28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3703 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er ekki svo að skilja að ég telji nauðsynlegt að kynna hér úr ræðustól frv. Alþfl., sem aldrei varð þó frv. En vegna þess að ég vitnaði í það lítillega áðan eftir minni, þá vil ég einungis lesa þær greinar sem mér voru í huga. Það er í 10. gr. frv. sem prentað er á forsíðu Alþýðublaðsins laugardaginn 16. des. 1978. 10. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lagaákvæði, sem kveða á um framlög úr ríkissjóði eftir sjálfvirkum reglum, skulu falla úr gildi með lögum þessum, sbr. 28. gr. Jafnframt verði markmið, skipulag og starfshættir fjárfestingarlánasjóða teknir til endurskoðunar.“

Í skýringum við 10. gr. segir:

„Hér er gert ráð fyrir að ýmis lagaákvæði, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til ýmissa framlaga, séu numin úr gildi. Jafnframt verði markmið, skipulag og starfshættir viðkomandi starfsemi tekin til endurskoðunar. Sjá nánar í upptalningu í 28. gr.

28. gr. er þannig:

„Með lögum þessum er felld úr gildi skylda ríkissjóðs til fjárframlaga skv. eftirtöldum lagaákvæðum, sbr. 9. gr., sjá fskj.“

Síðan kemur upptalning á sjóðum, þar eru Byggðasjóður, Byggingarsjóður, Rannsóknastofnun atvinnuveganna, til jarðræktar og framræslu, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, veðdeild Búnaðarbankans, Fiskveiðasjóður, Lánasjóður sveitarfélaga, Ferðamálasjóður, Hafnabótasjóður, Iðnlánasjóður, Iðnrekstrarsjóður, Fiskimálasjóður, Fiskiræktarsjóður, útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir og Framleiðslueftirlit sjávarafurða.

Það er alveg rétt, að það eru taldir upp fleiri sjóðir í frv. forsrh. sem hv. 1. þm. Vestf. vitnaði hér til, en því frv. fylgjum við að sjálfsögðu framsóknarmenn og mér skilst Alþfl.-menn líka athugasemdalaust.