28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3692 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál. á þskj. 350 skrifaði.ég ekki undir nál. Það byggist á því, að ég var búinn að ræða um það við hæstv. félmrh. og trmrh. að ríkisstj. tæki afstöðu til þessa málefnis. Það er dálítið óvenjulegt, a. m. k. nú í seinni tíð, að frv., sem felur í sér verulega skattlagningu, fari í gegn á Alþingi öðruvísi en ríkisstj. taki afstöðu til málsins, enda var vilji hæstv. ráðh. að gera það og fyrirvari minn byggist á þessu fyrst og fremst.

Annað mál er það, að í frv. um stjórn efnahagsmála er gert ráð fyrir því og hefur áður verið rætt á þessu þingi að hverfa frá að hafa markaða tekjustofna, heldur að Alþ. hverju sinni eða fjvn. ákvarði hvernig eigi að skipta þeim fjármunum sem þjóðfélagið hefur á hverjum tíma til framkvæmda. Hefur verið sterk krafa um að þessi leið yrði a. m. k. athuguð og jafnvel farin. Ég er ekki sammála því að það eigi að fara þessa leið nema breyta þá til. Ég held að það sé rétt leið, að það sé ákveðið t. d. í sambandi við vissa fjárfestingarsjóði og jafnvel ákveðin verkefni, að það séu markaðir tekjustofnar. En það er dálítil þversögn í því, að á sama tíma sem er verið að endurskoða þetta, jafnvel þó að málefnið sé mjög gott, þá sé ástæða til að stíga slíkt skref sem hér um ræðir. Það eru nefnilega ekki smávegis fjármunir sem þarna er fjallað um.

Í annan stað er það, að hér hef ég fyrir framan mig fundargerð fulltrúafundar sem Landssamtökin Þroskahjálp héldu nú 20. jan. Skýrt var frá því á þessum fundi, að það hafi verið n. að störfum sem hafi samið frv. eða drög að frv. í sambandi við aðstoð við þroskahefta, og það kemur hér fram að samtökin telja málefnum sínum best borgið á þann veg að þetta frv. verði lögfest. Þessi fundargerð hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Landssamtökin Þroskahjálp tjá sig í grundvallaratriðum ósammála þeirri tekjuöflunarleið, sem frv. til l. um Framkvæmdasjóð öryrkja gerir ráð fyrir, þar sem það hlýtur að teljast eðlilegt að fjármögnun þeirra framkvæmda, sem um ræðir í frv., fari fram á þeim sama grundvelli og aðstoð við aðra þegna samfélagsins, þ. e. a. s. með beinum framlögum á fjárlögum“.

Nú vil ég í sambandi við þetta mál, þar sem það er komið hér á dagskrá, leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. að því, hvort þetta málefni hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundum, og enn fremur, — ég hef ekki séð þetta frv. sem ég var að minnast á og nefnd hefur samið og hlýtur að vera ætlast til að verði lagt fram hér, — hvort ráðh. muni leggja þetta frv. fram á þessu þingi og hvort í því felist hvernig eigi að standa að þessum málum. Ég held að við þurfum að fá að vita þetta áður en við tökum afstöðu til svona frv. Málefnið er mjög gott og aðkallandi að leysa, en slík mál eru mörg í okkar þjóðfélagi og þess vegna þarf að kanna bæði þetta mál og ýmis önnur betur en mér virðist að hafi verið gert.