28.03.1979
Efri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3676 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

238. mál, námsgagnastofnun

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. til l. um námsgagnastofnun, en frv. með þessu nafni hefur fimm sinnum legið fyrir Alþ. á undanförnum þingum, en ekki orðið útrætt.

Frv. það, sem nú hefur verið lagt fram, er hliðstætt fyrri frv. að efni til, en þó hafa nokkrar breytingar verið gerðar á efni þess frá því að það var seinast lagt fram. Reyndar er það svo, að frv. hefur verið að taka nokkrum breytingum ár frá ári og ég held til batnaðar hverju sinni.

Frv. í upprunalegri mynd var samið af nefnd sem þáv. menntmrh. skipaði hinn 27. júlí 1972 og hafði það verkefni að endurskoða lög um Ríkisútgáfu námsbóka, Fræðslumyndasafn ríkisins o. fl. Frv. gerir ráð fyrir að sameinuð séu í eina stofnun þessi þrjú fyrirtæki: Ríkisútgáfan, Skólavörubúðin og Fræðslumyndasafnið, en þetta eru þær ríkisstofnanir sem starfa að útgáfu, miðlun og framleiðslu námsefnis og kennslugagna. Þær ættu þá að lúta einni stjórn, daglegri stjórn námsgagnastjóra, en að öðru leyti starfa undir námsgagnastjórn svonefndri. Nú er það svo, að 10 menn sitja í námsbókanefnd og í stjórn Fræðslumyndasafns, en um yrði að ræða eina 7 manna stjórn sem hefði með höndum yfirstjórn á starfsemi og fjárreiðum Námsgagnastofnunar.

Í frv. þessu eru ákvæði um náið samstarf stofnunarinnar og þeirra aðila, sem vinna að endurskoðun námsefnis og nýjungum í kennslustarfi á vegum menntmrn., á vegum Kennaraháskóla Íslands og við aðrar þær stofnanir sem veita kennaramenntun.

Námsgagnastofnuninni er að sjálfsögðu ætlað að framleiða náms- og kennslugögn miðað við íslenskar þarfir og íslenskar aðstæður, önnur en prentað mál. Í þessu frv. er lögfest, að auk eiginlegra námsbóka skuli gefnar út handbækur og kennsluleiðbeiningar handa kennurum svo og svonefndar ítarbækur, en það eru viðbótarbækur fyrir nemendur, auk hvers konar nýsigagna. Í þessu frv. er einnig ákvæði um að Námsgagnastofnun skuli stuðla að varðveislu skólaminja.

Í frv. eru ákvæði um fjármögnun deilda Námsgagnastofnunar einfölduð og samræmd miðað við það sem nú er. Er miðað við að allt ríkisfé til stofn- og rekstrarkostnaðar verði í formi venjulegra fjárveitinga í fjárl. Aðrar tekjur þessarar stofnunar verði eðlilegar sölu- og leigutekjur af efni og tækjum.

Mér er ekki ljóst, hvernig á því stendur að Alþ. hefur verið tregt til að samþykkja frv. þetta og það hefur svo oft verið lagt fyrir þingið án þess að hljóta afgreiðslu. Ég hef ekki heyrt því andmælt að frv. væri ótvírætt til bóta og til sparnaðar og til að stuðla að stóraukinni hagkvæmni á þessu sviði. Ég héli satt best að segja að alþm. væru almennt heldur hlynntir því þegar tilraun væri gerð til að auka hagkvæmni í ríkiskerfinu og stuðla að sparnaði. En auk þess á það að fylgja með í kaupunum, ef þetta frv. verður að lögum, að um verði að ræða markvissari og betri þjónustu við skólanemendur eftir að sú sameining og endurskipulagning hefur átt sér stað sem frv. gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um efni þessa frv. sem svo oft hefur komið fram áður hér á Alþ., en vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. menntmn.