03.04.1979
Sameinað þing: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3791 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

176. mál, atvinnu- og efnahagsleg áhrif takmarkana á fiskveiðum Íslendinga

Forseti (Gils Guðmundsson):

Það er eins og við var að búast, að hér er verið að ræða um mjög mikilvæg mál, sem margir eru að hugsa um þessa dagana, og það eru þegar fjórir hv. alþm. komnir á mælendaskrá í þessu máli. Ég vissi raunar, þegar ég tók þetta mál fyrir, að það er mjög ofarlega í margra hugum og ég hefði tæplega komist hjá því að taka svipað mál fyrir utan dagskrár nema því aðeins að þetta mál var á dagskránni.

Nú vil ég aðeins minna á að ég hafði boðað það í upphafi, að deildafundir hæfust ekki öllu seinna en kl. 5, og það er viðbúið að umr. um þetta mál verði að fresta um það leyti. Ég vil mælast til þess við þá hv. þm., sem taka hér til máls, að reyna heldur að stytta mál sitt með tilliti til þess að það er ekki nema svo sem klukkutími sem við höfum nú, en framhaldsumr. um þessi mál gætu trúlega ekki orðið í Sþ. fyrr en á fimmtudag.