27.03.1979
Sameinað þing: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3661 í B-deild Alþingistíðinda. (2844)

222. mál, heilbrigðis- og félagsleg þjónusta fyrir aldraða

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér liggur fyrir, felur í sér að ríkisstj. láti fara fram könnun á heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða með tilliti til bæði félagslegra og heilsufarslegra sjónarmiða. Sérstaklega skal athugað að koma á samræmdu skipulagi þessara mála, sem byggðist á samstjórn og samræmingu allra þátta heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu við aldraða, sem gæti auðveldað yfirsýn yfir brýnustu þörf á sjúkrahúsvist, langlegudvöl, heimahjúkrun, heimilisþjónustu og dvalarheimilum fyrir aldraða, auk þess sem það gæti tryggt hagkvæmni á ýmsum sviðum. Á grundvelli slíkra kannana skipi heilbr.- og trmrn. nefnd til að gera till. um umbætur og samræmingu á heilbrigðis- og félagslegri þjónustu aldraðra, og skulu þær till. liggja fyrir eigi síðar en í árslok 1979.

Sú staðreynd, að við höfum hlutfallslega yfir mun meira vistrými að ráða fyrir aldraða en nágrannaþjóðir okkar, en engu að síður eru langir biðlistar á ýmsar þær þjónustu- og hjúkrunarstofnanir, sem við höfum yfir að ráða fyrir aldraða, hlýtur að krefjast að mál þessi séu krufin til mergjar og könnun látin fara fram á heilbrigðisog félagslegri þjónustu við aldraða til þess að tryggja betur aðbúnað aldraðra hér á landi og bætt skipulag.

Í ársbyrjun 1978 höfðum við yfir að ráða tæplega 1700 vistrýmum fyrir aldraða, þar af rúmlega 700 rými fyrir hjúkrunarsjúklinga. Einnig má nefna að í könnun, sem gerð var meðal heimilislækna, kom í ljós að 450–470 aldraðir sjúkir eru á einkaheimilum í Reykjavík og þar af þyrftu um 200 þeirra á sjúkrahúsvist að halda.

Samanburðartölur frá árinu 1976 sýna ljóslega, að við höfum yfir mun meira vistrými að ráða fyrir aldraða en nágrannaþjóðir okkar. Þær sýna að vistrýmafjöldi á elliheimilum og íbúðir fyrir aldraða á 1000 íbúa 65 ára og eldri eru mun fleiri á Íslandi en hjá nágrannaþjóðum okkar — eða 84.2 á Íslandi, í Danmörku 66.8, Finnlandi 61.1, Svíþjóð 46.9, Noregi 26.9 og Bretlandi 18.5.

Þó að vistrými t. d. í Bretlandi fyrir aldraða séu hlutfallslega mun færri en á Íslandi, hefur öldrunarlækningum og þjónustu við aldraða sjúka í Bretlandi fleygt fram undanfarin ár. Bretar hafa lagt áherslu á öldrunarlækningardeildir, sem staðsettar eru við öll aðalþjónustusjúkrahús landsins, sem gefur greiðan aðgang að rannsóknar- og endurhæfingarþjónustu. Einnig hefur verið byggð þar upp fjölþætt þjónusta fyrir aldraða sjúka í heimahúsum sem minnkar þörfina fyrir vistrými.

Staðreynd er að þrátt fyrir þau tiltölulega mörgu vistrými, sem við höfum yfir að ráða, verður að telja heilbrigðisþjónustu okkar fyrir aldraða sjúka mjög ábótavant á ýmsum sviðum. Nágrannaþjóðir okkar hafa lagt mun meira upp úr margvíslegri annarri þjónustu við aldraða en þeirri að mestu einhæfu lausn sem við búum við, sem er sífelld fjölgun elliheimilisrýma, sem þó ber ekki að vanmeta, því að auðvitað eiga þau rétt á sér og þjóna sínum tilgangi ef skipulag er gott. Nágrannaþjóðir okkar hafa lagt áherslu á ýmsa aðra þætti heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu og bjóða öldruðum ýmsa aðra valkosti, þar sem megináherslan er lögð á að gera þeim fært að búa sem lengst heima, og leggja þau sífellt aukna áherslu á þá þjónustu, sem gerir öldruðum það fært, eins og hvers konar heimilishjálp og heimahjúkrun.

Álagið hér á landi á elliheimilum á sér sennilega margar skýringar og er ekki ólíkleg sú skýring, að við höfum lagt of litla áherslu á ýmsa bæði betri og ódýrari þjónustu, sem gæti komið í þeirra stað, sem gæfi öldruðum kost á að dvelja lengur í heimahúsum. Önnur skýring gæti verið sú, að hinn langi vinnutími og vinnuálag hjá fjölskyldum geri það verkum að ekki gefist sá tími sem nauðsynlegur er til þess að sinna öldruðum í heimahúsum. Þá höfum við einblínt á það sem einhverja allsherjarlausn að auka elliheimilisrými, það hljóti að vera lausnin á vandanum.

En er þetta í reynd besta og hagkvæmasta lausnin — lausn sem bæði er dýr og oft í andstöðu við það sem aldraðir óska eftir sjálfir? Ég held að ef þessi mál eru skoðuð í réttu ljósi hljótum við að komast að sömu niðurstöðu og nágrannaþjóðir okkar, að forðast beri, að svo miklu leyti sem unnt er, að nota dvöl á stofnunum sem lausn á þeim fjölþætta og einstaklingsbundna vanda sem horfast þarf í augu við hvað varðar vandamál aldraðra, enda hafa ýmsar kannanir leitt í ljós að langflestir aldraðir kjósa fremur heimilishjálp og heimahjúkrun en dvöl á elliheimilum. En hvernig getum við komið á því skipulagi sem bæði tryggir hagkvæmni á ýmsum sviðum og eins að fyrir hendi sé sú þjónusta sem aldraðir helst kjósa, jafnframt því að dvöl á þeim þjónustu- og hjúkrunarheimilinu, sem við höfum yfir að ráða, nýtist sem best þeim sem helst þurfa þess með?

Ef við lítum yfir skipulag og þá þjónustuþætti við aldraða sem við höfum yfir að ráða kemur margt áhugavert í ljós sem gefur tilefni til að ætla að við getum veitt öldruðum til muna betri aðstöðu og bætta þjónustu, sem gæfi þeim kost á meira valfrelsi en þeir nú búa við. Þó ekki beri að vanmeta það sem gert hefur verið til að bæta aðbúnað aldraðra og vissulega hafi margt áunnist er enn langt í land að aldraðir búi við þá heilsugæslu og ýmsa félagslega þjónustu sem þeim er nauðsynleg. Vandamál aldraðra sjúkra eru líka oft og tíðum viðkvæm og vandmeðfarin. Þættir heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu við aldraða geta verið margvíslegir og oft mjög samofnir. Má þar nefna öldrunarþjónustu í formi skammtímainnlagnar á öldrunardeild sem í felst endurhæfing hvers konar svo og nauðsynleg lyfjameðferð, göngudeildarstarfsemi, dagspítala þar sem sjúklingar koma nokkra tíma á dag tvisvar til þrisvar í viku og fá læknisfræðilegt eftirlit og endurhæfingu, lengri sjúkrahúsvist, heimahjúkrun, heimilisþjónustu, svo og langlegudvöl auk margs konar tengdrar félagslegrar þjónustu við heilsugæslu og aðbúnað aldraðra. Slíkt samofið heilbrigðiskerfi fyrir aldraða hlýtur að krefjast góðs skipulags og samræmingar á ýmsum sviðum til að það nýtist sem best í hverju tilfelli fyrir þá sem í brýnastri þörf eru hverju sinni, og árangur í heilbrigðisþjónustu aldraðra hlýtur að fara eftir því að samtenging og samhæfing allra þátta þessarar þjónustu sé sem mest.

Augljóst er — og er það mat flestra sérfræðinga sem um þessi mál fjalla — að til þess að hér verði ráðin bót á er nauðsynlegt að koma á samræmdri skipulagningu allra þátta í þjónustu við aldraða sem við höfum yfir að ráða á sviði öldrunarlækninga, heimilisþjónustu og heimahjúkrunar og annarrar félagslegrar þjónustu við aldraða.

Hagkvæmni í rekstri og bætt þjónusta í þessum efnum hlýtur að byggjast á samræmdu skipulagi þessara mála, þar sem til komi samstjórn allra þessara þátta. Slíkt fyrirkomulag mundi auðvelda yfirsýn yfir, hvar þörfin væri mest hverju sinni til sjúkrahúsvistunar, öldrunardeilda, heimahjúkrunar og heimilisþjónustu, auk þarfar fyrir dvalarheimili.

Segja má að heilsugæsla og þjónusta við aldraða sjúka hafi verið mjög dreifð og lítið skipulögð til þessa í öllum þáttum heilbrigðiskerfisins fyrir aldraða. T. a. m. má nefna að 75% af því vistrými, sem til er fyrir aldraða, eru á sjálfseignarstofnunum sem vinna án samvinnu við heilbrigðiskerfið eða þær félagslegu þjónustumiðstöðvar sem við höfum yfir að ráða og eru því lítið læknisfræðilega tengdar sjúkrahúskerfinu í heild, auk þess sem heimahjúkrun og heimilisþjónusta aldraðra eru einnig verulega úr tengslum við heilbrigðiskerfið.

Vandamál öldrunarsjúklinga eru líka af margvíslegum öðrum toga spunnin en vandamál yngri sjúklingahópa, og má oft leysa þau ef til væri skipulögð heimahjúkrun eða öldrunardeildir sem tækju aldraða sjúklinga til skammtímadvalar til endurhæfingar, til að viðhalda sjálfsbjargargetu sjúklingsins. Þannig væri kleift að auka möguleika aldraðra til að dveljast sem lengst í heimahúsum með því að færa eins mikinn hluta þjónustunnar inn á heimili sjúklinganna og kostur er.

Má því segja að lélegt skipulag öldrunarþjónustu kalli á mikla vistrýmisþörf, en vel skipulögð öldrunarþjónusta minnki hana og gefi aukna möguleika aldraðra til að dveljast sem lengst í heimahúsum.

Hér erum við komin að því veigamikla atriði, að við búum ekki við neina samræmingu eða skipulag á öldrunarþjónustu. Engin ákvæði kveða á um að heilsufarslegt eða félagslegt mat þurfi að liggja til grundvallar innlögn á elli- eða hjúkrunarheimili og þaðan af síður neitt heildaryfirlit yfir hvar þörf er brýnust fyrir slíkar innlagnir, heldur ráða þar tilviljunarkenndar aðferðir, þar sem þeir, sem starfa að ýmsum þáttum varðandi velferð aldraðra, starfa hver í sínu horni og þar eru oft lítil sem engin samráð eða samvinna á milli. Brýna nauðsyn ber því til að koma á samræmingu og bættu skipulagi allra þjónustuþátta við aldraða, sem byggi á heildarskipulagningu gegnum ákveðna þjónustumiðstöð eða öldrunarþjónustu, sem hefði heildaryfirsýn yfir alla þætti þjónustu við aldraða og gæti því skipulagt í hverju einstöku tilfelli hvar brýnust væri þörfin hverju sinni fyrir innlagnir á sjúkrahús eða elliheimili og hvar fullkomin heimahjúkrun og heimilisþjónusta gæti komið í stað dvalar á stofnunum. Með slíku fyrirkomulagi væri tryggt að aldraðir hefðu aðstöðu til að dvelja sem lengst í heimahúsum og heilsufarslegt og félagslegt mat væri lagt til grundvallar innlögn á elli- og hjúkrunarheimili.

Markmiðið hlýtur að vera að aldraðir geti sem lengst dvalist í heimahúsum og sínu eigin umhverfi. Slíkt er í framtíðinni hægt að tryggja með bættu skipulagi á hinum margvíslegu samofnu hlekkjum heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu við aldraða og aukinni áherslu á þá þætti sem nú eru að koma til sögunnar í þjónustu við aldraða í formi skammtímainnlagnar á öldrunardeildir, sem í felst endurhæfing og nauðsynleg lyfjameðferð, göngudeildarstarfsemi, dagspítalar, endurhæfingarmeðferð og aukið og bætt skipulag heimahjúkrunar og heimilisþjónustu. Allir þessir þættir tryggja það markmið, sem við hljótum að stefna að í framtíðinni, sem byggir á fyrirbyggjandi aðgerðum og tryggir því um leið minni vistrýmisþörf, hagkvæmni á ýmsum sviðum og það sem mest er um vert — aukið valfrelsi aldraðra og aukna möguleika á að dveljast sem lengst í heimahúsum.

Herra forseti. Þó stutt sé í að þessu þingi ljúki er það von mín, að þm. sjái hvað hér er um brýnt mál að ræða til að bæta aðbúnað aldraðra sem og að tryggja hagkvæmni og bætt skipulag og því verði afgreiðslu þessa máls hraðað þannig að það verði afgreitt nú á þessu þingi.

Ég vil svo óska eftir að að lokinni þessari umr: verði málinu vísað til allshn.