27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3651 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

132. mál, varanleg vegagerð

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að ég verði jafnhátíðlegur og hv. síðasti ræðumaður, enda er gott að skipta nokkuð um tón í þessum umr. Hitt verð ég að segja, að það ber ekki allt upp á sama dag, og þegar ég sá till. þessa á þskj. 156 frá þm. Sjálfstfl. og hafði reyndar lesið stefnuskrá þeirra sem var kynnt af einum frambjóðanda á Vesturlandi á s. l. sumri, þá fannst mér að fyrr hefðu þeir mátt vera á ferðinni. Ég sat í ríkisstj. með þeim s. l. 4 ár og hef ekki lagt það í vana minn að kvarta hér undan samstarfi í þeirri ríkisstj. En ég fór þar með samgöngumál og varð ekki var við þann stórhug sem er í þessari þáltill., nema síður væri, því að það var svo að á hverju ári var um það slegist innan ríkisstj., ef ég mætti nota það orð, eða a. m. k. um það deilt innan ríkisstj., hvað hátt mætti fara með fjárveitingar til vegagerðar. Mitt hlutverk og minn áhugi voru fólgin í því að fá sem mest fjármagn til vegagerðar, af því að ég hef þá skoðun að það sé þjóðinni afskaplega hagkvæmt að fá betri vegi en við höfum hér á landi, enda þótt segja megi, miðað við fjölmenni þjóðarinnar og dreifbýli, að verulega hafi áunnist í þessum málum þó langt sé frá því að nógu vel sé gert. Sem síðasta sönnunardæmi um það, hvað sjálfstæðismenn reyndust mér erfiðir í sambandi við vegamálin, að láta fé af hendi rakna til þeirra, vil ég benda á fjárlagafrv. fyrir árið 1978 og fjárl., því að það fór svo eftir miklar þrengingar og mikil átök að þar var ég endanlega píndur til þess að gefa eftir 300 millj. kr. eða lækka fjárl. frá till. fjárlagafrv. um 300 millj. kr. Þessu tókst að vísu að ná upp aftur á s. l. sumri, en það var ekki fyrir séð þegar þessi till. var pínd í gegn í ríkisstj. mér til mikilla leiðinda. Og ég verð að segja það eins og er, að mínar leiðinlegustu endurminningar um samskipti við þá í ríkisstj. er einmitt bundið við það, hve erfitt var að ná fjármagni til vegamála. Þess vegna finnst mér að þeir hafi tekið allhraustlegan kipp fram á við með þeirri þáltill sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í: Þeir hafa skipt um skoðun, mennirnir.) Já, þeir hafa sjáanlega gert það og það til betri vegar og er ekki nema gott um það að segja. Að vísu vil ég segja það, að þegar ég lít á tekjuáætlunina finnast mér skoðanaskiptin nokkuð hröð.

Í fyrsta lagi var ekki auðgert að sækja fé í vegagerð í Byggðasjóð. (Gripið fram í.) Þá var hann undir stjórn m. a. þess sem er 1. flm. þessarar till., og þá hafði hann ekki þá skoðun að vilja láta fjárveitingar ganga úr þessum sjóði til vegagerðar, þó að það væri rétt hjá honum sem hann sagði áðan, að vegagerð er ekki síður byggðamál en önnur mál. Hitt hef ég ekkert út á að setja, þó að einstakir hv. þm. og menn persónulega skipti um skoðun þegar reynslan hefur sannfært þá um að þeir hafi ekki haft hana rétta, og ég lít svo á að þetta sé framför hjá hinum ágæta hv. 5. þm. Austurl., sem er um marga hluti vel gerður.

Ég verð líka að segja það, að mér þykir nokkuð hraustlega að verið að þegar þm. Sjálfstfl. hefur lokað eftir sér dyrum fjmrn., þá finnist honum hægt að taka 2000 millj. af tekjum af umferðinni til vegagerðar. Nú bar það hvort tveggja til, að í síðustu ríkisstj. og einnig þegar svokölluð viðreisnarstjórn sat að völdum, þá var það venjulega svo, að við Framsfl.-menn, þrátt fyrir stjórnarandstöðu, stóðum með samgrh. í að afla tekna í Vegasjóð. Þá vildum við gjarnan bæta þar um betur og fá meira fé úr ríkissjóði en þar var ráð fyrir gert. Og ég man það frá síðasta ári þessa meðráðh., að þegar samið var þá um hækkun á bensíngjaldinu var samið um það að lokum að aukning á söluskatti, sem leiddi af hækkun bensíngjaldsins, gengi í vegina líka, og það tókst einnig á síðasta ári að fá það. En lengra var ekki farið. Það var ekki verið að tala um að rétta fram úr erminni 2000 millj. eins og hér á að gera.

Út af fyrir sig er svo um aðra liði að segja, eins og happdrættislánið sem við höfum verið með og er verið að afgreiða núna, að það, sem reyndist verst við það, var að sala á happdrættisbréfunum gekk ekki á s. l. ári og var þá horfið að því ráði að nota hin venjulega ríkistryggðu bréf í þessa tekjuöflun.

Þetta vil ég minna á í sambandi við þetta mál. Rétt er að hafa slíkt í huga. Og ég tek undir það með hv. 5. þm. Austurl., sem er vafalaust vanur að beita úr Djúpinu, að það verður að beita laglega á önglana til þess að það verði bitið á í sambandi við söluna á þessum happdrættisbréfum, því að það var sjáanlegt, að við vorum farnir að nota þar bera önglana, við fyrrv. fjmrh. Matthías Á. Mathiesen, hv. 1. þm. Reykn., því að það bitu ekki nógu margir á. Þar þarf betur að að standa.

Nú vil ég segja það í sambandi við vegamál á síðustu árum, að þar hefur valdið geysilega miklum erfiðleikum olíuverðshækkunin og hækkunin á bensíninu. Fram yfir 1970 var bensínskatturinn, sem fór í Vegasjóðinn, um 50% af verði á bensínlítra. Hv. 5. þm. Austurl., ég var að segja að þú værir vanari að beita heldur en fyrrv. fjmrh. og ég. Þú ætlaðir að beita önglana í happdrættislánunum svo að menn bitu á og keyptu bréfin. En þannig var það á s. l. ári að það tókst ekki. Ég gladdist líka yfir þessu viðhorfi hjá hv. 1. flm. þessarar till., að Byggðasjóður væri þess verðugur að nota hann til vegagerðar, en það ekki viðhorfið á síðasta kjörtímabili svo að þetta eru nú gleðilegar framfarir.

Ég var kominn að því að geta um það, hvernig breytingin varð á notagildi bensínskattsins til vegagerðarinnar. Hún var með þeim hætti, að fram yfir 1970 var helmingurinn af verðinu á bensínlítranum skattur. Hins vegar eftir olíuhækkunina 1973 fór þetta síminnkandi og var komin niður í 25%, og það var ekki fyrr en á síðasta ári sem tókst að lagfæra þetta nokkuð aftur og því miður er útlitið í þeim efnum ekki nógu gott. En þó var það ákvæði komið inn í lögin, að ekki þyrfti lagabreytingar við, heldur væri það byggingarvísitalan sem réði, og það gerði sitt.

Nú vil ég segja það um þetta mál að öðru leyti, að þó að erfiðleikar um fjárútveganir og þrengingar væru miklar á síðasta kjörtímabili, þá skilaði mörgu þar vel áfram. Og eitt af því, sem var gert á þessu kjörtímabili, var að vegalögunum var breytt. Þar var að því stefnt að hafa tvo flokka, stofnbrautir og þjóðbrautir, og þá var hugsunin að stofnbrautirnar væru aðalvegirnir, hvort sem menn kalla það hringvegi eða annað, sem sagt á milli héraða, en aftur þjóðbrautirnar inni í héruðunum. Reynslan af þessu varð ekki nógu góð og skal ég koma betur að því, en tveir flokkar vegamála aðrir voru teknir mjög til bóta á síðasta kjörtímabili. Annars vegar voru þéttbýlisvegirnir með ákvörðuninni um að 25% af því fé, sem til þéttbýlisvega skyldi ganga, skyldi sérstaklega skipt af fjvn., en það hefur gert það að verkum að mörg kauptún og kaupstaðir úti um landsbyggðina hafa gerbreytt sínum götum. Þetta hefur verið mjög ánægjuleg þróun og hún heldur áfram, því að þetta fé verður veruleg fjárhæð núna á árinu 1979. Ef ég fer þar rétt með munu það vera um 600–700 millj. kr., eitthvað svoleiðis, a. m. k. nálægt því. Og það er af því að þetta er hlutfall af þeim mörkuðu tekjustofnum sem til vegagerðar eru ætlaðir. Sama er að segja um fjárveitingu til sýsluvega. Þeim ákvæðum var breytt svo að það er alger gerbylting í framkvæmdum í sýsluvegum, eins og þeir þekkja sem nálægt því hafa komið. Þetta tókst á síðasta kjörtímabili og þetta heldur áfram.

Ég vil einnig segja að það var haldið áfram með stærri verkefni sem verið er að vinna að, eins og Austurveginn, sem nú er kominn austur fyrir Þjórsá og á ekki mjög langt í að komast austur á Hellu og síðan Hvolsvöll. Og þannig geri ég ráð fyrir að sá vegur haldi áfram að teygjast austur, miðað við það að á honum verði olíuborið slitlag, sem er auðvitað geysilegur munur frá því sem áður var. Einnig er það svo með Vesturlandsveginn, — að vísu hefur ekki tekist nógu vel til með kaflann hjá Kiðafelli, en það eru mistök sem ekki tilheyra því að að málinu hafi ekki verið unnið og verður úr að bæta af þeim sem fyrir mistökunum standa — en það er allveruleg breyting þar á. Og einnig hefur á þessu tímabili verið farið inn á þá braut að taka fyrir veruleg verkefni víðs vegar um landið, eins og t. d. á Holtavörðuheiði þar sem hefur verið unnið geysilega mikið verk og það eru ómældir milljónatugir sem sparast þar árlega við snjóruðning og snjómokstur. Og raunverulega segja þeir mér, sem fara þar um, að þegar þeir nái þeim kafla, þá séu erfiðleikarnir búnir á heiðinni. Hitt er ljóst, að hér er um áfanga að ræða í þessari vegagerð sem verður að halda áfram við.

Það er búið að undirbyggja verulega mikið af vegum í Húnavatnssýslum, og við Blönduós hefur verið gerður tilraunakafli með slitlagi og eins undir Hafnarfjalli og þeir kaflar hafa til þessa reynst mjög vel. Það er eftir að sjá hvernig þeir reynast í vor, þegar frost fer úr jörðu. En t. d. tilraunakaflinn undir Hafnarfjalli — ég fór þar nú fyrir tveim dögum — er mjög góður, það er ekkert verra að keyra hann heldur en steypta veginn í Kollafirði. Það er góður vegur og það er erfitt að halda bílnum undir 100 án þess að gæta að því á hvaða hraða hann er. Vonandi takast þessir tilraunaþættir og þarf að gera meira að slíku en gert hefur verið, og það er hugmynd þeirra vegagerðarmanna að vinna að því.

Ég vil svo í framhaldi af þessu minna á stórverkefni eins og Borgarfjarðarbrúna, sem hefur stundum verið umtöluð. En það kom fram í ræðu sem ég flutti hér 21. apríl s. l., að þessi breyting, sem hefði verið gerð á vegalögunum, næði ekki fullkomlega þeim tilgangi sem við hefðum hugsað okkúr, m. a. vegna þess að nauðsyn bæri til að taka sérstaklega hin stærri verkefni. Í þeirri ræðu benti ég á að rétt væri að gera áætlanir um slík verkefni til tveggja eða þriggja vegáætlunartímabila, og það fé, sem væri notað í þessu skyni til stórverkefna, var mín hugmynd að yrði að vera lánsfé.

Það voru nokkrar umr. í fyrravetur á milli Kanadamanna og samgrn. um lán til vegagerðar hér á landi. Það strandaði á því að lengra væri haldið að bæði var það, að ég hafði ekki hugsað mér að sitja í ráðherrastól nema fram að kosningum og vildi því ekki vera að binda of mikið þann sem á eftir kæmi, og svo hitt, að hugmyndir Kanadamanna voru bundnar við það að þeir yrðu að koma vinnuafli að ef þeir lánuðu fé. Það sögðum við þeim að þýddi ekkert að ræða við okkur um og á því strandaði þetta þá. Ég tel hins vegar að í sambandi við stórverkefni í vegagerð eigi að athuga betur hvort ekki sé hugsanlegt að ná lánsfé til nokkuð langs tíma og á þokkalega hagkvæmum kjörum án þess að þessi böggull fylgi skammrifi. Ég er ekkert frá því, að ef hefði verið hægt að leggja í þetta nógu mikla vinnu og hefði verið undir öðrum kringumstæðum, þá hefði verið hægt að ná þarna árangri.

Í ræðu minni í fyrra 21. apríl hér á hv. Alþ. skýrði ég frá því, að ég hefði falið samgrn. og Vegagerðinni að undirbúa slíka áætlun, og ég hugsa að það sé ekki langt frá því að slík áætlunargerð sé til hjá Vegagerðinni einmitt í framhaldi af þessu, því að þeir voru áður en ég flutti þessa ræðu farnir að vinna að þessum málum og hafa haldið því áfram með hæfilegum hraða síðan.

Ég tel að við hv. alþm. getum auðveldlega sameinast um þetta mál, því að við stefnum allir að sama marki, eða a. m. k. flestir, að því að ná góðum árangri í vegagerð hér á landi. Ég er hv. 1. flm. sammála um það — og það hefur kannske komið fram hjá öðrum sem hér hafa talað — að það er þjóðhagslega hagkvæmt að gera verulegt átak í samgöngumálum okkar. T. d. er talið að það muni á árinu 1980 spara okkur um 450 millj. kr. ef við getum lokið við brúargerðina yfir Borgarfjörð á þessu ári, það sé lágmarkstala sparnaðar sem við ávinnum við það. Þannig held ég að sé alveg öruggt að við vinnum verulega á með stórátökum í vegagerð. Það mun vera hér till. frá okkur framsóknarmönnum um vegamálin, og ég held að við munum geta sameinast um að stilla vegamálunum upp nokkuð í þeirri veru sem ég nefndi hér í fyrra, að setja upp sérstakan kafla um stærri verkefni og nota þá hina mörkuðu tekjustofna, sem við höfum yfir að ráða nú, til þess að leysa málin innanhéraðs og aðra þætti, eins og viðhald og slík verkefni. Þetta held ég að sé það sem koma skal í þessum efnum. Við verðum að sjálfsögðu að gefa okkur einhvern tíma til að undirbúa þetta, en þó tel ég að það sé búið að vinna það mikið til undirbúnings þessu máli, að það sé miklu frekar spurningin um fjármagnið heldur en undirbúning að öðru leyti. Ég held að það sé jafnt í hugum okkar allra, að við gerum okkur ljóst, að þó að sé búið að tengja hringveginn svokallaða með brúnni á Skeiðarársandi, þó að unnið sé nú að vegi fyrir Lónsheiðina eða Hvalnesskriður, og þó að sé búið að leggja göngin í gegnum Oddsskarð og annað því um líkt, þá dettur engum í hug að við séum komnir að nokkrum endalokum í þessum málum. Það verður framhald á því ekki síður en verið hefur, og tækni og þekking okkar, því að við eigum orðið mikið af mjög hæfum mönnum til að vinna þessi verk, hjálpa okkur til að leysa þau verkefni. Þess vegna get ég að lokum tekið undir það, að ég hef þann eina áhuga í sambandi við vegamálin að fá sem flesta í lið við það að koma þessum málum betur fyrir en okkur hefur tekist, og þá gleymist allt um það að við höfum ekki getað farið eins hratt og við höfum haft löngun til. Það er liðin tíð, heldur er það sem máli skiptir hverju okkur tekst að koma áfram.