28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3695 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Meginmarkmið þess frv., sem hér er til umr., gengur út á það að tryggja tekjustofna til að standa undir kostnaði sem ráð er fyrir gert í ýmsum öðrum lögum sem Alþ. hefur samþ., en Alþ. hefur hingað til skotið sér undan að útvega. Ég held að allir þm. séu sammála um nauðsyn þess sem nota á peningana til. Hins vegar eru menn ekki sammála um tekjuöflunarleið frv.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. ræddi um það, að tekjuöflunarleiðin gengi þvert á hugmyndir efnahagsmálafrv. um markaða tekjustofna. Ég held að enginn og alls ekki

Alþfl.-menn hafi gert ráð fyrir því að leggja niður markaða tekjustofna til félagslega þýðingarmikilla mála, því að reynslan hefur því miður sýnt, að þegar það er gert, — og er þá hægt að benda á Styrktarsjóð vangefinna, Gæsluvistarsjóð og ýmsa fleiri sjóði, — þá hafa þeir drabbast niður í ekki neitt.

Hv. 1. þm. Vestf. taldi upp ýmsa sjóði sem hann vill meina að Alþfl.-menn hafi lagt til að yrðu felldir niður sem slíkir með markaða tekjustofna. Þetta er ekki rétt. Þessir sjóðir voru aldrei í frv. Alþfl. sem var undanfari þess frv. sem nú er verið að ræða um hér í þinginu. Þeir voru þar aldrei. Þeir voru aftur á móti teknir upp í grg. þess frv., sem hér er til umr., og þá aðeins til upplýsinga um það, um hvaða sjóði gæti verið að ræða. Það hefur aldrei verið vilji eins eða neins í Alþfl. og ekki heldur í öðrum stjórnarflokkum að leggja niður markaða tekjustofna sem gengju til félagslegra nota. (Gripið fram í: Er Alþfl. á móti 8. gr. frv.?) Þar eru alls ekki ákvæði um það, að þessir sjóðir skuli falla niður, þessir félagslegu sjóðir — alls ekki. Það er þá illa lesið ef sá skilningur hefur komist inn hjá hv. þm.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. spurði, hvort þetta frv. hafi verið rætt í ríkisstj. Svo er ekki nema þá afskaplega lauslega, alls ekki efnislega.

Þá spurði sami hv. þm. hvort væntanlegt væri frv. um þroskahefta. Það er rétt, það er væntanlegt frv. um þroskahefta og það er nú til athugunar í ríkisstj. og verður væntanlega lagt fyrir Alþ. innan skamms og vonandi samþ. sem lög frá Alþ. fyrir þinglok. Í því frv. er málið nálgast frá talsvert mikið annarri hlið en gert er með því frv. sem hér er til umr. Þar er ekkert minnst á hvernig eigi að afla fjárins. Þar eru að vísu ákvæði um kostnaðarskipti milli ríkis og sveitarfélaga. Málin eru þar tekin frá allt annarri hlið, þannig að að mínu mati mega þessi frv. bæði fara í gegn samtímis og styðja raunverulega hvort annað. Það er ekkert í því frv., sem skemmir fyrir þessu, og ekkert í þessu, sem skemmir fyrir hinu frv.

Herra forseti. Ég legg til að það frv., sem hér er til umr., verði samþ. til 3. umr. Fyrir þá umr. geta menn þá komið með brtt. varðandi tekjuöflunina ef þeim þykir það nauðsynlegt.