28.03.1979
Efri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3675 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

239. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég á það erindi hingað nú, að mig langaði til að vekja athygli á einu ákvæði húsnæðismálastjórnarlaga sem þörf er á að vekja athygli á og ég held að gæti haft svolitla þýðingu einmitt varðandi það atriði sem til umræðu er.

Það hefur verið skrifað allmikið um það að undanförnu hve erfitt væri fyrir aldraða, sem búa í sínum gömlu íbúðum, að greiða hinn mikla olíukostnað sem er við upphitun húsa. Fyrir allmörgum árum var sú breyting gerð á húsnæðismálastjórnarlögunum, að heimilað var að lána til endurbóta og viðhalds á íbúðum fyrir öryrkja og aldraða. En þannig er með þetta ákvæði, að í raun og veru er hvergi á það minnst. Þegar hæstv. heilbr.- og félmrh. var að gefa skýrslu um störf Húsnæðismálastofnunar ríkisins í gær í hv. Sþ. man ég ekki til að hann hefði orð á því að þessi ákvæði væru yfirleitt hagnýtt. Ég held að ef umrædd stofnun hefði útibú úti um landið væri af eðlilegum ástæðum meira upplýsingastreymi til íbúanna, til sveitarstjórnanna, og þá væru a. m. k. líkur til þess að þar sem skórinn kreppir, þar sem verulegir örðugleikar skapast vegna þess t. d. að íbúðir eru illa einangraðar, vegna þess að tvöfalt gler er ekki í gluggum, mundi það upplýsast fljótt að hægt væri að ráða bót á slíku með því að fá lán hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Það var aðeins þetta sem ég vildi vekja athygli á.