03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3784 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

346. mál, niðurfelling afnotagjalds af síma fyrir ellilífeyrisþega

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir þeirri fsp., sem hér liggur fyrir á þskj. 390, er sú, að fjöldi ellilífeyrisþega hefur tekið fréttir um niðurfellingu ársfjórðungsgjalda af síma á þann veg, að það gilti fyrir alla sem búa einir, enda tæpast hægt að taka þær öðruvísi, og ekki hefur rn. gert neitt til að leiðrétta þessar fréttir. Fsp. er á þessa leið:

„1. Hver er skýringin á því, að fjölmiðlar eru látnir telja fólki trú um að allir ellilífeyrisþegar eigi að fá eftirgjöf á ársfjórðungsgjaldi fyrir venjulegan síma, þegar ráðh. hefur með reglugerð sjálfur stórlega takmarkað fjölda þessa fólks?

2. Eftir setningu umræddrar reglugerðar 7. des. 1978 óskar ráðh. eða póst- og símamálastjórnin eftir lista frá Tryggingastofnun ríkisins yfir elli- og örorkulífeyrisþega, er njóti óskertrar uppbótar á elli- og örorkulífeyri, og hefur að sjálfsögðu fengið hann. Póst- og símamálastofnunin notar síðan nafn Tryggingastofnunar ríkisins til afsökunar fyrir synjunum á slíkri eftirgjöf. — Hvers vegna er þessi háttur hafður á?

3. Leggur þessi deild póst- og símamálarn. það að jöfnu til útilokunar á eftirgjöf á fastagjaldi síma, hvort elli- og örorkulífeyrisþegar eru e. t. v. í fjárhagslega vanmegnugasta lífeyrissjóði eða þeim elsta og sterkasta?“