03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3786 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

346. mál, niðurfelling afnotagjalds af síma fyrir ellilífeyrisþega

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, þó að ég hafi ekki verið alls kostar ánægður með þau. Það er eins og síðasti ræðumaður benti á, að þetta mál er á margan hátt vandræðamál. Gamla fólkið hefur trúað því, að allir ættu að fá þetta, og fjölmiðlar hafa sett málið þannig fram. Hvort sem ráðh. eða rn. hefur ætlast til að þeir gerðu það, þá hafa fjölmiðlar sett málið þannig fram að fólkið hefur trúað því, að allir ættu rétt á þessari eftirgjöf, og margur orðið fyrir feikilega miklum vonbrigðum þegar svar hefur komið um það, að viðkomandi njóti ekki óskertrar tekjutryggingar og eigi þess vegna ekki kost á þessari eftirgjöf.

Sá sem nýtur skertrar tekjutryggingar getur verið í afskaplega lélegum lífeyríssjóði, lífeyrissjóði sem greiðir aðeins örlítið til viðkomandi manns, og hann er settur þarna við sama borð og þeir sem njóta mikilla greiðslna úr verðtryggðum lífeyrissjóðum. Hlýtur því að vera um allverulega mismunun að ræða, og vil ég biðja ráðh. að athuga hvort ekki er hægt að breyta þessu á þann veg, að þeir, sem eru í veikustu lífeyrissjóðunum, megi njóta þessa á einhvern hátt eða a. m. k. fleiri en nú njóta.

Það væri líka gaman að vita hversu margir það eru sem njóta þessarar eftirgjafar af síma. Það hefur ekki komið fram, en það væri fróðlegt að fá að vita það. Þeir munu vera fáir, ef þessum reglum er fylgt stranglega.

Ég get tekið undir þau orð sem hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson sagði hér áðan: Best er að hækka ellilífeyrinn það mikið að svona greiðslur þurfi ekki að koma til, því fólk þarf að sækja um þessa eftirgjöf, sem margur á erfitt með, lítur á þetta sem einhvers konar styrk. Vissulega kemur þetta til vegna þess að menn vilja gera betur við þá, sem einir eru, og jafnframt viðurkenna, að gömlu fólki er nauðsynlegt að hafa aðgang að síma. En þetta er kerfi sem er ekki gott og þarf tvímælalaust að lagfæra á þann hátt, að þeir, sem eru fjárhagslega illa staddir, geti notið þess, eða þá að hafa það þannig að ellilífeyririnn verði hækkaður.