28.03.1979
Neðri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3706 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lét þau orð falla að sumir þm. a. m. k. væru á móti þessu frv., og það gat alveg eins átt við mig og hvern annan, að það er misskilningur. Ég er alls ekki á móti frv. En ég er stuðningsmaður ríkisstj. og ég tel mig ábyrgan í afstöðu til mála. Ég vil að ríkisstj. fjalli um þetta mál. Þetta er ekkert smátt í sniðum. Miðað við frv., eins og það er úr garði gert, er um að tefla eftir þær brtt., sem meiri hl. er að flytja, um 840 millj. kr. á einu ári, ef þær tölur, sem hér eru nefndar, eru réttar. Menn verða svolítið að athuga um hvað er að tefla. Ég á nefnilega ákaflega erfitt með að fara samtímis upp og niður sama stigann. Það kann að vera að aðrir hv. þm. geti gert það, en ég á erfitt með það.

Ég vil treysta því, að á milli 2. og 3. umr. verði þetta mál athugað. Og ef verður samkomulag um það í ríkisstj. að þetta sé allt í lagi, þá mun ekki standa á mér. En menn verða að vera hér ábyrgir. Það eru nefnilega fleiri mál en þetta sem hafa verið svelt. Þetta er ekki eina málið. Og þó að þessar stofnanir séu alls góðs maklegar, þá verða menn að hugsa málin í samhengi. (Gripið fram í.) Það eru mörg mannréttindamál og ég gæti talið nokkur upp, en ég ætla ekki að gera það, sem eru ekki síður mannréttindamál en þetta. Og það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að það hefur verið töluvert gert í þessum málum, en það hefði þurft að gera meira, og það er þannig með fjölmörg mál hjá okkur. Það hefur verið gert mikið og kannske meira að segja meira en við máttum gera miðað við okkar móguleika. En samt er margt ógert. Þetta verða menn að athuga og það læra menn þegar þeir fara að starfa lengur hér á hv. Alþingi.