02.04.1979
Efri deild: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3757 í B-deild Alþingistíðinda. (2926)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki gera hæstv. forseta erfitt í fundarstjórninni og hafa þessi orð fá. Það er aðeins að gefnu tilefni að ég stend hér upp. Það er ræða síðasta hv. ræðumanns, hv. 6. þm. Suðurl. Hann vék að mörgu því sem ég sagði í ræðu minni, en ég vil aðeins víkja að fáeinu.

Hv. 6. þm. Suðurl. vakti athygli á því, að ég hefði sagt í ræðu minni að það væri ekki nægilegt að þrengja hag launþega eða lækka kaup launþega. Þetta er alveg rétt, ég sagði þetta. Ég tók líka fram að það þyrftu að koma til heildaraðgerðir í efnahagsmálunum. Það þurfa að koma til aðgerðir í peningamálum. Það þarf að koma til aðgerða í viðskiptamálunum, gjaldeyrismálum o. s. frv. Það er það sem ég átti við. En hv. þm. hélt að ég hefði átt við að það ætti að leggja skatta á alla. Hann sagði að núv. ríkisstj. hefði lagt á skatta. Þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Við sjálfstæðismenn sjáum önnur úrræði en skattaúrræði. Okkar efnahagsstefna byggist á allt öðru en slíkum aðgerðum sem hæstv. ríkisstj. hefur svo mjög beitt.

Hv. 6. þm. Suðurl. minntist á niðurgreiðslur í landbúnaði sem ég hafði vikið að. Hann hélt sig aðallega að sveiflunum og var sammála mér um að það ætti að draga úr sveiflum niðurgreiðslnanna. Um það erum við sammála. En ég fékk ekkert svar við því, hvað hv. þm. eða ríkisstj. sú, sem hann styður, hyggst fyrir í því mesta vandamáli landbúnaðarins sem nú er við að stríða þessa stundina, þ. e. hvernig eigi að fara með birgðir landbúnaðarafurða sem nú eru óseldar.

Hv. 6. þm. Suðurl. minnti á það, að ég hefði sagt að arðsemisjónarmið gætu verið varhugaverð, og taldi að það væri heldur skrýtið að ég skyldi láta mér slíkt um munn fara. Ég hafði nú reyndar látið fara einhver virðingarorð líka um arðsemina. En þegar ég sagði að arðsemisjónarmið gætu verið varhugaverð, þá sagði ég að þessu arðsemisjónarmiði hefði á undanförnum árum verið þrásinnis beint á móti helstu hagsmunamálum dreifbýlisins með því að draga þau, þvælast fyrir og eyðileggja þau. Það var það sem ég átti við.

Hv. 6. þm. Suðurl. vék að „hæfilegu jafnvægi“ og skýrði hvað það var. Það var ágætt út af fyrir sig. En ég spurði ekki um hvað væri hæfilegt jafnvægi. Ég spurði að því, hvað væri „óhæfilegt jafnvægi“. Því hef ég ekki fengið neitt svar við enn þá.

Þá vék hv. þm. að því, sem ég sagði um V. kafla frv. Ég spurði áðan hvaðan væri fyrirmyndin að V. kaflanum, og ég spurði að því vegna þess að það er ekki vitað að slík áætlanagerð sem þar er gert ráð fyrir fyrirfinnist í nokkru nálægu landi, ekki á Norðurlöndunum, ekki Bretlandi, ekki Þýskalandi eða öðrum lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu. Hvar er fyrirmyndin? Mér finnst það athyglisvert, sem hv. 6. þm. Suðurl. vék að. Hann var að ýja að því, að fyrirmyndin gæti verið þáltill. okkar sjálfstæðismanna um landbúnaðarmál, ef ég skildi hann rétt. Pálmi Jónsson alþm., hv. þm., er 1. flm. þessarar till. En ég held að hv. 6. þm. Suðurl. verði að fara lengra austur en í Austur-Húnavatnssýslu, ef hann á að hafa nokkra von um að finna einhverja fyrirmynd að þessum kafla.

Þessar umr. hafa nú staðið í allan dag og það hefur verið fróðlegt að heyra hvað menn hafa sagt um þetta mál. (Gripið fram í.) Það hefur líka verið fróðlegt að taka eftir því, hverjir hafa ekki tekið til máls. Hér hafa þeir Alþb.-menn og Alþfl.-menn setið hljóðir og hógværir í dag. Þó er þetta það mál sem þeir hafa talað mest um á undanförnum vikum og mánuðum. Ég er ekki svo sem neitt sérstaklega að sakna þess að þessir menn hafi ekki talað. Það fer að sjálfsögðu vel á því, að þeir séu hljóðir og hógværir. En það er líka ástæða til að taka eftir þessu. Og það segir sína sögu.