hafa gert út, hafa þurft að búa við til þess að sækja í þorskinn.

Þá má koma fram að ég hef sérstaklega látið kanna að flestar stöðvar hafa möguleika til þess að taka á móti karfa. Það eru karfavélar t. d. á Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri, svo að ég láti þess getið vegna þeirrar umr. sem hér hefur farið fram, og auk þess er ljóst að það munu vera til hjá Baaderþjónustunni um þrjár vélar sem menn geta nælt sér í fyrir sumarið, og auk þess eru sjálfsagt 3–4 vélar í nokkrum frystihúsum sem ekki gera út togara, þannig að þarna eiga líka að vera möguleikar til þess að ná sér í vélar af þessu tagi. Vestfjarðahúsin mörg hver hafa líka komið sér upp aðstöðu til þess að taka á móti karfa, þannig að ég get ekki séð að hér stefni í neitt sérstakt óefni. Hins vegar held ég að það sé alveg ljóst, að ef ekki yrði gripið til ráðstafana af því tagi, sem ég hef boðið, gæti stefnt í óefni til lengri tíma lítið.

Það er auðvitað rétt, að gjarnan hefði ákvörðun um þetta átt að liggja fyrir fyrr. En úr því sem komið er held ég að það hafi verið nauðsynlegt að taka þessa ákvörðun nú. Það hafa átt sér stað margvíslegar viðræður, bæði við fulltrúa þingflokkanna og eins við hagsmunaaðila, og ég efast um að nokkurn tíma hafi verið jafnmikið um málin fjallað áður en til ákvörðunar kom. Hitt er svo ljóst að ákvarðanir af þessu tagi snerta menn eins og ég gat um í upphafi. Það kemur gjarnan upp hrepparígur, ef ég má orða það svo, og hér eru ýmsir hagsmunir sem rekast á og þess vegna getur þetta ekki verið með öllu sársaukalaust.

Fyrrv. sjútvrh. gat þess meira að segja í sinni ræðu, að þegar hann hefði verið að gefa út sínar reglugerðir hefði kveðið við ramakvein úr öllum áttum og mér sýnist það bara sanna það, að í hvert skipti sem grípa á til takmarkana ætli menn að tryllast, eins og hann orðaði það, þannig að undan slíku verði ekki vikist. En ég legg áherslu á það, að til þess að ná raunverulegum árangri var nauðsynlegt að grípa til ráðstafana nú þegar og þær hlutu að ná mjög verulega til togaranna vegna þess að þeir höfðu og hafa besta möguleikana til þess að sækja í þá stofna, sem vannýttir eru, og ráðstafanirnar hlutu líka að beinast að sumrinu, vegna þess að þá eru bestir möguleikar til þessara veiða og þá hafa aflatopparnir verið mestir, þannig að eigi um raunverulega takmörkun að vera að ræða, þá hlýtur hún að gerast á þessum tíma.

Það hafa verið ræddar ýmsar aðrar hugmyndir í sambandi við þorskveiði- og fiskveiðistjórn, eins og t. d. möguleikinn á því að koma á aflamiðlun af einu eða öðru tagi, hvernig megi tryggja að það verði ekki offramboð á fiski sem leiði til atvinnumisvægis og lélegrar hráefnisnýtingar. Þetta mundi vera mögulegt að hindra með aflamiðlun eða jafnvel með tímabundinni veiðistöðvun, og það mál er sjálfsagt að athuga. En í því sambandi verður þá líka að athuga að tryggja greiðslu fyrir afla og eftir því sem best verður séð að setja löggjöf í þessu sambandi. Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að það verði undirbúið í sjútvrn., en hitt er ljóst, að aðgerðir af þessu tagi eru að ýmsu leyti mjög erfiðar og þess vegna ekki hægt að grípa til þeirra fyrirvaralaust.

Ég tel líka að það beri að kanna leiðir til þess að Aflatryggingasjóður gegni hlutverki sínu sem best við að jafna aflasveiflur og tryggja afkomu sjómanna og útgerðar við ríkjandi aðstæður, sem einkennast af breyttri fiskgengd og nauðsynlegum sóknartakmörkunum í mikilvæga fiskstofna. Og ég held að þeir þm., sem óttast kvótakerfi, ættu að íhuga vel það hlutverk Aflatryggingasjóðs sem í þessu felst og hvort leiðin sé ekki einmitt sú að kanna leiðir til þess að bæta upp verð á vannýttum fisktegundum og leggja gjald á afla af ofnýttum fiskstofnun. Ég minni á það í þessu sambandi, að það er auðvitað stórt atriði fyrir okkur ekki einungis að takmarka veiðarnar á ofnýttum stofnum, heldur líka að nýta þá fiskstofna sem sannanlega eru vannýttir og það fer að aukast þrýstingur frá öðrum þjóðum um það að fá að sækja í þá stofna sem vannýttir teljast, ef við erum ekki menn til þess að sækja í þá sjálfir.

Ég ætla ekki að lengja þessa umr. öllu frekar. Ég tel að undirbúningur þessa máls hafi verið eins ítarlegur og kostur var. Ég tel að forsendurnar fyrir því að taka ákvörðun af því tagi, sem hér hefur verið tekin, hafi verið nægilega rökstuddar. Ég dreg enga dul á að þær aðgerðir, sem grípa þarf til til lengri tíma, þurfi að miðast í ríkari mæli en unnt er á þessari stundu við það að auka arðsemi veiðanna. En jafnframt verður unnið að því á vegum rn. að hafa sem best eftirlit með því að gæði þess afla, sem á land berst, séu sem best. Möguleikarnir í þeim efnum eru vissulega takmarkaðir, en það verður reynt að nýta þá eftir fremsta megni.