28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umr. hefur þetta mál legið alllengi hjá fjh.- og viðskn. og í rauninni hefur það dregist allt of lengi að taka málið hér til endanlegrar afgreiðslu. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl., og í rauninni er mikil þörf á að þetta mál fái hér endanlega afgreiðslu.

Hér er vissulega um stórt mál að ræða og mál af þeirri tegund sem ég tel fyllilega eðlilegt, að þm. staldri við og íhugi og athugi vel hvað í felst.

Í meginatriðum er hér um það að ræða, að á venjulegan hátt var ákveðið að svonefndum gengishagnaði, sem fram kom við gengislækkun sem gerð var í upphafi núv. stjórnarsamstarfs, skyldi ráðstafað á tiltekinn háu, eins og sagði í þeim brbl. sem hér er verið að staðfesta.

Hvað er um mikið fjármagn að ræða sem fellur til með þessum sérstaka hætti? Eftir upplýsingum, sem n. fékk frá Seðlabankanum sem hefur með framkvæmd þessa máls að gera skv. lögum, telur hann að þessi svonefndi gengishagnaður í þessu tilfelli sé upp á rúmlega 7.5 milljarða kr. Nokkrum hluta, en litlum, af þessari heildarfjárhæð verður varið skv. ákvæðum þessara laga til þess að greiða þeim sem eiga þarna í rauninni inni óumdeilanlega, þ. e. a. s. í sambandi við kostnað sem á þessar afurðir fellur eftir að hið nýja gengi er upp komið, eins og þar sem er um breyttan flutningskostnað að ræða og önnur gjöld sem þá verða til, svo að það, sem verður endanlega til skiptanna, verður nokkru minna en þetta, en þó örugglega yfir 7 milljarða króna.

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Þetta þýðir það, þó það sé ekki nú í fyrsta skipti sem það er gert, að hér er verið með gengislækkun að færa til fjármuni í mjög ríkum mæli. Gengislækkunin er gerð, eins og allajafna er sagt, til stuðnings þeim sem flytja framleiðslu sína á erlendan markað, eins og sjávarútvegurinn. En um leið og þessi stuðningur er veittur í formi gengislækkunar er tekin af þessari atvinnugrein fjárhæð sem því nemur sem ég hef verið að gera grein fyrir. Það skiptir því auðvitað höfuðmáli, hvernig á að ráðstafa þessum fjármunum sem þannig eru teknir úr umferð og lagðir í sérstakan sjóð.

Með þeim brbl., sem hér eru til staðfestingar, er gert ráð fyrir að í stórum dráttum verði þannig farið með þessa fjármuni, að u. þ. b. helmingur fjármagnsins eigi að renna í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Ég tel fyrir mitt leyti að sú ráðstöfun sé mjög eðlileg við þær aðstæður sem við búum við, og það má vissulega segja að sá helmingur, sem þannig rennur í Verðjöfnunarsjóð, sé áfram í höndum þeirra sem hér áttu hlut að máli. Hann er áfram í höndum fiskframleiðendanna allra. Það á sem sagt eftir að koma til þess, að þessu fjármagni verði eftir settum reglum úthlutað úr þeim sjóði í þágu framleiðslunnar síðar. Af því er ráðstöfun á þessum helmingi fullkomlega eðlileg að mínum dómi.

Síðan er gert ráð fyrir því í þessum lögum, ef tekin eru aðalatriðin, að hinum helmingnum sé skipt í tvennt. Einn fjórði hluti af heildarupphæðinni á að renna í sérstaka deild hjá Fiskveiðasjóði, sem síðan á að standa undir hagræðingarlánum í fiskvinnslunni. Annar fjórði hluti af heildarfjárhæðinni á að renna líka til Fiskveiðasjóðs, sem síðan á að úthluta þeirri fjárhæð til þeirra fiskiskipaeigenda sem hafa orðið fyrir áföllum eða tapað í íslenskum krónum mælt við gengislækkunina af því að hin erlendu lán, sem á skipunum hvíldu, hafa hækkað í verði. Þessi ráðstöfun er svo sem þekkt áður hjá okkur, að hafa þennan hátt á. En þá er eðlilegt að um það sé spurt: Hvernig er þessum málum þá í rauninni varið? Skv. upplýsingum frá Fiskveiðasjóði stóðu mál þannig þegar þessi lög voru sett, að fiskiskipalán, sem um gilda gengisákvæði og urðu því fyrir gengistapi, — fiskiskipalán hjá Fiskveiðasjóði og öðrum sjóðum sem lánuðu með gengistryggingu út á fiskiskipin, sú heildarfjárhæð nam um þetta leyti 51.5 milljörðum kr. Það er þá auðvitað augljóst mál, að þegar um er að ræða 15% gengislækkun hafa þessir aðilar orðið fyrir æðimiklu tapi, og það, sem ætlað er með þessu ákvæði laganna að bæta þeim eða endurgreiða þeim, er aðeins lítill hluti af því gengistapi sem þeir hafa orðið fyrir. Hafði verið áætlað að í hlut þessarar deildar hjá Fiskveiðasjóði, sem á að létta byrðar þeirra sem skulduðu lán erlendis á fiskiskipum sínum, mundu renna 1 250 millj. kr. — 1 milljarður 250 millj. kr. Sú fjárhæð verður nokkru hærri. En Fiskveiðasjóður hafði reiknað út að bæturnar til þessara aðila af skuldum þeirra næmu 2.4% af höfuðstólnum. Ef hins vegar öll lán hjá Fiskveiðasjóði, sem eru gengistryggð, — því hér er talsvert um það að fasteignalán í sambandi t. d. við byggingu frystihúsa eða fiskverkunarstöðva séu einnig gengistryggð, — ef öll gengistryggðu lánin hjá Fiskveiðasjóði eru tekin nemur þessi greiðsla ekki nema 1.44% af þessum höfuðstól. Ég vek athygli manna á því, að hér er um bætur að ræða sem aðeins eru að litlum hluta upp í það tjón sem menn hafa orðið fyrir. (Forseti: Vildi hv. þm. gera hlé á ræðu sinni meðan fundi er frestað til kl. 6?) Já, ég skal gera það. — [Frh.]