02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð. — Ég vil byrja á því að þakka þeim þm., sem hafa tekið þátt í þessum umr., fyrir góðar undirtektir undir meginefni till., þó að vitanlega hafi komið fram vissar athugasemdir um ýmsa liði hennar. Það er ekki nema eðlilegt. Ég ætla mér ekki þá dul að deila um rekstrarform í sambandi við þennan smáiðnað eða þjónustu- og úrvinnsluiðnað í sveitum. Það er ekki aðalatriði þessa máls, eins og við tökum reyndar fram í grg.

Mér þykir hins vegar vænt um að ummælin um samvinnurekstur og einkarekstur hafa orðið hvati af umr. hér frekar en annars hefði orðið, og er ekkert nema gott um það að segja. Þar hefur hvor aðili sína skoðun. Hitt kemur mér dálítið á óvart, þegar menn fara að tala um bændur sem sérstaka einstaklingshyggjumenn sem erfitt eigi með að vinna saman, — menn sem eru frumkvöðlar samvinnu og samhjálpar í landinu. Það er dálítið undarlegt að heyra það, og ég held að um mikinn misskilning sé að ræða ef menn halda það í alvöru.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að vissulega er þörf á því varðandi hin ýmsu fyrirtæki, að þar komi til aukin og betri þekking og menn flani ekki út í neitt sem þeir hafa ekki vit eða nein tök á. Upplýsingar hv. þm: Friðriks Sophussonar um þá félaga í Neskaupstað kom mér sannarlega ekki á óvart, enda er þar um mjög vel rekin fyrirtæki í eigu fólksins sjálfs um að ræða.

Varðandi það atriði, sem nokkuð hefur verið komið hér inn á, vil ég leiðrétta þann misskilning, að þó að við tölum um sérstakan stuðning við það rekstrarform ef framleiðslusamvinnufélög eru stofnuð, þá ber ekki að skilja það þannig, að næsta málsgrein: „Stuðla ber að því, að veitt verði óafturkræf framlög úr Byggðasjóði eða ríkissjóði til stuðnings smáiðnaði í sveitum, allt að 15% stofnkostnaðar“ — eigi eingöngu við það rekstrarform. Fram kemur í grg., að hér erum við með almenna till. hvað þetta snertir. Við segjum aðeins í grg.: Þetta ákvæði er einnig sett inn sem frekari hvati að því, að menn tækju höndum saman í heilbrigðri og virkri samvinnu, í stað þess að einkaaðilar stæðu hér að, þó flm. vilji á engan hátt útiloka það, enda sums staðar e.t.v. eina leiðin.“ Þetta um hið óafturkræfa framlag á þess vegna við hvaða rekstrarform sem er.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara út í nánari umr. hér.