28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3700 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Frsm. meiri hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til, þrátt fyrir ummæli hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, að ítreka enn frekar en ég hef gert hve brýn nauðsyn er á tímabundinni, ákveðinni tekjuöflunarleið til að verða lyftistöng fyrir málefni öryrkja, sem eins og öllum er kunnugt hafa dregist verulega aftur úr, einkum að því er varðar kennslumál þroskaheftra, þó Alþ. hafi skuldbundið sig til með grunnskólalögunum frá 1974 að fjármagna þau á fjárl., en ekki staðið við. Vona ég að þeir hafi það í huga sem gagnrýna þetta frv.

Það er rétt, sem fram hefur komið, að stefna ríkisstj. er að draga sem mest úr mörkuðum tekjustofnum og sjálfvirkni fjárfestingarlánasjóða. Er það í sjálfu sér eðlilegt þegar tillit er tekið til hve mikil fjárhæð er að lögum bundin í slíkri sjálfvirkni sem þá dregur verulega úr hagstjórnarmöguleikum ríkisvaldsins.

Hins vegar er í frv. forsrh. um efnahagsmál einungis talað um endurskoðun á sjálfvirkni varðandi hina mörkuðu tekjustofna, og á ég ekki von á öðru en að við þá endurskoðun verði nauðsyn slíkrar sjálfvirkni markaðra tekjustofna metin á þann hátt, að tillit verði tekið til þeirra sjóða og framlaga sem réttlætt eru með félagslegum sjónarmiðum. Sú hætta er vissulega fyrir hendi, ef slík sjálfvirkni verður með öllu afnumin, að framlög til hinna ýmsu félagslegu mála, svo sem Byggingarsjóðs, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Félagsheimilasjóðs, svo eitthvað sé nefnt, verði skert, ef það er á hverjum tíma háð ákvörðun á fjárl. hvað rennur til slíkra málaflokka. Þess vegna er að mínu mati nauðsynlegt að taka sérstakt tillit til slíkra félagslegra sjónarmiða, enda vil ég benda á vegna orða hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, að í frumvarpsdrögum Alþfl. frá því í desember var einmitt tekið tillit til slíkra réttlætismála.

Ég vil líka benda á að í tekjuöflunarleið þeirri, sem ráð er fyrir gert í frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja, er bent á ákveðnar, tímabundnar tekjur til verkefnanna sem frv. gerir ráð fyrir, en ekki bein framlög af fjárl., og hefur það því ekki í raun áhrif á svigrúm fjárl. hverju sinni. Því er ekki hægt að tengja þetta nema óbeint við þau sjálfvirku framlög sem hverju sinni eiga sér stað með beinum framlögum af þeim tekjum sem ríkissjóður hefur umleikis hverju sinni, þar sem hér er bent á ákveðnar viðbótartekjur til að standa undir þessu verkefni.

Ég held líka að allir sanngjarnir alþm. hljóti að viðurkenna að brýn nauðsyn er oft og tíðum á slíkum tekjuöflunarleiðum, ekki síst til þeirra verkefna sem frv. gerir ráð fyrir, þegar fjárveitingavaldið hefur ekki séð sér fært að fjármagna það eftir öðrum leiðum og ekki er fyrir séð að það verði gert í nánustu framtíð svo tryggt sé þrátt fyrir skýr ákvæði um fjármögnun og framkvæmd grunnskólalaga að því er varðar þroskahefta.

Rétt er það, sem fram kom hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að þeir, sem vinna að málefnum þroskaheftra, hafa lagt áherslu á að fá lagt fram frv. um aðstoð við þroskahefta og hefur nefnd unnið að því að undirbúa slíkt frv. Ég hef séð þau frumvarpsdrög um aðstoð við þroskahefta sem ráð er fyrir gert að leggja fram, en ég vil undirstrika að þar er hvergi tillaga um hvernig fjármagna eigi þær framkvæmdir sem þar er gert ráð fyrir. Gæti farið um það frv. eins og um ákvæðið í grunnskólalögunum varðandi þroskahefta, að skortur á fjármagni yrði til að koma í veg fyrir framkvæmd þeirra laga. Slíkur sjóður sem þetta frv. gerir ráð fyrir getur einmitt hlýtt fyrir þeirri framkvæmd sem frv. um aðstoð við þroskahefta, sem væntanlega verður lagt fram, gerir ráð fyrir.

Ég taldi ekki ástæðu áðan til að fara að rekja þær umsagnir sem borist hafa um þetta mál. Ég taldi það nægja, til að tefja ekki tíma þessarar hv. d., að segja frá meginefni þeirra, sem var, þó að umsagnaraðilar, bæði Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið og aðildarfélög þeirra, teldu að þetta ætti að fjármagna á fjárl., eins og t. d. önnur kennsla í landinu, þá hefði ekki fengist fjármagn til þess og ekki verið staðið við þær skuldbindingar sem gerðar voru varðandi þetta efni, og þá væri önnur lausn ekki í sjónmáli, sem tryggði framgang þessara mála, en sú sem ráð væri fyrir gert í frv. þessu og því væru þeir henni fylgjandi. Og þegar Landssamtökin Þroskahjálp, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson nefndi hér sem dæmi, segja sig í grundvallaratriðum ósamþykk þeirri tekjuöflunarleið sem frv. gerir ráð fyrir, þá er það einmitt þetta sem ég lýsti sem er álit þeirra, að þau sjá málunum ekki betur borgið á annan hátt þó þau kysu að fjármagnað yrði til þessara verkefna á fjárlögum.

Vegna þess að hv. þm. Stefán Valgeirsson dró fram þetta dæmi án samhengis við meginefni flestra umsagnanna vil ég — með leyfi hæstv. forseta — grípa inn í örfá atriði í umsögnunum sem styðja mál mitt.

Í umsögn frá Öryrkjabandalaginu segir — og það eru 10 aðildarfélög innan þess:

„Með skírskotun til II. kafla frv. um sérkennslusjóð, þá er því ekki að neita, að það er skoðun stjórnar Öryrkjabandalags Íslands og aðildarfélaga þess, að öll kennsla innan grunnskólalaganna, sérkennsla sem önnur, og byggingar í þágu hennar eiga að ákvarðast á fjárl., enda er það í samræmi við yfirlýst markmið öryrkjafélaganna í átt til jafnréttis við aðra þjóðfélagsþegna. Hins vegar blasir við sú staðreynd, að sá skilningur á málefnunum virðist eiga langt í land hjá valdhöfum, og á þeirri forsendu lýsum við okkur hlynnta nefndu frv.“

Í umsögn frá Félagi ísl. sérkennara segir:

„Nefndin styður frv. í heild, en harmar að til þessa frv. skuli þurfa að koma, þar sem við álitum að ríkissjóði beri að standa straum af þeim kostnaði sem lög og reglugerði r um sérkennslu og endurhæfingar segja til um.“

Í umsögn frá Foreldrasamtökum barna með sérþarfir segir:

„Samtökin lýsa því yfir, að þau eru í heild sammála þeim meginmarkmiðum, sem fram koma í frv., og telja að framkvæmdir vegna sérkennslu og endurhæfingar verði betur tryggðar með mörkuðum tekjustofnum heldur en með framlögum á fjárlögum.“

Í umsögn Foreldrafélags barna með sérþarfir á Akureyri segir:

„Við höfum fjallað allverulega um þetta mál og teljum ástæðu til að þakka þetta verk. Okkur virðist að með þessum lögum, ef samþ. verða, verði mjög mikilsverður áfangi fenginn fyrir verðandi heildarlöggjöf sem um hefur verið rætt á þingum samtakanna, þ. e. að með þessum hætti yrði verulegt fjármagn til reiðu fyrir stofnkostnaði þeirra stofnana, ef að lögum verður.“

Umsögn umsjónarfélags einhverfra barna segir: „Umsjónarfélag einhverfra barna fagnar tilkomu frv. og óskar einlæglega að það nái fram að ganga. Vafalaust má deila um sum atriði frv. eins og önnur mannanna verk, en miðað við þá aðstöðu, sem við höfum haft til að kynna okkur frv., treystum við okkur ekki til þess að benda á betri leiðir til árangurs í þessu yfirgripsmikla máli.“

Í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar, undirritaðri 30. nóv., segir:

„Þar sem okkur þykir þó sýnt, að erfitt muni reynast að fá fram á fjárl. þær fjárveitingar sem þarf til þess að hrinda í framkvæmd þeim markmiðum sem stefnt er að í reglugerð um sérkennslu og lögum um endurhæfingu, þykir okkur rétt að mæla með samþykkt framkomins frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd, að okkur þykir þjóðfélagið hafa þeim skyldum að gegna gagnvart þroskaheftum að því beri að gera þeim kleift að lifa sem eðlilegustu lífi í þjóðfélaginu. Því ætti ekki að vera spursmál um að veita nægt fé á fjárl. til að svo mætti verða.“

Í umsögn Styrktarfélags vangefinna segir:

„Setning sérkennslureglugerðar skv. grunnskólalögunum frá 1974 var mikið baráttumál. En ekki var gert ráð fyrir fjármögnun hennar á annan hátt en þann, að hún skyldi framkvæmd eftir því sem fé yrði veitt á fjárl. Önnur lausn er ekki í sjónmáli sem stendur. Því virðist enn svo sem vangefnir séu ekki taldir hafa rétt til menntunar og þjálfunar til jafns við aðra í þjóðfélaginu. Því miður er svo farið á fleiri sviðum með þann rétt. Við höfum barist fyrir skipulagningu, áætlunum, framkvæmd og fjármögnun þessara mála. Ónógar undirtektir ráðamanna hafa sem kunnugt er orðið til þess að þróun og uppbygging málefna vangefinna hefur að mestu leyti orðið fyrir tilstilli hins frjálsa framtaks.

Um væntanlegar tekjur sjóðsins er það að segja, að því ber að fagna ef hægt er að knýja fram tekjustofn til framdráttar þessum málum. Líklegt má telja að fjármögnun til þeirra komist þá fyrr inn á fjárl. sem sjálfsagður liður til jafns við aðstoð til handa öðrum þjóðfélagsþegnum.“

Ég skal láta þetta nægja, og lýkur hér tilvitnunum í umsagnir aðila. Ég tel mig hafa gripið nægilega niður í umsögnunum til þess að þdm. hafi fengið nægjanlega skýra mynd af umsögnum þessara aðila og vilja þeirra til þess að frv. verði samþ.

Ég vil þakka þeim, sem hér hafa tekið til máls við þessa umr., og þó sérstaklega góðar undirtektir hv. þm. Gunnars Thoroddsens. Það var vissulega rétt hjá honum, að margar félagslegar framkvæmdir væru ekki eins vel á veg komnar ef ekki hefðu komið til markaðir tekjustofnar. Og það skyti nokkuð skökku við, ef nú ætti að koma í veg fyrir slíkan tekjustofn til þess að hrinda brýnu máli í framkvæmd þegar öryrkjar eiga í hlut. Verð ég að segja að það er dálítið dapurlegt að hlusta á þá þm. sem mælt hafa gegn þessu frv. af því að þetta ætti að fjármagnast á fjárl., þegar þeir vita fullvel að það er ekki og hefur ekki verið framkvæmt í reynd.