03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3788 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

346. mál, niðurfelling afnotagjalds af síma fyrir ellilífeyrisþega

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason vék að því, að menn teldu nauðsynlegt að gera betur við þá t. d. í þessu tilviki sem búa einir sér. Það er auðvitað rétt og það er viðurkennt og ég tel það eðlilegt. En ég vil til viðbótar því, sem ég áðan sagði, benda á það, að nú þegar eru ýmis frávik frá almenna lífeyrinum, líka frá almennu tekjutryggingunni, í framkvæmd tryggingalaganna hjá Tryggingastofnuninni, þannig að greitt er mismunandi til lífeyrisþega eftir því, hvernig þeirra persónulegu kringumstæður eru. Þó að þetta væri fært yfir á tryggingarnar og næði ekki yfir alla línuna, heldur tiltekna aðila, þá væri þar ekki verið að taka upp nýtt í sjálfu sér, heldur er slík tilhögun þekkt. Þess vegna gæti einungis verið um hreina tilfærslu að ræða hvað ríkið varðar, því að auðvitað er þetta allt eitt og sama og hér er um ríkisstofnanir að ræða.

Hv. þm. Oddur Ólafsson benti á það, að hækkun lífeyrisins væri ekkí næg trygging fyrir því, að þeir fengju símann sem þyrftu að hafa hann t. d. öryggis vegna. Þetta er vafalaust alveg rétt hjá hv. þm., enda þekkir hann þessi mál ákaflega vel vegna starfa sinna. En ég hefði álitið að óreyndu a. m. k., að það mætti leysa einnig þetta atriði á vegum trygginganna með sérstökum ákvæðum.

Ég vil að endingu árétta það sem ég sagði, að það er margs konar misnotkun á undanþágum sem þessum. Ég þekki það mætavel hjá Ríkisútvarpinu, því að ég fylgdist með því sérstaklega, og það var fljótlega orðið hálfgert vandræðamál. Annars vegar er það, að til er fólk sem svona notar sér þetta og gengur of langt, og svo er aftur á hinn veginn hættan á því, þegar farið er að sækja um og afla sér vottorða og þess háttar, að fólk, sem ekki má sín í því pappírsflóði, verði út undan og njóti ekki réttindanna þótt það eigi kost á þeim. Þess vegna held ég að þetta ætti að athuga betur og sverfa agnúana af þessu fyrirkomulagi um leið og það væri fært yfir á tryggingarnar. Það mundu menn gera að vel athuguðu máli og í rólegheitum og á meðan nytu aldraðir og öryrkjar þeirra réttinda sem þeir hafa nú samkv. þessum undanþáguákvæðum.