28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3704 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil segja það í upphafi, að ég styð heils hugar hverja viðleitni ríkisvaldsins til að vinna að þeim málefnum, sem frv. á þskj. 22 fjallar um, og hefði raunar kosið að Alþ. hefði á undanförnum árum verið örlátara í þessum efnum en reynslan hefur sýnt. Á hinn bóginn er það næsta dapurlegt, að það skuli vera svo um mörg af mestu félags- og menningarmálum og réttlætismálum, að Alþ. skuli ekki hafa uppburði í sér til þess að kveða á um nægilegt fjárframlag til þeirra hluta á fjárl. hverju sinni með beinum ríkisframlögum, sem síðan hefur leitt til þess að í æ ríkara mæli hefur verið farið inn á þá braut að marka ákveðna tekjustofna til þvílíkra verkefna.

Það má raunar segja að í þessu felist það, að alþm. eru oft og tíðum býsna örlátir á ríkisfé þegar nógu langt er í næstu fjárl., og má kannske segja að þess vegna sé rétti tíminn til að berjast fyrir auknum framlögum úr ríkissjóði til góðra mála að fitja upp á þeim þegar eftir afgreiðslu fjárlaga í hvert sinn. Það er raunar líka svo nú um þetta mál, að það fær góðar undirtektir vegna þess hversu langt er til næstu fjárlaga.

Ég lít svo á að með því að hæstv. forsrh. hefur lagt fram frv. á þskj. 453 þar sem kveðið er á um að endurskoðaðir skuli markaðir tekjustofnar, þá hljóti það einnig að taka til þessa frv. sem hér um ræðir ef samþ. verður. Gildi þess að samþ. þá mörkuðu tekjustofna, sem hér er gert ráð fyrir, virðist vera næsta rýrt miðað við það, að sami meiri hl. verði áfram á Alþ., vegna þess að það er alls af honum að vænta í þessum málum, eins og hringsnúningurinn hefur verið hjá honum í ríkisfjármálum frá einu frv. til annars.

Ég hef ævinlega verið andvígur því, að áfram sé haldið skipulagslaust á þeirri braut að marka ákveðna tekjustofna til tiltekinna verkefna. Ég held að öllum hv. alþm. sé ljóst að það tappagjald, sem hér er talað um á víni, og það fastagjald, sem hér er talað um að koma á útsöluverðs tóbaks, muni í raun einungis rýra tekjur ríkissjóðs af áfengi og tóbaki, frv. geri að því leyti ráð fyrir tekjumissi ríkissjóðs að því marki sem þessi gjöld nema. Við skulum gera okkur það ljóst, að þessar vörur eru þegar orðnar það dýrar að frekari hækkun nú mun að sjálfsögðu koma fram í minni sölu. Fjármálaráðherrar hafa haft tilhneigingu til að spenna bogann til hins ýtrasta í þessum efnum.

Ég vil svo að síðustu aðeins segja það, að vegna þess málefnis sem hér á í hlut, þar sem er Framkvæmdasjóður öryrkja, treysti ég mér ekki til þess að standa á móti þessu frv. en vil á hinn bóginn lýsa andstöðu minni við þau vinnubrögð, að Alþ. reyni að smokra sér undan því að taka afstöðu til slíkra málefna við afgreiðslu fjárlaga.

Ég styð það heils hugar að þeir mörkuðu tekjustofnar, sem þegar eru í lögum, verði teknir til endurskoðunar og menn geri það upp við sig hvernig það dæmi lítur út í heild.