28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3696 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er gott og nauðsynlegt að aðstoða öryrkja í þessu þjóðfélagi. Þar er brýn þörf. Málefnum þeirra hefur ekki verið sinnt sem skyldi og þar er vissulega verk að vinna. Hitt er aftur spurning, hvernig á að vinna þetta verk.

Þetta mál, sem hér er til umr., frv. til l. um Framkvæmdasjóð öryrkja á þskj. 22, hefur hlotið mjög ítarlega meðferð í n. Ég var því miður fjarstaddur lokaafgreiðslu málsins í n., en vil þó láta skoðun mína koma í ljós við þessa umr.

Vegna ummæla hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, hér áðan, þar sem hann saknaði hæstv. fjmrh. við þessa umr., vil ég leyfa mér að lesa stuttan kafla úr umsögn sem fjmrn. sendi félmn. Nd. Alþingis. Það, sem ég ætla að lesa, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Að því er varðar tekjuöflunarleiðir frv. tekur rn. fram eftirfarandi:

Á síðari árum hefur margoft verið bent á ókosti þess að marka tekjustofna til ákveðinna framkvæmda eða starfsemi. Mörkun tekjustofna hefur óhjákvæmilega í för með sér að fjárl. verða gerð óvirkari til þess að jafna niður því fjármagni sem tök eru á að afla í þeim tilgangi að fullnægja nauðsynlegum þörfum. Þá skal og á það bent, að þó skynsamlegt samræmi sé á milli þeirra þarfa, sem mörkuðum tekjustofni er ætlað að fullnægja, og teknanna af tekjustofninum er engan veginn víst að þetta samræmi haldist um alla framtíð, ef gjaldstofninn er ekki beinlínis mælikvarði á þá þjónustu sem veitt er fyrir féð. Með þetta atriði í huga er hætt við að handahófskennd mismunun milli viðfangsefna þeirra, sem þannig eru fjármögnuð, og hinna, sem ekki eru það, geti átt sér stað. Þetta atriði ásamt þeirri staðreynd, að möguleikar til virkrar og sveigjanlegrar hagstjórnar með aðgerðum í ríkisfjármálum, t. d. með beitingu fjárl., eru einkum þau atriði sem fundin hafa verið mörkuðum tekjustofnum til foráttu og það með réttu. Það er staðreynd, að hérlendis eru mjög margir tekjustofnar markaðir. Reynt hefur verið að hamla á móti þessari þróun og reyna frekar að fækka þeim eftir mætti. Með tilliti til þessa er sú leið til tekjuöflunar, sem frv. gerir ráð fyrir, andstæð almennri stefnumörkun í þessu efni.

Í framhaldi af þessu má geta þess, að tekjustofnar ríkisins eru almennt taldir allt of margir og smáir. Æskilegra er að einfalda tekjuöflun ríkisins þannig að auðveldari yfirsýn fáist yfir skattheimtuna og áhrif hennar svo og til þess að gera alla framkvæmd ódýrari og samræmdari auk betri skilyrða til eftirlits. Kostnaður vegna innheimtu gjalda af því tagi, sem m. a. er lagt til að innheimt verði samkv. umræddu frv., er yfirleitt mjög hár miðað við þær tekur sem tekjustofninn aflar. Frá þessum sjónarhóli eru tekjuöflunarleiðir frv. ekki til annars fallnar nú en að gera skattakerfið enn flóknara og dýrara en það er nú þegar orðið.

Þá vill rn. sérstaklega geta þess, að tekjur ÁTVR af áfengissölu eru nú þegar rúmum milljarði undir þeirri tekjuáætlun sem gerð var fyrir árið 1978. Hefur of mikil hækkun söluverðs á áfengi einkum verið um kennt. Sýnist því sem verið sé að bera í bakkafullan lækinn að ætla að hækka enn meira en gert hefur verið verð á áfengi.“ Síðan segir í niðurlagi þessarar umsagnar:

„Af því, sem að framan er rakið, má ljóst vera að rn. telur ekki æskilegt að mæla með þeirri leið sem lagt er til að farin verði samkv. umræddu frv. í þeim tilgangi að greiða fyrir fjármögnun þeirra framkvæmda sem um er rætt í 5. gr. þess, heldur verði farin sú leið að ákveðin verði á fjárl. ár hvert framlög til þessara mála líkt og er um framlög til skóla- eða félagsmála.“

Undir þetta skrifa fyrir hönd rn. Höskuldur Jónsson og Lárus Ögmundsson.

Ég tel að þessi umsögn sé nægileg staðfesting á áliti fjmrn. og þá væntanlega fjmrh. á þessu máli og þeirri tekjuöflun sem þar er bent á. Spurningin er sem sagt um það, hvernig á að afla fjár. Hér er bent á ákveðna leið, og ég finn ekki fremur en 1. þm. Vestf. að þessi leið samræmist stefnu þeirrar ríkisstj. sem ég styð, en ekki hann. Ég fæ ekki séð að þetta passi við 8. gr. frv., þar sem ekki er reyndar tekið fram að eigi að fella niður þessa mörkuðu tekjustofna. Það er ekkert tekið fram um það. Það er talað um að endurskoða þá, en það þýðir alls ekki það sama og að skera þá niður við trog. Og ef maður athuga þann lista sem fyrrv. heilbrrh. las áðan, þá kemur auðvitað í ljós að þarna er um marga sjóði að ræða sem alls ekki kemur til greina að hrófla við. En á sama tíma og við erum vonandi að samþykkja efnahagsmálafrv. sem inniheldur þvílík ákvæði, þá fæ ég ekki séð að vert sé að bæta á eins og stendur.

Hvað varðar ummæli hæstv. félmrh. um að Alþfl. hafi aldrei dottið þetta í hug, þá misminnir mig hrapallega ef svo er. Ég mun gá að því í Alþýðublaðinu frammi. Ég bað einn af starfsmönnum þingsins að útvega mér Alþýðublaðið frá því í des. s. l., þar sem a. m. k. tví- eða þríprentað var frv. Jóns Baldvins Hannibalssonar og Alþfl. um efnahagsmál. Það hét frv. til l. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og eitthvað var nú fleira gott í fyrirsögn. Þetta frv. var þarna prentað og mig misminnir hrapallega ef ekki hefur verið minnst á í því frv. að endurskoða beri hina mörkuðu tekjustofna.

Hvað varðar það atriði í umsögn fjmrn. að því þótti áfengissala vera farin að dragast saman vegna þess að áfengi væri orðið of dýrt, þá hef ég alltaf verið talsmaður þess að hafa áfengi nokkuð dýrt í Áfengisversluninni. Það er vegna þess að sú skattheimta er einna léttbærust allrar skattheimtu sem ríkið leggur á þegnana. Það er sá skattur sem þegnarnir greiða með ljúfustu geði. Það er enginn sem neyðir mann til þess að fara inn í ríkið og borga þann skatt sem þar er af manni heimtur. Maður gerir það af fúsum og frjálsum vilja og getur sem hægast sparað sér það ef manni sýnist svo. Það er einföld leið og hófsemin er mikil dyggð.

Hér er ekki um smáræðisfjármagn að ræða. Það eru 800–1000 millj. (JóhS: Það er ekki svo mikið, þegar skemmtanaskatturinn er felldur úr.) Þegar skemmtanaskatturinn er fallinn úr, ef sú brtt. yrði samþ., þá er rétt að það nær ekki 1000 millj. í ár. En hver veit hvað verður á næstunni? Það má kannske segja: hvað er milljarður á milli vina? — og þó. Ef við erum á annað borð að reyna að hafa stjórn á fjármálum ríkisins, þá held ég að leiðin sé ekki að samþykkja svona frv., hvað svo sem málefnið er gott — og það undirstrika ég að ég tel að það sé í þessu tilfelli — og hvað svo sem flm. eru góðviljaðir og ötulir. Ég tel að ötulir stjórnarþm. og mjög jákvæðir ráðh. hljóti að geta rökstutt og knúið fram eðlilegar fjárveitingar til nauðsynjamála eins og þess arna við fjárlagagerð hverju sinni, ekki síst þar sem kann að vera að undir bagga hlaupi með þeim mjög rausnarlegir þm. stjórnarandstöðunnar. Þess vegna sé ég mér ekki fært að styðja þetta frv.