01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er nú ekki hávaxtamaður, en ég lofa samt þrautseigum hv. þm. í deildinni að segja ekki allt sem ég veit um efnahagsmál. Ég ætla ekki að endurtaka rök sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson og hv. þm. Einar Ágústsson fluttu áðan og ég hygg að hafi verið hv. flm., Vilmundi Gylfasyni, og meðflm. hans, sem eru allir óbreyttir hv. þm. Alþfl. í deildinni, nauðsynleg lexía. Því er nú verr, að þeir eru ekki allir við til þess að meðtaka þetta, en ég hygg þó að heppilegra hefði verið fyrir hv. þm. Lúðvík Jósepsson að láta hv. þm. Vilmund Gylfason hafa þessa lexíu í nokkrum skömmtum. Ég er ekki viss um að hv. þm. Vilmundur geti tekið við svo miklu magni í einu, jafnvel þó að þetta sé allt saman gott og nauðsynlegt, því að ég óttast sannarlega að það geti farið að brydda á námsleiða hjá nemandanum eftir svona fyrirlestur.

Meginatriðið í þessu máli er náttúrlega að greina á milli orsaka og afleiðinga. Það er dýrmætt að hafa hag sparifjáreigenda í huga, og samúð mín er að sjálfsögðu með sparifjáreigendum. En ef ég reyni að hugsa skýrt, þá sýnist mér að háir vextir séu orsök aukinnar verðbólgu, mjög verðbólguhvetjandi, og geti ekki verið annað en verðbólguhvetjandi, en verði ekki til lækningar á verðbólgunni.

Vaxtastefna sú, sem fylgt hefur verið undanfarin missiri, hefur ekki læknað verðbólguna. Í fyrravor bar ég fram hér í hv. d. frv. til. l. um að færa þetta formlega vaxtaákvörðunarvald, sem var til umræðu hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Einari Ágústssyni, frá Seðlabankanum til ríkisstj., því að þrátt fyrir allt hafði ég meira traust á ríkisstj. heldur en á Seðlabankanum. Ég leit svo á að þjóðkjörnir stjórnmálamenn mundu ekki fara eins glannalega með vaxtamál og mér virtist að Seðlabankinn hefði farið.

Þegar ég kom fyrst til starfa hér á Alþ. sumarið 1974 voru forvextir af almennum víxlum 11–113/4%. Núna eru þeir 231/2%. Vextir af fasteigna- og handveðslánum til lengri tíma en tveggja ára voru 13%. Núna eru þeir 26%. Forvextir af afurðalánum voru 7–9%. Nú er þeir 231/2%. Forvextir af afurðalánum voru 7–9%. Nú er þeir 18%. Dráttarvextir voru 11/2 á mánuði, en nú eru þeir komnir upp í 3% á mánuði, 36% á ári. Það hefur líka verið fundinn upp nýr lánaflokkur, vaxtaaukareikningar, þar sem mönnum er gert kleift að fá okurrentu fyrir peninga sína. Þar með var náttúrlega víxilkerfið eyðilagt, því að það er ekki hægt að lána út á 22% vöxtum peninga sem þarf að borga yfir 30% vesti af. Síðan verður þetta allt saman til þess, að rekstrarkostnaður atvinnuveganna fer upp úr öllu valdi, og efnahagurinn hefur sannarlega ekki skánað á þessu tímabili.

Hér hefur komið til umr. hvernig vextir leika hina ýmsu atvinnuvegi. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hér hefur komið fram um það mál. Ég vil hins vegar leiðrétta eða fara ofurlítið nánar út í vexti í landbúnaðardæminu heldur en gert hefur verið til þessa.

Það er rétt, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson hafði hér orð á, að í ágúst voru 14 milljarðar í lánum til landbúnaðar. En á meðalbúi eru reiknaðir vextir í verðlagsgrundvelli samtals einungis tæp 541 þús., og það er sannarlega ekki há tala. Eru hv. flm. tilbúnir til að velta raunvöxtum af landbúnaðarframleiðslu út í verðlagið? Ég bara spyr. Ég er hræddur um að það mundi standa í þeim. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að velta þeim út í verðlagið eða láta atvinnuvegina stöðvast.

Sjónarmið hv. 1. flm., sem fram kom í ræðu hans, virtist mér vera sjónarmið launamanns sem lokar alveg augunum fyrir lífinu í landinu. Við lifum ekki í þessu landi nema með því að atvinnulífið gangi, og svo best hafa launamenn og sparifjáreigendur sín laun og eitthvað eftir af sínu sparifé, að atvinnulíf í landinu sé með sæmilegum blóma. Ég afsegi alveg þá rökvillu, sem mér þykir koma fram, að skömmtun fjármagns af stjórnmálamönnum sé einhver óeðlileg eða óheiðarleg lánastarfsemi. Ég held, að vald Alþ. í fjármálum á Íslandi sé of lítið, en ekki of mikið. Ég held að það væri þarft verk að auka það. Svo finnst mér líka vera óskemmtilegt að hlusta á það, sem bryddi því miður á í nokkrum ágætum ræðum sem ég hef heyrt hv. þm. Vilmund Gylfason flytja, að pólitík sé eitthvað óhreinni en önnur störf, að stjórnmálamenn séu eitthvað lakari menn en aðrir menn eða verk þeirra með einhverjum hætti skuggalegri og óheiðarlegri en annarra manna. Ég held að þetta sé illa mælt og ástæðulaust. Þessi hv. þm. er af ætt ágætra stjórnmálamanna og tengdur enn meiri stjórnmálamönnum. Ég get ekki annað en leyft mér að vitna til Sturlungu, og þá er það auðvitað draumkona Jóreiðar í Miðjumdal sem upp í hugann kemur, en hún sagði: „Illir þykja mér allir þeir fuglar er í sjálfs hreiður skíta.“ Ég held að þm. séu hvorki betri né verri en þeir kjósendur sem kjósa þá. Þeir eru úrtak úr kjósendunum, og þess vegna held ég að það sé síður en svo, að þeir séu eða eigi að vera eitthvað frábrugðnir fólkinu í landinu.

Það er ýmislegt lofsvert í því, sem hv. þm. hefur haldið fram um efnahagsmál, og ég er ekki í vafa um að hann vill lækna verðbólguna. Ég er hins vegar ekki á sama máli og hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, um lækninguna á verðbólgunni. Ég held, ef hætt er að tala um „patent“ í þessu sambandi, að það sé vísitalan miklu fremur en vextirnir sem sé lykillinn að því, að við komumst í eðlilegt efnahagsástand. Þar með er ekki sagt að það eigi að hætta að mæla kaup fólks og kaup fólks megi ekki taka breytingum. En það verður bara, eins og hv.. síðasti ræðumaður orðaði það, að miða við annað. Í efnahagsmálaprógrammi Alþfl., sem hann lagði fram og féll fólkinu í landinu vel í geð, var eitt atriði sem skaraði fram úr öðrum, og það var hugmynd Alþfl.-manna — reyndar ekki þeirra hugmynd, en hugmynd sú sem þeir héldu þar fram um þjóðhagsvísitölu. Það er miklu heilbrigðari og eðlilegri aðferð heldur en vera að hafa vísitöluna eins byggða upp og hún er núna, þar sem hún er með þeirri hugsanavillu að skattarnir eru inni í henni, og það getur náttúrlega ekki góðri lukku stýrt, eins og hv. síðasti ræðumaður drap á. Og það er í henni margt sem ekki á þar að vera. Ef við þurfum að byggja skóla eða greiða niður vöruverð í landinu, þá þurfum við að afla tekna og það er gert að talsverðum hluta, um 80%, með óbeinum sköttum. Þeir eru inni í vísitölunni og þar með verða þeir til þess að fólkið í landinu fær hærra kaup. Þetta er kerfi sem alls ekki gengur, og ég skil ekkert í jafngamalreyndum og skýrum stjórnmálamanni og hv. þm. Lúðvík Jósepssyni að fást ekki til að viðurkenna þetta.

Það er hægt að hafa ýmsa aðra viðmiðun heldur en gert er. Hana þarf að finna með skynsamlegu.samkomulagi. En þetta skynsamlega samkomulag fæst ekki með því að menn loki augunum fyrir vandanum og berji höfðinu við steininn. Hv. 1. þm. Austurl. vitnaði til sjómennsku í írafári sem væri orðið á áhöfninni. Satt er það, að bátur okkar er að fyllast, við höfum ekki við að ausa og vélin er sjálfsagt farin að hökta. En neglan er ekki í bátnum og þess vegna er ekkert óeðlilegt þó að hækki í honum.

Mér kom það á óvart í upphafi ræðu 1. flm. og ég hafði reyndar ekki hugleitt það, að kosningasigur Alþfl. hefði unnist sérstaklega út á verðbólguna og þar með væru hinir ágætu nýju þm. Alþfl. einhverjir sérstakir verðbólguþm. En allt um það, þá er ég því fremur á móti verðbólgu.