03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3778 í B-deild Alþingistíðinda. (2964)

178. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Spurt er hvort þess sé að vænta, að menntmrn. beiti sér fyrir opinberri stefnumörkun í menningarmálum svo sem víðast er gert í nágrannalöndum okkar. Áður en ég vík að því að svara þessari fsp. er rétt að hugleiða hvað sé átt við með því hugtaki sem fram kemur í fsp., þ. e. a. s. opinberri stefnumörkun í menningarmálum eða stefnu í menningarmálum. Ég hef nefnilega orðið var við það, að nokkurs misskilnings virðist stundum gæta þegar þetta hugtak ber á góma, en þessi misskilningur stafar vafalaust af því, að hugtakið hefur ekki sérlega mikið verið notað hér á landi og e. t. v. ekki unnið sér sess í íslensku máli enn sem komið er. En óneitanlega ber nokkuð á því að þessu hugtaki sé ruglað saman við flokkspólitískar stefnur eða jafnvel halda menn á stundum að átt sé við einhverjar ákveðnar stefnur í listum, t. d. í bókmenntum eða myndlist.

Hugtakið stefna í menningarmálum er einfaldlega þýðing á hugtakinu cultural police á ensku eða kulturpolitik á skandinavísku. Engin algild skilgreining mun vera til á því. En það, sem átt er við, er að af opinberri hálfu sé gerð úttekt á fjárveitingu ríkis og sveitarfélaga og síðan sé leitast við að gera áætlun um fjárveitingar til hinna ýmsu menningarstofnana og listgreina samkv. forgangsröðun með hliðsjón af slíkri úttekt og væntanlega kemur þá í ljós, hvaða listgreinar eða menningarstofnanir virðast bera skarðan hlutfrá borði miðað við aðrar. Þetta er sem sagt aðalinntak svonefndrar stefnumörkunar í menningarmálum, en oftlega kemur einnig til viðleitni til að menningarstarfsemin nái meir til almennings og viðleitni til að forðast miðstýringu í menningarmálum, en stuðla fremur að aukningu valddreifingar, t. d. til sveitarfélaga og til frjálsra félagasamtaka.

Svo að vikið sé að efni þessarar fsp., þá mun rétt vera, að opinber stefnumörkun í menningarmálum í þessum framangreinda skilningi tíðkist víðast hvar í nálægum löndum. Þessi stefnumörkun hér á landi hefur fyrst og fremst birst í fjárveitingu til menningarmála í fjárl. og stjórnvaldsframkvæmd ýmiss konar, en ekki hefur verið um formlega stefnumörkun að ræða að öðru leyti. Þetta mál hefur að sjálfsögðu borið á góma í menntmrn., en eigi er því að leyna, að opinber stefnumörkun hlyti óhjákvæmilega að leiða af sér auknar fjárveitingar til menningarmála, þótt væntanlega gæti slík stefnumörkun líka leitt til nokkurrar hagræðingar og sparnaðar á vissum sviðum.

Ég vil vekja á því athygli í þessu sambandi, að á undanförnum árum hefur sá háttur verið á hafður við undirbúning fjárlaga, að till. menntmrn. um hækkuð framlög til menningarmála hafa nær ævinlega verið skornar niður í fjárlaga- og hagsýslustofnuninni, niður í sömu upphæð og verið hafði í fjárlögum árið áður. Þetta hefur verið nánast regla og þessari reglu virðist hafa verið fylgt með þeim rökum, að skynsamlegt sé að láta alþm. það eftir að slást um hvaða upphæðir skuli renna til menningarmála. Þegar slíkur háttur er á hafður ár eftir ár hlýtur afleiðingin að verða sú, að fjárveitingar til menningarmála verða nokkuð tilviljunarkenndar, einfaldlega vegna þess að komið er í veg fyrir það árum saman að menntmrn. geti haft uppi ákveðna stefnumörkun á þessu sviði. Ég held sem sagt, að það sé til lítils að tala um opinbera stefnumótun í menningarmálum meðan þessi háttur er hafður á við undirbúning fjárlaga. Ég tel hins vegar að hyggilegt væri að fela hópi manna að fjalla um opinberan stuðning við menningarmál og gera tillögur til úrbóta, og það er nú í undirbúningi innan menntmrn.