02.04.1979
Neðri deild: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3762 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins að gefnu tilefni minna þm. á að í 45. gr. þingskapa Alþingis stendur svo orðrétt:

„Skylt er þm., hvort heldur í d. eða Sþ., að vera viðstaddur og greiða atkv. nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.“

Í prentaðri dagskrá þessa fundar, sem þm. hafa fengið margir hverjir senda heim til sín, er tilkynnt að fyrst á dagskrá fundarins verði atkvgr., þannig að þm. vissu hvað til stóð og ber samkv. þingsköpum skylda til þess að vera viðstaddir þegar atkvgr. fer fram, nema þeir hafi lögmæt forföll. Svo er ekki um fjölmarga þm. Í þingsköpum Alþingis var áður fyrr ákvæði um þingvíti, þess efnis, að svipta mætti þm. þingfararkaupi um skamma hríð, ef þeir sinntu ekki þingskyldum sínum. Nú eru þingsköp Alþingis til endurskoðunar hjá sérstakri nefnd þm. og ég held, herra forseti, að það væri ástæða til að sú n. tæki þetta mál til athugunar.