28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

184. mál, tollskrá

Frsm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða lítið frv. sem gerir ráð fyrir því að breyta aðeins einu orði eða svo í gildandi lögum. Efni þess er í stuttu máli það að fella niður heimild, sem nú er í lögum til þess að undanþiggja svonefnda ráðherrabíla aðflutningsgjöldum, sem sagt að taka upp það skipulag að af bílum, sem ráðh. kaupa, verði aðgreiða aðflutningsgjöld eins og af öðrum bifreiðum.

Öll nefndin, fjh.-og viðskn. þessarar d., varðsammála um að mæla með samþykkt frv. og gera ekki á því neinar breytingar. Það kemur fram á nál. á þskj. 482. Undir þetta nál. skrifa þó tveir nm. með fyrirvara, þeir hv. þm. Vilmundur Gylfason og Finnur Torfi Stefánsson.

Við afgreiðslu málsins kom í ljós skv. upplýsingum, sem lágu fyrir frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, að talið var vafasamt að það nýja skipulag, sem upp yrði tekið með þessum hætti, yrði ódýrara fyrir ríkið. Í besta falli mætti segja að þetta gæti verið í jafnvægi, en þó mætti búast við því, miðað við reglur sem þegar hefðu verið ákveðnar, að hið nýja fyrirkomulag yrði jafnvel útgjaldameira fyrir ríkið.

Ég hygg að sá fyrirvari, sem kemur fram í nál. hjá þessum tveimur hv. þm. sem ég minntist á, standi fyrst og fremst í sambandi við þær upplýsingar sem fram komu í n. varðandi nýu skipulag á þessum málum og ríkisstj. hefur ákveðið, en varði í sjálfu sér ekki afgreiðslu frv. sem slíks, þeir séu sammála hinum nm. um það að rétt sé að breyta lögunum þannig að atnema þá heimild sem í gildi hefur verið.

Ég legg sem sagt á það áherslu, að n. er öll sammála um að frv. nái fram að ganga, en blanda mér ekki að svo komnu máli í umr. um önnur atriði sem raunverulega standa fyrir utan afgreiðslu frv. sem slíks sem hér liggur fyrir. N. mælir sem sagt með því að frv. verði samþ. óbreytt.