29.03.1979
Sameinað þing: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3730 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

225. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þessa þáltill. og áhuga á henni. Ég hef þá skoðun, að því miður hafi kjaramálabarátta hjá okkur á undanförnum árum verið í of föstum skorðum í tengslum við fortíðina og ekki tekið nógu mikið mið af ýmsum nýjungum sem þörf væri á að innleiða í þessi mál.

Það er skoðun mín, að einmitt sveigjanleiki í sambandi við vinnutíma sé eitt af því sem þarf að taka til athugunar og reyna að koma sem víðast að í vinnumarkaði í þjóðfélagi okkar. Að vísu er það svo í þessu sem mörgu öðru, að við verðum að taka tillit til aðstæðna, þ, e. fámennis, og í aðalframleiðslugreinum okkar, svo sem í landbúnaði og sjávarútvegi, er ákaflega erfitt að koma við takmörkun á vinnutíma í mörgum greinum. Þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Í þessu sambandi vil ég koma því að, að í stefnuyfirlýsingu okkar framsóknarmanna höfum við einmitt tekið þetta mál alveg sérstaklega til skoðunar. Segir svo í þeim kafla, sem fjallar um tilhögun vinnutíma og launamála, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilhögun vinnutíma og launamála getur haft mikil áhrif á aukningu þjóðartekna. Bætt nýting fjárfestingar og aukin vinnuafköst eru sameiginlegt áhugamál allra þjóðfélagsþegna.

Á vegum ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins fari nú þegar fram athugun á tilhögun vinnutíma og launamála, þar sem m. a. verði tekið mið af eftirgreindum atriðum:

1. Dregið verði úr eftirvinnu og stefnt að því að afnema hana í áföngum í sem flestum starfsgreinum án rýrnunar kaupmáttar.

2. Vinnutími verði sveigjanlegri þannig að fjárfesting nýtist betur og auðveldara verði fyrir foreldra að skipta með sér forsjá heimilanna.

3. Kjarasamningar verði einfaldari, allir launataxtar verði brúttótaxtar og samtökum launþega sé meira í sjálfsvald sett hve miklum hluta af launum er varið til félagslegra þarfa“.

Ég taldi rétt að koma þessu að um leið og ég tel að það sé allrar athygli vert að láta skoða þessi mál í alvöru. Þess vegna tel ég að sú till. til þál., sem hér liggur fyrir, sé verðug þess að henni sé gaumur gefinn.