02.04.1979
Efri deild: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3753 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Svo rækilega hefur nú verið farið í gegnum þetta frv., að ég þarf ekki að hafa um það mörg orð. Mig langaði þó til þess að vekja athygli á því, að allmikil eftirvænting ríkti í sölum Alþ. á meðan beðið var eftir frv. Það hafði verið mikið um efni þess talað og það mátti vænta mikils af framlagningu þess, svo lengi sem það hafði verið í undirbúningi.

Þeir flokkar, sem að ríkisstj. standa, höfðu fyrir kosningarnar, svo sem getið hefur verið um, margt talað og mikið um illa meðferð fyrrv. stjórnar á launþegum og ætluðu nú sannarlega úr að bæta. Allir vissu að um örðugleika í efnahagsmálum var að ræða, og þess vegna skein í gegnum allt þeirra tal að nú mundi verða mynduð samtaka stjórn, — stjórn sem gjarnan hefði hugsunarhátt eins og menn sem voru í brimlendingu, og þegar formaðurinn sagði: „samtaka nú“ — var hafinn róðurinn inn brimsundið og þá oft með góðum árangri, sem betur fer, ef menn voru samtaka. En svo kom það, að einverjir örðugleikar urðu í samstarfinu. Vil ég þar sérstaklega geta þess, að við 1. umr. um mál þetta lét hv. þm. Bragi Níelsson þess getið, að nú hrúguðust upp óafgreidd merk þingmál vegna þess að tíminn færi allur í innbyrðis deilur innan stjórnarinnar. Og þegar hæstv. menntmrh. stóð í pontu og var að ræða um þetta frv. var það eiginlega kjarni máls hans að nefna öll þau atriði sem flokkur hans hafði ekki fengið aðstöðu til að koma fram, hvort sem var um olíumál eða tryggingamál að ræða og ýmislegt fleira, og að ekki hefði verið á hann hlustað. Skildist mér að allt þetta byggðist ekki á því, að stjórnin væri samtaka, heldur einmitt á sundurlyndi. Hefur síðan orðið augljóst hverjum manni, að sundurlyndið hefur haft mikil áhrif á gerð þessa frv. og gert það að verkum að í því formi, sem það nú er, er, eins og hér hefur verið tekið fram, verulegur hluti af því ýmist í lögum eða ekki þörf á því að setja í lög, en aðrir kaflar ýmist til bóta eða þá til hins verra frá því sem er.

Það hefur komið fram hjá ýmsum þm. að það, sem um væri að tefla, væri að krónan héldi kaupmætti sínum. Sannarlega er þetta rétt. Ég kom upp núna fyrst og fremst til þess að vekja athygli á vissum þáttum sem varða einmitt það mál.

Hér á þéttbýlissvæðunum býr meiri hluti þjóðarinnar. Þar er einkabíllinn fjölskyldunni nauðsyn, ekki til þess að spóka sig á um landið, heldur beinlínis til að fara í vinnu og frá vinnu á og til þess að njóta þeirrar þjónustu sem fáanleg er. Þetta tæki er tekið inn í vísitöluna sem 11.7% af heildarútgjöldum fjölskyldunnar. En hvað hefur nú skeð undanfarið með þennan lið sem metinn er 11.7% í vísitölunni? Frá síðustu kosningum hefur bensín hækkað um 40% og aðrir liðir munu hafa hækkað svipað, sumir meira, aðrir minna, þannig að sjáanlegt er að hækkunin á þessum eina lið er gífurlega mikil fram yfir það sem metið er í vísitölunni. Nú eru það ekki bara hátekjumenn og miðlungstekjumenn sem þurfa að nota bíla. Þetta kemur skýrt í ljós þar sem ríkið hefur á undanförnum áratugum veitt afslátt á hundruðum bíla með afslætti til vissra hópa innan þjóðfélagsins og þá að sjálfsögðu vegna þess að þetta voru alger nauðsynjatæki. Það eru þó ekki einungis þeir sem eru öryrkjar sem hafa fulla þörf fyrir bifreiðarnar, heldur allt láglaunafólkið líka, sem verður að sækja vinnu og þjónustu í einkabílum, vegna þess að það býr svo langt frá vinnustað að það kemst þangað ekki gangandi. Að tala um að krónan haldi kaupmætti sínum hjá þessum aðilum er hrein fjarstæða. Og að tala um að hér sé eitthvert spursmál um 1, 2 eða 3% kjaraskerðingu er líka hrein fjarstæða. Hér er um miklu stærri upphæðir að ræða. Kostnaður við rekstur á einkabifreið núna mun hjá láglaunafólkinu vera á bilinu frá 30–50% af launum þess, og fer þá allt talið um viðhald kaupmáttarins að verða einkennilegt. Þessu til viðbótar er það svo, að fasteignaskattar hafa stórhækkað síðan þessi stjórn tók við. Einmitt það atriði kemur mjög illa niður á mörgu öldruðu fólki sem situr í gömlum íbúðum og verður að bera hækkandi rekstrarkostnað íbúða sinna vegna hækkandi olíugjalds, en þar við bætast síðan auknir skattar á ýmsum sviðum sem gera því lífið miklu örðugra en nokkru sinni áður.

Eitt af því, sem tekið er fram í stefnumiðum þessa frv., er að það skuli halda fullri atvinnu. Um það er ekki að efast að þar fylgir hugur máli, og reyndar verður að segja að við höfum búið við það ágæta kerfi nú á undanförnum árum að atvinna hefur verið hér næg. Verður að segja að alveg ómetanlegt er og mesta atriðið félagslega og á öllum öðrum sviðum að hafa atvinnu. En þá skeði það í dag, að þessi stjórn hinna vinnandi stétta úthlutar atvinnutæki, sem er eitt það stórbrotnasta sem fyrirfinnst í þessu landi, en það eru skuttogararnir. Það vildi þannig til — þetta var notaður skuttogari — að um hann sóttu ýmsir landshlutar, þ. á m. staðir þar sem góð og öflug fyrirtæki, sem höfðu notið góðrar afkomu á undanförnum árum, voru rík og sterk fjárhagslega, og svo aðrir staðir, þar sem jaðrað hefur við atvinnuleysi á undanförnum árum og þar sem atvinnan er mjög takmörkuð og hætta á að bregði til atvinnuleysis innan skamms. Það var þessi stjórn sem að sjálfsögðu lét þann ríka og sterka, sem gat fært Seðlabankanum sitt, fá togara í dag. — Ég get þessa eiginlega eingöngu vegna þess sem getið er í upphafi frv., að meginmarkmið stefnunnar í efnahagsmálum er að tryggja næga og stöðuga atvinnu. Þetta er ómetanlegt. En það er ekki nóg að það standi í frv., ef framkvæmdin verður á annan veg.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, svo mikið er búið að rekja frv. og með ágætum og um það að tala hvaða annmarkar eru á því. Mig langaði þó til viðbótar að geta þess, sem kom fram við 1. umr., þar sem var verið að tala um að það hefði ekki komist að að gera breytingar á olíumálunum, að gera breytingar á tryggingamálunum. Það ætti að vera nokkuð þægilegt fyrir Alþb.-fulltrúana að fá upplýsingar um þessi mál. Í tryggingamálunum höfum við ríkisfyrirtæki eins og Brunabótafélagið sem starfað hefur um áratugi. Ég hef ekki trú á því að það séu neinir örðugleikar á að fá upplýsingar um rekstur trygginga nú á tímum. Mér skilst að t. d. varðandi bifreiðatryggingarnar, sem ég var að geta um áðan að færu mjög hækkandi, hafi Brunabótafélagið farið fram á 70-80% hækkun við næstu ákvörðun. Ekki ættu að vera örðugleikar á að fá upplýsingar um rekstur olíufélaganna sem eru að verulegu leyti rekin á félagslegum grunni. Ég held því að það ætti ekki að vefjast fyrir mönnum að fá upplýsingar. Annað mál er það, hvort ástæða er til breytinga.

En það eru fleiri mál sem bíða. Hér hafa beðið tengi mörg merk efnahagsmál og mætti þar nefna landbúnaðarmálin, sem eru núna í augnablikinu mjög mikið efnahagslegt vandamál og flækjast í þn. óafgreidd viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, þar sem þó þyrfti að taka skyndilega í taumana, þannig að birgðir söfnuðust ekki jafnmikið fyrir og þær gera núna. Þar væri örugglega hægt að finna leiðir til þess að bæta úr því ástandi sem er í dag. Ég held að það sé mál til komið að fara að grípa til einhverra aðgerða í þeim stóru málum sem beðið hafa, og ég vona að þegar þessum umr. er lokið og mál þetta komið í gegn verði tekið til við ýmis önnur mál sem beðið hafa alllengi.

Ég held að það sé sameiginlegt álit, ekki bara stjórnarandstöðunnar, heldur líka a. m. k. sumra stjórnarliða, að menn séu vonsviknir yfir því frv. sem hér liggur fyrir, menn hafi búist við að það mundi verða meira afgerandi í efnahagsmálum, en hafi ekki trú á að það muni leysa þann stóra vanda sem fyrir liggur, ekki trú á að það muni leysa vanda þeirra lægst launuðu, síður en svo. Eins og ég hef bent á, held ég að kjaraskerðing þeirra lægst launuðu sé miklu meiri en við höfum gert okkur grein fyrir.