02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

32. mál, lífríki Breiðafjarðar

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 35 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um verndun og könnun á lífríki Breiðafjarðar. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að stuðla hið fyrsta að því, að hið fjölþætta lífríki Breiðafjarðar verði kannað og verndað, eftir því sem þurfa þykir, í samráði við heimamenn og náttúruverndarsamtök.“

Till. fylgir löng og nokkuð ítarleg grg. þar sem vikið er að ýmsum atriðum sem þetta efni varða. Er því óþarft að flytja langa framsöguræðu.

Í upphafi grg. er þess getið, að Breiðafjarðarbyggðir hafi löngum verið rómaðar fyrir fegurð og landkosti. Þetta þarf raunar ekki að rökstyðja nánar því að af nægum heimildum er að taka. Ég leyfi mér þó að hafa yfir örstuttan kafla úr frægu skáldverki — með leyfi hæstv. forseta — í þessu sambandi:

„Við Breiðafjörðinn eru fallegar jarðir, æðarfugl í hverri vör, selur sefur á steini, laxar stökkva fossa, fugl í eyjum, grundir við sjóinn, kjarrvaxnar hliðar, grösug fjallaskörð, en efra víðlendar lyngheiðar með ár og fossa. Bæirnir standa á grænum bölum upp úr enginu og vita út á fjörðinn, og í logni hafa hólmarnir og skerin flosmjúkan skugga sem titrar, gagnsæjan eins og skugga í lindarvatni.“

Þetta er upphaf 12. kafla hinnar frægu skáldsögu bókarinnar „Hið ljósa man“ eftir Halldór Laxness.

Um gagnsemi og landkosti er vitnað í upphafi grg. í Jón Espólín. Það er nánast af tilviljun, en kom fram í hugann vegna þess að hann var sýslumaður Snæfellinga 1792–1796 og kona hans ættuð úr Haukadal í Dölum. Hann var vel kunnugur á þessum slóðum og raunar margfróður um menn og málefni hvarvetna um byggðir landsins.

Í Breiðafjarðareyjum var víða fjölbýlt áður fyrr. Nú er sköpum skipt, þar sem flestar eyjanna eru komnar í eyði, þó að nytjaðar séu með ýmsu móti frá landi. Þetta skapar ný viðhorf.

Að undanförnu hefur athygli áhugamanna um náttúruvernd beinst að Breiðafjarðarsvæðinu. Komið hefur fram og talið æskilegt að sett væru sérstök lög um friðun Breiðafjarðar með hliðsjón af lögum um friðun Mývatnssveitar frá 1974, sem mér er sagt að hafi reynst vel.

Laugardaginn 14. f.m. var haldinn fundur í Búðardal á vegum Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða og Vesturlands, þar sem málefni þetta var rætt ítarlega og nefnd sett á laggirnar til að vinna að framgangi þess.

Ekki er talið að bráður háski vofi yfir Breiðafirði að þessu leyti, en á hinn bóginn sé eðlilegt og sjálfsagt að athuga þessi mál í tæka tíð og gera viðeigandi ráðstafanir, ef þurfa þykir. Bent er á að lífríki fjarðarins sé mjög fjölskrúðugt og svæðið allt sérlega áhugavert. Það þarf að hlynna að því fólki, sem enn byggir þessar eyjar, og auðvelda því lífsbaráttuna svo sem unnt er.

Þeir, sem bjuggu í eyjunum áður, lærðu af reynslunni að þeir urðu að umgangast náttúruna með vissum hætti, ef vel átti að fara. Þannig hafa mér sagt kunnugir menn, að það væri allt í lagi að nytja hlunnindin, ef það væri gert með gát. T.d. teldist það ekki of nærri gengið, þó að kópar væru veiddir, en væri fullorðni selurinn á hinn bóginn rekinn í aðhald og veiddur þannig, — hin svokallaða „írekstrarveiði“, — þá var voðinn vís. Þá flúði selurinn af skerjunum og kom seint aftur. Einnig var það á sama hátt með lundabalana. Talið var hægt og sjálfsagt að veiða alla þá kofu sem í náðist, en ef ganga átti lengra, breiða net yfir lundabalana og fanga fullorðna fuglinn, þá flýði hann burt og kom seint eða aldrei til eyjarinnar aftur.

Þetta hafa menn gert sér ljóst með mörgum hætti og þess vegna unnið að því að gera hvort tveggja í senn: að friða og nytja.

Ég vil benda á eitt dæmi, sem ég hygg dálítið sérstakt, þó leitað sé nokkuð víða um land. Það var gert að frumkvæði útvegsmanna og sjómanna við Breiðafjörð að hlífa firðinum við netaveiðum. Samkvæmt reglugerð frá 1977 — áður frá 1969 — eru þorskveiðar í net bannaðar allt árið á Breiðafirði innan línu sem dregin er úr Skorarvita í Eyrarfjall við Grundarfjörð. Reglugerðarákvæði þessi voru sett samkv. heimild í lögum frá 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Að vísu eru heimamenn og fiskifræðingar ekki á einu máli um hvað þessi ráðstöfun geri mikið gagn, en heimamenn sitja fastir við sinn keip og telja að þetta hafi orðið til góðs.

Í grg. er farið dálítið aftur í tímann og minnst á till. sem við Sigurður Ágústsson fluttum 1956 um fiskirannsóknir á Breiðafirði og innfjörðum hans. Það var tekið fram í svari frá fiskideild atvinnudeildar Háskólans um þessa till., að litlar fiskirannsóknir hefðu verið gerðar á þessu svæði miðað við aðra landshluta, en þær væru sannarlega æskilegar, því að á þessum slóðum væri mikil uppeldisstöð fyrir margs konar góðfisk. Ég vil og nefna það, að margir hafa undrast að Hvammsfjörðurinn, sem er einn mesti fjörður landsins um, 45 km á lengd og 10–12 km á breidd og víða mjög djúpur, skuli vera algerlega fisklaus. Þetta telja menn ástæðu til að rannsaka og finna skýringu á þessu.

Þá er vikið í grg. að æðarvarpi, en segja má að þar skipti dálítið í tvö horn. Í byggðum eyjum tekst að vernda æðarvarpið. Fuglinn er spakur og gæfur og verður nánast heimilisvinur og þá tekst að vernda hann fyrir aðvífandi vargfugli og öðrum slíkum hættum. Þá nær hann að dafna. En hins vegar hefur þetta orðið sérstakt vandamál í þeim eyjum sem leggjast í auðn. — Má segja að þetta sé mikið vandamál í öllum Suðureyjum Breiðafjarðar. Við höfum okkar skýringar á því. Það er í fyrsta lagi, þegar fótkið flytur úr eyjunum. Í öðru lagi hefur vargfugli fjölgað gífurlega og er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að fækka honum. Við vitum t.d. að svartbakurinn er hin mesta plága í æðarvarpi. Og loks er það minkurinn sem hefur svo að segja lagt undir sig Suðureyjar Breiðafjarðar og reynst þar hinn versti vágestur sem engu lífi eirir. Þar er að mínum dómi alveg nauðsynlegt að hugsa upp ráð til þess að stemma stigu við ágangi þessa skæða rándýrs.

Vaknað hefur áhugi manna á þessum slóðum á að endurvekja æðarvarpið. Það hefur raunar vaknað áhugi um allt land, því að þetta er þjóðleg búgrein og nytsöm. Æðarræktarfélag Íslands var stofnað 1969, en ég nefni í grg. að snemma á s.l. ári var stofnað Æðarverndarfélag Stykkishólms.

Ég sagði áðan að saman þyrfti að fara könnun og verndun. Vissulega er fullrar aðgæslu þörf, einkum þegar nýjar atvinnugreinar eru upp teknar. Þá þarf að fylgjast vel með hvernig mál þróast. Ég nefni rækju- og skelfiskveiðarnar: rækjuveiðarnar í Grundarfirði, sem hófust 1969, og skelfiskveiðarnar á Breiðafirði, aðallega stundaðar frá Stykkishólmi, sem hófust þar að marki 1970. Það var um það leyti sem þær veiðar voru að hefjast, að flutt var og samþykkt á þingi svo hljóðandi till., með leyfi hæstv. forseta, flutt af mér og fleirum:

„Alþingi skorar á sjútvrh. að beita sér fyrir því, að settar verði nú þegar reglur um skelfiskveiðar á Breiðafirði. Jafnframt verði áhersla lögð á aukna leit að rækju, skelfiski og öðrum slíkum verðmætum á þessum slóðum með skynsamlega hagnýtingu fyrir augum.“

Þessi tillaga var samþykkt á því þingi.

Þá má ekki gleyma að minnast aðeins á þörungavinnsluna á Reykhólum. Vissulega er full þörf og rík nauðsyn að fylgjast með því, hvaða áhrif slíkt nám náttúrugæða hefur á lífríki fjarðarins.

Ég hef þessi orð ekki mörg í viðbót, en vil ítreka það einu sinni enn, að meginatriði þessarar till. er af tvennum toga spunnið: Í fyrsta lagi að lífríki Breiðafjarðar verði kannað efir föngum. Það er deginum ljósara, að þarna er margt sem rannsaka þarf betur en gert hefur verið hingað til. Það er fjölþætt og í raun og veru heillandi viðfangsefni. Í öðru lagi að stuðla að vernd þessa víðlenda lífríkis eftir því sem þurfa þykir. Þetta verði athugað í samráði við heimamenn og náttúruverndarsamtök.

Ég leyfi mér að vitna hér í 1. gr. laga um náttúruvernd. Við eigum allgóð og ítarleg lög um náttúruvernd frá 1971. Í 1. gr. þeirra er fjallað um hlutverk náttúruverndar og segir þar m.a., að tilgangur þeirra laga sé að stuðla að samskiptum manns og náttúru, þannig að ekki spillist að óþörfu líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft. Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt. Lögin eiga að auðvelda þjóðinni umgengni við náttúru landsins og auka kynni af henni. Það er sérstaklega nauðsynlegt að hyggja vel að þeim þáttum, sem hér hefur verið vikið að, þegar nýjar atvinnugreinar eru teknar upp, svo að ég ítreki það, þegar ausið er af nýjum auðlindum, sem mynda hina margbreyttu lífkeðju láðs og lagar á þessu svæði. Framar öllu er nauðsynlegt, að saman geti farið hófleg nýting og hæfileg friðun, eðlileg og ræktarleg samskipti manns og náttúru. Að því ber að vinna. Till. þessi er flutt; ef verða mætti til þess að stuðla að gengi góðs málefnis.

Ég leyfi mér, herra forseti, þegar þessari umr, verður frestað að gera það að till. minni, að málinu verði vísað til hv. allshn.