29.03.1979
Sameinað þing: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3711 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

204. mál, niðurfelling og lækkun leyfisgjalda af litlum bifreiðum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég verð að játa að þessi till. kom mér lítils háttar á óvart þegar ég sá hana á borðinu mínu. Það má alls ekki skilja mig svo að ég sé að svo stöddu að mæla gegn þessari till. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig, að gera hóflega sparneytnar bifreiðar aðgengilegri fyrir almenning, og í því er að sjálfsögðu viss búmennska. Hitt tel ég þó í fljótu bragði eðlilegra, að reyna að halda niðri verði á bensíni og skattleggja þá fremur nýja bíla á móti heldur en láta eldsneytið bera skattheimtuna uppi. Það verður auðvitað að afla tekna og þetta er ein aðferðin. En ég held nú, eftir því sem mál hafa þróast í seinni tíð varðandi olíu- og bensínverð, að það sé alveg óhjákvæmilegt að fara að taka til athugunar fyrr en seinna hvort ekki verði að breyta innheimtuaðferðum ríkisins og skattlagningu á þetta eldsneyti. Það er ekki hóf á því verði sem orðið er á þessari vöru, og ég held að það sé mjög brýnt að taka á vandamálinu með mikilli einbeitingu.

En það er annar bílaflokkur, sem ég tel að sé enn þá meiri ástæða til að athuga hvort er ekki í röngum tollflokki, heldur en þessir litlu bílar, og þar á ég við jeppana. Jeppar eru óhóflega dýrir, og það er svo sem ekkert við því að segja um þá bíla, sem fara til sportmennsku, og þá bíla, sem menn veita sér sem sérstakan lúxus þó að þeir séu dýrir, og töluvert af jeppunum er þannig notað. En ég vil minna á það, að jeppar eru nauðsynleg tæki til atvinnurekstrar, gersamlega óhjákvæmileg tæki til atvinnurekstrar, t. d. við landbúnað, og ég lít svo á að það hafi verið mjög slæmt verk hjá fyrrv. ríkisstj. þegar hún breytti tollflokkun á jeppum. Ég stóð í þeirri meiningu þegar ég átti þátt í þeirri afgreiðslu, að það væri ætlun fjmrh. að finna form fyrir undanþágur á jeppatollinum þar sem um bifreiðar, sem tvímælalaust væru nauðsynlegar til atvinnurekstrar, væri að ræða. Og ég tel ástæðu, þegar þetta mál verður skoðað í n., til þess að ganga úr skugga um hvort ekki væri unnt að hnika þarna einhverju til, vegna þess að verðmunur á jeppum — þar á ég við raunverulega jeppa, en ekki gervijeppa — og fólksbílum er orðinn geysilega mikill og vandaðir jeppar orðnir ókaupandi fyrir bændur, þó að þeir séu gersamlega tilneyddir atvinnurekstrar síns vegna og aðstæðna að eiga slíka bíla.