01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. um Seðlabanka Íslands, — frv. sem felur það í sér að löggjafinn geri Seðlabankanum að ákvarða vexti við verðbólgustig og að Seðlabankanum verði gert að gera þetta í áföngum. Flm. þessa frv. ásamt mér eru sex aðrir þm. Alþfl. hér í Nd., eða allir almennir þm. Alþfl. í deildinni.

Það getur varla talist óvarlegt að álykta, að kosningaúrslit í kosningum til Alþingis á s.l. sumri standi í nokkru hlutfalli við óðaverðbólgu og getuleysi og lánleysi stjórnvalda að því er tekur til viðnáms gegn þessum vágesti. Lætur nærri að frá upphafi þessa áratugs hafi geisað hér á landi mögnuð verðbólga, og var hún enn hrikalegri í tíð síðustu ríkisstj., án þess að ríkisstj. fengi rönd við reist. Þetta eru svo sem staðreyndir sem öllum eru kunnar.

Það þarf varla heldur að fara mörgum orðum um verðbólgu og afleiðingar hennar. Nokkrar þessara afleiðinga eru: stjórnarfarsleg og efnahagsleg upplausn, stjórnlaus tilflutningur fjármagns, virðingarleysi fyrir verðmætum og þar af leiðandi pólitísk spilling og óeðlilegar fjárfestingar af alls konar tagi þar sem arðsemissjónarmiða gætir lítið eða alls ekki. Það hefur verið sagt, að við liggi að þjóðin sé geðklofin í afstöðu til verðbólgunnar. Nánast allir eru á móti henni í orði, samt hafa nærfellt allir þegnar samfélagsins — af yngri kynslóðum a.m.k. — haft af henni hag um eitthvert skeið, t.d. meðan þeir stóðu í húsbyggingum.

Það er þéttriðið hagsmunanet sem stendur vörð um verðbólguna. Þessu neti tilheyra fyrst og fremst þeir, sem á undanförnum árum hafa átt óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé og hafa þess vegna getað fjárfest ótæpilega. Það er þess háttar fjármunatilfærsla sem í einu orði má nefna verðbólgugróða.

Hinn pólitíski vandi er enn fremur sá, að þessir aðstöðubraskarar hafa enn fremur getað í almannavitund tengt hagsmuni sína hagsmunum annarra og raunar öllu geðþekkari hagsmunahópa, en það eru þá fyrst og fremst húsbyggjendur. Meðan húsbyggjendur telja sig byggja yfir sig með verðbólgu segir sig sjálft að sú pólitíska ákvörðun, sem í því felst að kveða verðbólguna niður, verður miklu erfiðari.

Eitt megineinkenni verðbólgu og verðbólgugróða á Íslandi undanfarin ár hefur verið sú staðreynd, að við höfum búið við neikvæða raunvexti. Samkv. upplýsingum Seðlabanka Íslands voru meðalraunvextir nýrra bankaútlána neikvæðastir árið 1974 eða neikvæðir um 25.7%. Á árinu 1977 voru meðalraunvextir nýrra bankaútlána neikvæðir um 12.3%. Má leiða gild rök að því, að hið neikvæða vaxtakerfi sé einhver ósanngjarnasta og óréttlátasta skekkjan sem af verðbólgunni leiðir.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hvernig samspil vaxta og verðbólgu hefur leikið sparifjáreigendur. Láta mun nærri að um síðustu áramót hafi sparifjáreigendur átt í bönkum, í sparisjóðum og í innlánsdeildum um 100 milljarða kr. Láta mun enn fremur nærri, að verðrýrnun þessa fjármagns árið 1977 hafi numið fast að 20 milljörðum kr. Þarf vart að fara um það mörgum orðum, hvað þetta hlýtur að þýða. Viljinn til þess að spara þverr og fjölmargir þeir sem síst skyldi, þ. á m. aldraðir borgarar í stórum stíl, horfa á verðmæti sín brenna án þess að fá rönd við reist. Fjármagn, sem þetta fólk hefur lagt til hliðar, kannske til þess að hjálpa og aðstoða næstu kynslóð á eftir, brennur. Peningar, sem lagðir hafa verið til hliðar til síðari ára, eru ekki fyrir hendi þegar á þeim þarf að halda. Óréttlætið, sem í þessu felst, þekkja auðvitað allir.

Það er ekki langt síðan það þótti forsenda uppeldis og fjármálalegs siðferðis, að græddur væri geymdur eyrir. Þessi boðskapur átti að hvetja ekki síst ungdóminn í landinu til sparnaðar og ráðdeildarsemi. Fjármagnið, sem geymt var, átti síðan að nota til atvinnuuppbyggingar og öllu samfélaginu til góðs á meðan sá, sem fjármagnið geymdi, átti að fá ávöxtun síns punds. Sú peningastofnun, sem reynir að laða til sín fjármagn nú með því að græddur sé geymdur eyrir, fer með staðlausa stafi. Geymdur eyrir er ekki græddur, hann þvert á móti fuðrar upp. Þetta veit fólk mætavel og hefur lært að tifa með þessum ósköpum. Fyrir vikið hefur efnahagsleg uppbygging samfélagsins alls skekkst meira og minna.

Einfaldar tölur sýna að sparifjáreigendur eru næmir fyrir ávöxtunarkjörum. Seðlabankinn tók upp nýja vaxtastefnu á árinu 1976, 1. maí nánar tiltekið. Þótt hvergi nærri væri nóg að gert, sem raunar er kjarni málsins, sýna tölur þó, að í árslok 1976 hafði safnast 10.1 milljarður á vaxtaaukareikninga og í árslok 1977 nam innstæðan á þeim 19.3 milljörðum, eða sem svaraði 25.3% af spariinnlánum og 19.5% af heildarinnlánum. Í septemberlok s.l. námu vaxtainnlán 29.5% spariinnlána og 22% heildarinnlána. Þessar tölur sýna svo að ekki verður um villst, að fólk er næmt fyrir samspili vaxta og verðbólgu. Ef ekki er með vaxtastefnu gerð tilraun til þess að tryggja innlánsféð gagnvart verðbólgu, koma peningarnir einfaldlega ekki í innlánsstofnanirnar, heldur fara eitthvað annað. Þá þarf ekki að spyrja að leikslokum. Útlánastofnanir skreppa saman, eins og nú hefur raunar verið að gerast um nokkurt skeið, og þar með fjármagn til ráðstöfunar fyrir atvinnuvegi. Þetta ætti auðvitað að vera svo sjálfsagður sannleikur, að talnadæmi ætti ekki að þurfa máli þessu til sönnunar.

Efnahagslíf, sem svo er úr garði gert að það gerir fólki ókleift að ástunda heilbrigðan sparnað, fær auðvitað ekki staðist til lengdar. Það má taka um það mörg hrikaleg dæmi, hvernig sparifjáreigendur og þó einkanlega eldri borgarar hafa orðið úti. Þjóðfélagið verður að gera fólki kleift að leggja fjármuni til hliðar án þess að þeir glati verðgildi sínu. Það er önnur grundvallarröksemd þessa máls. Hún er ekki einungis efnahagslegs eðlis, heldur einnig og ekki síður siðferðilegs eðlis.

Þetta tekur til innlána, en innlán eru auðvitað forsenda þess, að hægt sé að lána fjármagnið áfram. Hin hlið þessa máls er sú einfalda staðreynd, að þeir, sem á undanförnum árum hafa haft aðgang að lánsfjármagni, hafa ekki greitt það aftur nema að hluta. Þetta hefur valdið gegndarlausri eftirspurn eftir lánsfjármagni og miklu meiri en lánakerfið hefur getað annað. Það leiðir aftur til þess, að við búum við lánsfjárskömmtun og það mikla lánsfjárskömmtun. Þegar því er svo bætt við, að yfir stórum hluta útlánakerfisins drottna útlánastjórar, hvort sem stofnunin heitir Framkvæmdastofnun eða Landsbanki, þá verður hvort tveggja skiljanlegt: hin mikla ásókn stjórnmálamanna í að komast í stöður skömmtunarstjóra fjármagns og hin gegndarlausu pólitísku slagsmál sem eiga sér stað um lánsféð. Þegar það er leikregla í lánakerfinu að menn borga ekki til baka nema hluta af því fjármagni, sem þeir fá að láni, þá segir sig sjálft að ekki þarf að gera þær kröfur til fjárfestinga að þær skili arði. Það er varla til svo vitlaus fjárfesting að hún borgi sig ekki.

Ásóknin í lánsfjármagnið verður og hefur orðið gersamlega óháð því, í hvað fjármagnið á að fara. Skömmtunarstjórarnir, sem fjármagnið skammta, segjast auðvitað reyna að hafa hemil á því og fjármagnið sé vel og skynsamlega notað. En reynslan kennir okkur og reynsla allra landa kennir okkur að slíkt eftirlit dugar ákaflega skammt. Menn eru auðvitað misjafnlega útsjónarsamir við að komast yfir hina eftirsóttu fyrirgreiðslu. Staðreyndin er samt, að sennilega er enginn efnahagslegur þáttur samfélagsins, sem ræður eins miklu um efnahagslega afkomu einstaklinga, hópa, fyrirtækja og byggðarlaga og aðgangurinn að hinu skammtaða lánsfé. Af sjálfu leiðir að pólitísk völd skömmtunarstjóranna eru mikil, freistingarnar eru miklar og hættan á spillingu hvers konar og sannanleg spilling verður mikil.

Þessu viljum við, sem stöndum að flutningi þessa frv., breyta. Við viljum breyta því með því að binda í lögum að Seðlabanka Íslands sé óheimilt að ákvarða vaxtakjör, — ég endurtek: vaxtakjör lægri en nemur verðbólgustigi á hverjum tíma. Á það ber að leggja áherslu, að fjallað er um vaxtakjör. Þó svo almenna reglan verði sú, nái frv. þetta fram að ganga, að fjártryggingin fari fram með vaxtabreytingum, þá gæti í sumum tilfellum verið heppilegra að fara leið verðbindingar og/eða gengistryggingar. Á þetta t.d. við um húsnæðislán, þar sem félmrh. hefur raunar þegar boðað breytta stefnu sem felst í samblandi af lengingu lána og verðbindingu.

Það, sem hér er verið að leggja til, er einfaldlega að eyða helstu forsendum verðbólgugróðans. Í fljótu bragði virðist manni skynsamlegt að álykta sem svo, að slík kenning táknaði aðeins, að verið væri að fara fram á efnahagslegt velsæmi, og að furðulegt megi heita, hvernig menn geti haft á móti slíku efnahagslegu velsæmi. En málið er kannske ívið flóknara. Hér takast á hagsmunir. Annars vegar eru þeir sem tapað hafa á því, að sparifé þeirra hefur brunnið á verðbólgubálinu, gamalt fólk og aðrir sem ekki hafa af fullum krafti getað tekið þátt í verðbólgukapphlaupinu. Hins vega eru þeir sem notið hafa hinna sérstæðu lánskjara, sumpart vegna greiðs aðgangs að lánastofnunum og sumpart vegna sjálfvirkra reglna, svo sem að því er tekur til afurðalána. En hætt er við að hinn þriðji flokkur manna telji sig eiga hagsmuna að gæta, þó að ekki eigi hann beina fjárhagslega hagsmuni að verja. Það er mér liggur við að segja: kynslóð stjórnmálamanna, sem á pólitískt líf sitt undir því að taka þátt í skömmtun fjármagnsins. Að því má leiða gild rök, að misvitrir stjórnmálamenn, sem kannske hafa átt drjúgan þátt í því að skapa þetta kerfi, telji það hagsmuni sína að vextir séu sem neikvæðastir, skömmtunin þess vegna sem mest. Þetta er óneitanlega nokkurt áhyggjuefni og leiðir hugann að því, að þetta frv., sem hér er til umr., kunni að eiga ógreiðari leið gegnum deildir Alþingis, hvað sem líður almennri skynsemi og hvað sem líður hagsmunum heildarinnar og hagsmunum þeirra sem hafa orðið undir í verðbólgukapphlaupinu.

Frv. gerir ráð fyrir því, að kerfi jákvæðra raunvaxta verði komið á í áföngum gagngert til þess að stjórnvöld geti hagað örðum ráðstöfunum með tilliti til breyttra aðstæðna. Í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstj. segir — með leyfi forseta — að ríkisstj. „mun leitast við að koma í veg fyrir auðsöfnun í skjóli verðbólgu“ Verður því ekki annað séð en samþykkt þessa frv. væri í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj. og beinlínis framkvæmd á yfirlýstu lykilatriði í fyrirheitum hennar. Að vísu hefur farið svo fyrir nokkrum yfirlýstum stuðningsmönnum núv. ríkisstj., að þrátt fyrir þetta yfirlýsta ákvæði stjórnarsáttmálans boða þeir vaxtalækkun og þar með gróðaaukningu skuldabraskaranna. Verður ekki séð hvernig þessar hugmyndir eiga að koma heim og saman.

Helsti talsmaður vaxtalækkunar hefur verið Lúðvík Jósepsson, hv. 1. þm. Austurl. Hann hefur ekki viljað fallast á þau rök, að ósæmilegu gróðabralli verði útrýmt með kerfi raunvaxta. Magnús Kjartansson, fyrrum ráðh., er annarrar skoðunar. Hann sagði í blaðagrein nýverið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í baráttunni við verðbólguna,“ sagði Magnús, „er það grundvallaratriði, að menn átti sig á þeirri staðreynd, að hún er gróðamyndunaraðferðin á Íslandi. Ef teknir væru upp raunvextir í stað neikvæðra vaxta, hyrfi þetta megineinkenni verðbólgunnar. Hún mundi hjaðna á skömmum tíma og ofurháir vextir samkv. prósentureikningi breytast í lága vexti, því að vextir eru afleiðing verðbólgu, ekki orsök.“

Þessar skoðanir Magnúsar Kjartanssonar vil ég leyfa mér að gera að mínum.

Annar hv. þm. Alþb., Kjartan Ólafsson, þm. Vestf., hefur einnig að minni hyggju sett fram skynsamlegar hugmyndir um þetta vandamál, sem hann raunar setur fram í grg. með öðru frv. — með frv. um afnám bankaleyndar — frv. sem ég raunar styð heils hugar. En þm. segir, með leyfi hæstv. forseta, í grg. fyrir frv.:

„Það er kunnara en frá þurfi að segja, að um áratugaskeið hefur helsta fjáröflunarleiðin“ — og ég vil undirstrika þessi orð þm. — „hefur helsta fjáröflunarleiðin í íslensku þjóðfélagi verið sú að komast yfir sem allra mest lánsfé og festa það í eignum sem verðbólgan hækkar stöðugt í verði. En þótt eignirnar, sem lánsféð var notað til þess að mynda, stórhækki í verði fyrir tilverknað verðbólgunnar, þá hafa menn átt þess kost að greiða lánin til baka svo og svo löngu síðar með langtum verðminni krónum en upphaflega voru fengnar að láni.“

Ég lýk hér tilvitnun í grg. með frv., sem Kjartan Ólafsson þm. Alþb. flytur, en undir þessar skoðanir vil ég einnig taka og mér þykja þær skynsamlegar. Þetta þykja mér ekki aðeins viðfelldnar skoðanir, heldur eru þær einnig bókstaflega sannanlega réttar.

Hér hefur verið sagt, að aðgangur að lánsfjármagni ráði í raun meiru um það, hvernig fólk og fyrirtæki komast af í ólgusjó verðbólgunnar, heldur en afkoma í kjarasamningum eða góður eða slæmur rekstur fyrirtækja. En þótt margt launafólk hafi getað bætt lífskjör sín í verðbólgukapphlaupinu með því að eiga aðgang að lánsfjármagni, þá er hitt jafnvíst, að þeir launþegar, sem síst hafa aðgang að lánsfjármagni, eru einmitt þeir sem lökust hafa launin. Hátekjumaðurinn hefur eðli málsins samkv. meiri möguleika á því að fá lán til húsbygginga eða utanlandsferða en lágtekjumaðurinn. Einnig með þessum hætti eykur þetta kerfi á óréttlætið og misréttið í samfélaginu.

Því hefur verið haldið fram sem mótrökum gegn raunvaxtakenningu, að atvinnureksturinn þoll ekki raunvaxtakerfið. Þessi rök hygg ég að fái ekki staðist. Auðvitað er það svo, að fyrirtæki, sem árum saman hafa verið alin á gjafafjármagni, taka því með lítilli hrifningu að þurfa að greiða fjármagnið á kostnaðarverði, á réttu verði, og jafnvel eitthvað heldur meira. Gagnvart þeim er þetta kjaraskerðing, og auðvitað taka þau því illa. Því hefur jafnframt verið haldið fram, að hluti vaxtahækkunar, sem yrði vissulega fyrst í stað, hækki framleiðsluverð, fari út í verðlagið, auki þannig verðbólgu og geri innlendri framleiðslu illa fært að standast samkeppni við erlenda framleiðslu. Þetta eru gamalkunn rök og það er eins og manni finnist maður hafa heyrt þau áður. Auðvitað eru þessi rök rétt að hluta og jafnvel að töluverðum hluta, en nákvæmlega sömu rökum beita fyrirtækjaeigendur allra tíma gegn launþegum sem vilja meiri laun fyrir vinnu sína. Og sömu aðilar sem nú vilja lægri vexti af einskærri samúð með fyrirtækjum, hafa ekki alltaf kallað þetta haldbær rök. En þau eru samt rétt að hluta a.m.k. Þetta er gjald sem við verðum að greiða fyrir það að koma á bæði jafnvægi og réttlæti á peningamarkaði, sem aftur á eftir að leiða til skynsamlegri fjárfestingar, minnkandi eftirspurnar eftir lánsfé, minni verðbólgugróða og þess vegna verðbólguhjöðnunar. Það er þessi grundvallarhugsun, sem stefnt er að, og þetta er markmiðið sem auðvitað næst ekki fyrst í stað, en næst þegar til lengri tíma er lítið, og það er það sem skiptir meginmáli.

Magnús Kjartansson, sem hér var vísað til að framan, notaði stundum ágætt orð. Það var „pilsfaldakapítalisti“. Þá átti hann við atvinnurekstur sem kallar sig frjálsan, en er í raun með kerfisbundnum hætti búinn að koma sjálfum sér á jötu ríkisvaldsins. Allur atvinnurekstur þarf á lánsfé að halda til lengri eða skemmri tíma. Auðvitað er ekki allt þetta lánsfé notað til eignamyndunar, heldur fer mikið af því til viðhalds rekstrinum sjálfum í einni eða annarri mynd. Það breytir samt ekki hinu, að þegar atvinnureksturinn hefur verið vaninn á að fá rekstrarfjármagn, sem hann endurgreiðir ekki nema að hluta, þá er atvinnureksturinn kominn á ríkisjötu, þá fær hann þaðan fjármagn sem hann greiðir aldrei til baka nema að hluta.

Nú skal því ekki neitað, að það getur verið bæði heilbrigt, rétt og skynsamlegt að styrkja atvinnurekstur um lengri eða skemmri tíma. En ef við viljum styrkja atvinnurekstur, þá skulum við styrkja hann beint, kalla það styrki og fara með sem styrkir séu. En það kerfi, sem hér hefur verið búið til, þar sem þetta er kallað lán, en er í reynd styrkir, hefur skekkt allt efnahagslífið, gert atvinnureksturinn þannig úr garði að hann veit í raun og veru ekki hvar hann stendur, hann veit raunar ekki hversu mikill arður kemur af honum. Og útkoman blasir raunar alls staðar við. Þessir stjórnlausu styrkir leiða til þess, að allt skynsamlegt arðsemismat er eyðilagt. Það verður takmark í sjálfu sér að snapa lánsfé, og því meira bil sem verður á milli verðbólgu og vaxta, þeim mun betur hafa fyrirtækin mjólkað ríkishítina. Það segir sig auðvitað sjálft, að þetta efnahagskerfi fær ekki staðist til lengdar.

Á árunum fyrir 1960 bjuggu Íslendingar við úrelt kerfi gengisskráningar. Gengið var rangt skráð og margar gengisskráningar voru til í einu. Þetta bauð auðvitað heim hættu hvers konar misnotkunar, svartur markaður var mikill og menn voru ótrúlega fundvísir á leiðir til þess að verða sér úti um hinn ódýrasta gjaldeyri sem skráður var langt undir sannvirði. Það var vel gert hjá viðreisnarstjórninni á sínum tíma þegar hún kom gengismálum í þolanlegt horf.

Ástand í vaxtamálum er nú hliðstætt ástandi í gengismálum þá, og er þó misréttið, misnotkunarhætturnar og pólitísk spilling hvers konar miklu meiri en var þá. Og það er alveg ljóst, að það þarf að gera sams konar breytingu, mér liggur við að segja byltingu, í vaxtamálunum og gerð var í gengismálunum á sínum tíma. Hér er verið að leggja til að skapa gersamlega nýjan grundvöll undir lánastarfsemi í landinu. Það er sannfæring mín a.m.k., að nýskipan vaxtamála, sem komið yrði á í áföngum, kæmi til með að leiðrétta verulega grundvallarskekkju í efnahagslífi okkar, sem á rætur að rekja til verðbólgu og verðbólgugróða. Með leyfi forseta langar mig til að vitna í niðurlagsorð í grein eftir Sigurgeir Jónsson sem hann reit um vaxtamál í Fjármálatíðindi, ég held 2. hefti maíjúlí 1977. Í niðurlagi máls síns segir Sigurgeir:

„Það er fullljóst, að vaxtaaukafyrirkomulagið er aðeins eitt skref í þá átt að koma ávöxtum fjár í bankakerfinu í viðunandi horf. Það þarf að ganga miklu lengra og færa almenna útláns- og innlánsvexti smám saman til samræmis við verðbólguþróunina til þess að ná viðunandi jafnvægi á fjármagnsmarkaðinum, en það næst ekki til lengdar, nema báðir markaðsaðilar standi frammi fyrir umtalsverðum jákvæðum raunvöxtum við þær fjárhagslegu ákvarðanir, sem þeir taka. Óhjákvæmilega kemur breyting í þá átt niður á vaxtakostnaði þeirra fyrirtækja, sem hafa greiðastan aðgang að bönkum, og hlýtur að valda einhverjum verðhækkunum í fyrstu. En eins og öllum, sem til efnahagsmála þekkja hlýtur að vera ljóst, er hér um alvarlegt misvægi á markaði að ræða, og leiðrétting á því skiptir höfuðmáli, þar sem yfirgnæfandi líkur eru á því, að meira tjón sé samfara misvæginu heldur en af leiðréttingu þess, þegar á allt er litið, enda er fjármagnsmarkaðurinn sjálfsagt mikilvægasti markaðurinn í öllu hagkerfinu. Á honum er hagvöxturinn að verulegu leyti ákveðinn og þar með hversu ört lífskjör alls almennings geta batnað þegar yfir langt tímabil er lítið.

„Ég tel ótvírætt,“ segir Sigurgeir, „að málum varðandi starfsemi fjármagnsmarkaðarins hafi ekki enn verið gefinn nægilegur gaumur hér á landi t.d. í samanburði við þá athygli, sem beint hefur verið að gengismálum. Þess vegna m.a. hefur hagvöxturinn verið minni hér á landi en búast hefði mátt við með hliðsjón af þeirri miklu fjárfestingu undanfarin ár.“

Þessi orð vil ég nánast óbreytt gera að mínum. Það verður verðbólga á Íslandi meðan litlir, en sterkir hagsmunahópar aðstöðubraskara telja sig græða á henni. Það verður enn fremur verðbólga á Íslandi á meðan fjölmennir hagsmunahópar eins og húsbyggjendur telja sig græða á henni og beinlínis nota hana til þess að koma yfir sig húsnæði.

Það er óþarft að fjasa endalaust um skaðsemi verðbólgu frekar en þegar hefur verið gert. Það verður aldrei sársaukalaust fyrir alla aðila að eyða þessu ástandi. Með því að koma á jákvæðum raunvöxtum er verið að leggja til að útrýma því sem allir þykjast vera á móti, verðbólgugróðanum. Allra fyrst yrði þetta erfið ráðstöfun, og á það skal engin dul dregin, og mundi jafnvel verka verðbólguhvetjandi um skamma stund. En þegar horft er aðeins lengra fram í tímann og hætt að hugsa aðeins í einni vertíð, þá mundi stórlega draga úr allri óeðlilegri ásókn í lánsfé, en á sama tíma mundi tilhneigingin til sparnaðar aukast og margháttuðu óréttlæti, sem sparifjáreigendur m.a. hafa orðið fyrir, yrði þar með útrýmt. Aukið jafnvægi á peningamarkaði kæmist á. Þegar forsendum verðbólgugróða hefur þannig verið eytt, hefur helsta hvata verðbólgunnar verið útrýmt. Raunvextir, eins og hér er verið að leggja til, eru þess vegna mikilsvert tæki til að ráðast að rótum þess vanda, sem við erum sammála um að sé skaðvaldur í þessu samfélagi, þ.e.a.s. verðbólgunni sjálfri.

Herra forseti. Ég vil þá að lokum leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn.