03.04.1979
Sameinað þing: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3790 í B-deild Alþingistíðinda. (2989)

176. mál, atvinnu- og efnahagsleg áhrif takmarkana á fiskveiðum Íslendinga

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Á þskj. 335 á ég þáltill. ásamt með nokkrum flokksbræðrum mínum og er hún um könnun á atvinnu- og efnahagslegum áhrifum takmarkana á fiskveiðum Íslendinga.

Ég óskaði eftir frestun á umr. um till. þessa þegar hún var hér á dagskrá síðast, af því að hæstv. sjútvrh. var ekki viðstaddur, en ég vildi gjarnan fá að heyra viðhorf hans til þessa mikilsverða máls. En mér liggur meira nú á hjarta en að mæla sérstaklega með þessari till. Það er vegna máls, sem er því skylt og blasir nú við hverjum sem fylgjast vill með í þjóðfélaginu.

Miklar umr. hafa farið fram um takmarkanir á sókn í hina ýmsu fiskstofna sem við álítum ofveidda, og á það sérstaklega við um þorskstofninn, og kunngerð hefur verið reglugerð um mjög miklar takmarkanir á sókn í þorskstofninn, að vísu ekki í þeim mæli sem lagt hafði verið til af sérfræðingum, en þó er um verulegan niðurskurð að tefla frá því sem var veitt á s. l. ári. Í þessum umr. hefur m. a. komið fram mikil gagnrýni á það, að loðnuveiðiskipum, sem yfirleitt eru stór og burðarmikil skip, hefur verið leyft einum 30 saman að hefja veiðar með þorskanetum, og enn fleira hefur komið fram í því sambandi, m. a. það, sem grunur leikur á um, að fjölmörg netaveiðiskip beiti ólöglegum fjölda af netum fyrir sig, leggi miklu fleiri net í sjó en tilskilið er samkv. reglugerð, og er áhersla lögð á að þetta verði rannsakað. Borist hafa fréttir um landburð af fiski hér hið næsta okkur, um öll Suðurnes og um Snæfellsnes, og nýlegar fréttir herma, að svo sé Komið að byrjað sé að vinna þorsk í fiskmjölsverksmiðjum. Saltskortur er víða, þannig að á Snæfellsnesi t. a. m, munu menn vera byrjaðir að verka nýjan þorsk og salta hann með úrsalti, eftir því sem nýjustu fréttir herma. Og þeir eru byrjaðir að hengja upp fisk í skreið, enda þótt markaður sé ekki glæsilegur á því sviði, og það er saltað í stórum stíl, því að öðruvísi hefst ekkert undan, enda þótt það sé margfalt verðminni fiskur nú en ef hann væri verkaður í neytendapakkningar í frystihúsum. Nú, þegar stendur hæst yfir hrygningartími, er sótt af offorsi með netatrossum, ólöglega mörgum að því er menn telja, í þorskstofninn og engar hömlur þar á settar. Þennan þorsk gætu togarar veitt á haustmánuðum, þegar liggur nú fyrir, að því er virðist, að þeir verði stöðvaðir, og sá fiskur færi til verkunar sem gæfi margfalt — fjórfalt, fimmfalt — meira verðmæti en með þeim aðförum, vil ég kalla það, sem hafðar eru í frammi við aflaverkun eins og nú standa sakir.

Ég vil biðja hæstv. sjútvrh., um leið og mig langar að heyra viðhorf hans til þessarar till. okkar, að svara því nú og strax, hvort hann hafi ekki kynnt sér þetta ástand, eins og ég þykist hafa sannar fregnir af að sé nú, og ef svo er, hvort hann hafi engin áform um að grípa í taumana með því t. d. að fyrirskipa minnkun á netatrossum skipa um helming, jafnvel stöðva þá ósvinnu sem nú virðist blasa við. Ef hann hefur ekki fylgst með þessu vil ég líka fá svar við því, hvort hann ætli ekki þegar í stað að láta gera á því könnun hvort farið sé hér með rétt mál eða ekki. Mér liggur hið mesta á að fá bein svör við þessu, sem ég nú hef sagt, og vænti þess fastlega að hæstv. sjútvrh. geti svarað mér þegar í stað um viðhorf sín til þess arna og upplýst um þá kunnugleika sem hann kann að hafa á þessu máli.

Ég ætla ekki og þarf ekki að orðlengja um þetta frekar, en mundi e. t. v. hafa einhverjar aths. fram að færa að fengnum svörum hæstv. ráðh.